Hin umtalaða kóreska húðrútína – 10 skref að fullkominni húð

Kóresk húðrútína hefur tekið yfir með stormi undafarin ár hér á Vesturlöndum og fengið gífurlegar vinsældir. Enda ekki skrýtið þar sem kóreskar húðvörur eru þekktar fyrir að vera ótrúlega góðar og innihalda góð innihaldsefni. En hvað felur þessi húðumhirða eiginlega í sér og er hún eitthvað öðruvísi en venjuleg húðrútína?

Austur Asíulöndin hafa tekið fram úr Vesturlöndum í nýjungum þegar kemur að húðumhirðu og förðunarvörum. Bæði með uppfinningum á nýjum vörum en einnig með því að nýta sér fornar austurlenskar aðferðir. Vinsældir þessara aðferða hafa verið að færast yfir á Vesturlöndin vegna árangursríkra aðferða þeirra við húðumhirðu. Vesturlöndin hafa markaðssett kóresku húðumhirðuna upp sem 10 skrefa rútínu fyrir húðina en hinsvegar segjast kóreskar konur sjálfar frekar hugsa um hvað sé hægt að gera til þess að fá fullkomna ljómandi húð, og þessar aðferðir ná sögulega mjög langt aftur í tímann.

 Í Kóreu áður fyrr hafði aðeins auðugt hástéttarfólk postulíns húð þar sem það fór aldrei út í sólina og þurfti ekki að vinna úti líkt og verkafólk. Þessi hugmynd um hina fullkomnu húð ríkir enn í dag og vilja kóreskar konur hafa hvíta og óaðfinnanlega húð.

Hér að neðan eru skrefin sem að kóresk húðrútína inniheldur.

Skref 1 – Hreinsa af farða með olíuhreinsi

Fyrsta skrefið er að hreinsa húðina með hreinsi sem er uppbyggður af olíum til þess að hreinsa húðina af öllu sem að inniheldur olíuuppbyggð efni eins og til dæmis í farða og sólarvörn. Mælt er með því að setja hreinsinn á þurra húð og nudda húðina vel áður en hún er skoluð með vatni.

Skref 2 – Hreinsa húðina með vatnshreinsi

Kóreska húðrútínan inniheldur tvöfalda húðhreinsun. Þessa aðferð hef ég notað sjálf í mörg ár og sé mikinn mun. Eftir fyrri húðhreinsun er fylgt eftir með vatnsuppbyggðum hreinsi eins og til dæmis gelhreinsi eða mjólkurhreinsi.

Þarf virkilega að hreinsa húðina tvisvar? Já, þetta er gert til þess að taka allt sem eftir er á húðinni eins og óhreinindi og svita, og til þess að djúphreinsa húðholurnar. Þessi aðferð tekur gjörsamlega allt sem eftir er af húðinni sem að olíubyggði hreinsirinn tók ekki, og þú nærð mun betur að losa óhreinindi úr húðholum.

Skref 3 – Andlitsskrúbbur

Næsta skref er andlitsskrúbbun. Nú þegar húðin er algjörlega hrein þá er næsta skref að skrúbba húðina og taka allar dauðar húðfrumur í burtu. Það hjálpar við endurnýjun húðarinnar og gerir það að verkum að húðin verður ótrúlega hrein, jöfn í útliti og ljómandi. Andlisskrúbbar gera einnig húðina mýkri.

Kóreskar konur leggja áherslu á hina náttúrulegu fegurð og einbeita sér að því að ná fallegri húð með því að hugsa um húðumhirðuna sjálfa frekar en að nota aðeins farða til að húðin líti vel út. Ávaxtasýrur geta nýst mjög vel í þessu skrefi og sem ég tel nauðsynlegar í alla húðrútínu, enda skrúbba þær húðina og hjálpa við endurnýjun húðfruma.

 

Skref 4 – Andlitsvatn

Ég hef heyrt að í Kóreu fari konur eftir 10 sekúndna reglunni, en eftir að hafa hreinsað húðina þarf húðin að fá raka aftur og því lengur sem að maður bíður því þurrari verður húðin. Því bera þær andlitsvatn á húðina innan við 10 sekúndur eftir að húðin er hreinsuð. Margir halda að andlitsvatn (eða tóner) sé óþarfi, en það er það alls ekki. Andlitsvatnið ætti að velja eftir þinni húðtegund en hann jafnar sýrustig (pH gildi) húðarinnar, gefur húðinni raka og jafnar lit húðarinnar.  

Skref 5 – Essence

Næst er að nota Essence,  sem er eitthvað sem er ekki jafn þekkt í húðumhirðu hér á Vesturlöndum, en þetta er hjarta kóresku húðrútínunnar og er einstakt í þeirra menningu. Essence er vara sem má skilgreina sem blöndu af andlitsvatni og serumi. Þessi vara er vatnsuppbyggð og er algjör næringarvökvi fyrir húðina sem hefur henni sprengju af raka. Essence hjálpar til við að jafna rakastigið í húðinni eftir hreinsunina og skal bera þetta á stuttu eftir andlitsvatnið. En einnig er sérstök aðferð til að bera þetta á andlitið og það er að klappa (e.pat) vörunni létt á andlitið mjög blíðlega með flatri hendi. Ekki skal nudda því inn eða strjúka vörunni á.

Skref 6 – Meðferð

Í þessu skrefi skal nota virkar húðvörur sem innihalda einhverskonar meðferð fyrir húðina – eftir því hvað húðin þín þarfnast. Hér skal taka á sólarblettum, ójafnri húð, bólum, mislitri húð eða fínum línum til dæmis. Oft eru hér notuð serum eða “ampoule”. Oft er gott að nota rakamikil og nærandi serum sem að koma í veg fyrir fínar línur.  Einnig skal klappa þessari vöru létt yfir andlitið. Hér væri til dæmis upplagt að nota retinol, sem er mjög virkt efni til að fyrirbyggja fínar línur.

Skref 7 (skal gert nokkrum sinnum í viku) – Sheet Maski

Þetta skref skal gera nokkrum sinnum í viku eða þegar þinni húð hentar. Maskar í Kóreu eru ótrúlega vinsælir og fjölbreytilegir, og innihaldsefni maskanna eru alltaf mjög vönduð og góð.

Sheet maska skal nota reglulega á húðina til að næra hana og gefa róandi upplifun í leiðinni. Þá skal velja maska sem hentar þinni húð.

 

Skref 8  – Augnkrem

Mikilvægt skref í hverri húðrútínu er að nota gott augnkrem. Húðin okkar á augnsvæðinu er mjög viðkvæm og verður oft fyrst til þess að mynda fínar línur. Það þarf að nota augnkrem til að viðhalda húðinni góðri og best er að fyrirbyggja að fínar línur myndist, í stað þess að ætla að laga þær eftir á. Kóreskar konur byrja því snemma að nota augnkrem. Passa skal að bera augnkremið á með baugfingri (sem lætur minnstan þrýsting á húðina) og alls ekki draga húðina þegar maður setur kremið á. Ég mæli með augnkremi sem inniheldur retinol – líkt og RapidEye augnkremið sem að var í fyrsta Beautyboxinu.

Skref 9 – Rakakrem eða andlitsolía

Að sjálfsögðu skal líka bera gott rakakrem á húðina eða andlitsolíu til að gefa góðan raka og viðhalda mjúkri húð. Þá skal velja rakakrem sem að hentar þinni húð, til dæmis ef þú ert með feita og bólótta húð skaltu velja olíufrítt krem. Nota skal vel af rakakremi á hverjum degi samkvæmt kóreskri húðumhirðu, jafnvel nokkrum sinnum yfir daginn.

Skref 10 – Sólarvörn eða svefn maski

Á morgnanna: Í kóreskri húðrútínu skal passa sérstaklega upp á að verja húðina með sterkri og góðri sólarvörn hvern einasta morgun. Þá skal nota sólarvörn með SPF30 eða hærra – helst SPF50. MIkilvægt er að verja húðina gegn UV geislum sólarinnar sem að skaða húðina og framkalla öldrun húðarinnar og litamismun í húðinni (eins og sólarbletti). Einnig þurrkar sólin húðina upp. Í Austur-Asíu er eftirsótt að hafa hvíta og fallega húð og forðast alveg sólina – því hvítari húð því betri.
Á kvöldin: Skal nota maska til að sofa með (e. sleeping mask) sem að inniheldur virk og góð efni. Til dæmis rakagefandi maska til að sofa með, eða með einhverri ákveðinni virkni sem tekur á meðferð fyrir húðina.

 

Þetta virðast vera rosalega mikið af mismunandi vörum og kremum sem að þarf að bera á, en ég hef heyrt um fólk sem prófar þessa húðrútínu í ákveðinn tíma sér mikinn mun á húð sinni. Skrefin taka um 20 mínútur að gera (þá daga sem að maður setur ekki á sig maska) og ég tel það ágætis tímalengd til þess að eyða tíma í sjálfan sig og dekur til að slaka á.

Kóresku húðrútínunni fylgir einnig ákveðinn lífsstíll til þess að viðhalda góðri húð. En það er að borða hollt – mikið af ávöxtu, grænmeti, hentum og linsubaunum. Einnig er mælt með að fara snemma að sofa, stunda líkamsrækt reglulega og forðast stress.

Margrét Magnúsdóttir er hár- og förðunarfræðingur, og er nýflutt til Íslands eftir að hafa starfað í London í 6 ár. Margrét hefur starfað við allskonar skemmtileg verkefni eins t.d. og Vogue Online, Will.I.Am tónlistarmyndband, Topshop, BBC, tímarit og bíómyndir. Margrét er einnig eftirsótt í brúðkaupsfarðarnir en hún ferðast reglulega erlendis til þess að farða fyrir brúðkaup. Margrét hefur mikinn áhuga á húðumhirðu, hári, förðun og fallegum hlutum.

Hægt er að fylgjast með Margéti hér ♥:

Heimasíða : www.margretmagnus.com
Instagram: www.instagram.com/margretmagnus
Snapchat: @margretmagnus

1 thoughts on “Hin umtalaða kóreska húðrútína – 10 skref að fullkominni húð

  1. Sigrún Jóhannesdóttir says:

    Sælar
    Ég er með rosalega vesenis húð er með rósroða og ofsalega þura húð… ég var að skoða hjá ykkur 10 skref að fullkominni húð og langar að prufa þetta en þar sem ég veit aldrei hvernig húðin mín bregst við er ég frekar hrædd við að versla fullt af vörum sem húðin mín kannski þolir ekki… er einhver séns að fá að kaupa prufur áður ?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *