Hver er munurinn á rakakremi, dagkremi og næturkremi?

Í frumskógi snyrtivaranna er ekki nema von að við höfum fengið þessa spurningu oft. Því er löngu kominn tími á blogg sem að útskýrir hver munurinn er á rakakremum, dagkremum og næturkremum og af hverju við ættum að vera að pæla í þessu. Er ekki bara eitt krem nóg? Eða er þess virði að eiga 2?

Rakakrem

Rakakrem eru krem sem gefa húðinni raka. Sum krem eru aðeins kölluð rakakrem, önnur dagkrem og hin þriðju næturkrem. Í raun og veru eru langflest krem kölluð rakakrem eða á ensku moisturizer, lotion, emulsion eða gel moisturizer. Rakakrem getur þú notað morgna og kvölds en ef kremin heita dagkrem eða þeim er lýst sem slíkum þá henta þau betur á daginn, og ef þau heita næturkrem þá henta þau betur á kvöldin.

Bæði dagkrem og næturkrem falla nefnilega undir hópinn rakakrem en hafa þau sérstök innihaldsefni sem aðstoða húðina á mismunandi tíma sólarhringsins. Til þess að útskýra betur af hverju þið ættuð að pæla í því að eiga bæði dag og næturkrem þá langar mig fyrst að tala um dægursveiflur líkamans. Líkaminn okkar er nefnilega svo svakalega mangaður að frumurnar okkar vinna öðruvísi á mismunandi tíma sólarhringsins. Alveg eins og við reynum (oftast) að halda okkur í rútínu og gera ákveðna hluti á sama tíma sólarhringsins þá gera húðfrumurnar okkar það líka! MAGNAÐ!

HVað gerist í húðinni á kvöldin og á nóttunni?

Húðin okkar er virkust á næturnar á meðan við sofum. Frá klukkan 21 til sirka klukkan 23 eykst melatónín hormónið í líkamanum okkar og ásamt því að gera okkur þreytt þá gefur það húðinni okkur þann eiginleika að byrja að vinna í skaðanum sem hefur gerst yfir daginn, sem dæmi frá sólinni og umhverfisáhrifum. Út af því að húðin þarf ekki lengur að hugsa um að verja sig þá fer hún í viðgerðarham. Bólgueyðandi og stresseyðandi hormónar flæða um líkamann og blóðflæði til húðarinnar eykst. Á milli sirka 23-04 á nóttunni getur húðfrumuframleiðsla okkar tvöfaldast og ef við náum djúpsvefni getur hún allt að þrefaldast! Út af því hvað húðin er virk á þessum tíma er hún einstaklega mótækileg fyrir nærandi og góðum innihaldsefnum og sérstaklega fyrir innihaldsefnum sem hafa anti-ageing áhrif og hvetja húðfrumurnar okkar til að styðja við framleiðslu kollagens og elastín.

EN það sem margir vita ekki að þó svo að líkamshiti okkar lækkar á nóttunni þá rís hitinn í húðinni okkar (líkaminn enn og aftur magnaður að dreifa álagi) en með þessum aukna hita þá missum við rakann úr húðinni mun hraðar á nóttunni en en á daginn.

Svarta línan sýnir líkamshita í endaþarmi.

Bláa línan sínir líkamshita húðarinnar þar með talið hendur og fætur.

Rauða línan sínir líkamshita á enni, bringu, maga, lærum.

Hvað gerist í húðinni á morgnana og á daginn?

Út af því hversu mikinn raka húðin getur misst á nóttunni þá getur húðin einmitt verið þurrust á morgnana. Með auknum þurrki þá er hún einnig viðkvæmari fyrir umhverfisáhrifum svo sem sól og umhverfisáhrifum (mengun, kulda, hita). En húðin okkar er líka mögnuð og hún reynir að verja sig með því að framleiða húðfitu til að reyna að búa til verndarhjúp frá umhverfis áhrifum og sólinni. Þess vegna upplifa margir extra feita húð í kringum 3 leitið á daginn. Hér er því tilvalið að benda á að þeir sem eru með feita húð eiga alls ekki að sleppa léttu rakakremi (og enginn ætti að sleppa sólarvörn) því réttu vörurnar hjálpa húðinni að halda sér í jafnvægi.

Með þessar upplýsingar við höndina kíkjum því á muninn á dagkremum og næturkremum

Dagkrem

Dagkrem eru rakakrem sem innihalds sérstök innihaldsefni sem vernda húðina yfir daginn og fríska hana upp á morgnana. Ásamt því að vera rakagefandi þá innihalda þau oft frískandi innihaldsefni svo sem koffín, mintu, gúrku og ginseng sem lífga upp á húðina á morgnana og jafnvel draga úr vökvasöfnuði. Ásamt því er mjög algengt að dagkrem innihaldi andoxunarefni og vítamín sem hjálpa húðinni að verja sig gegn sólinni og umhverfisáhrifum. Dagkrem geta líka innihaldið plöntuþykkni sem vernda húðina gegn kulda á daginn og henta því einstaklega vel á veturna hér á landi. Mörg dagkrem innihalda einnig sólarvörn. 

Einnig þar sem margar af okkur kjósa að farða okkur, þá viljum við einnig passa að kremið okkar fari hratt inn í húðina og sé nógu létt til að allt sem kemur ofan á fari vel á. Þess vegna eru dagkrem oft léttari í áferð en næturkrem og fara hraðar inn í húðina. Og síðast en ekki síst þá eru líka til dagkrem sem eru lituð og margir kjósa að nota í stað farða.

Hlutverk dagkrema er því að vernda húðina, fríska hana upp og passa að rakinn haldist í henni yfir daginn.

Næturkrem

Eins og áður segir þá er húðin okkar mun mótækilegri á kvöldin og því innihalda næturkrem oft mun virkari efni en dagkrem. Sem dæmi er frekar mælt með því að nota retinól og ávaxtasýrur á kvöldin því virku efnin gera húðina mun viðkvæmari fyrir sólinni á daginn. Næturkrem innihalda einnig oft mun meira magn af næringarríkum efnum heldur en dagkrem í sömu línu. Ástæðan fyrir því er að húðin er mótækilegri fyrir þessum efnum á nóttunni og þar sem við erum ekki að fara að farða okkur strax eftir á þá geta þau setið aðeins lengur á húðinni sem gefur henni tíma til að taka þau inn.

Eins og áður segir þá hækkar hitinn í húðinni okkar á nóttunni og missum við því mun meiri raka á nóttunni heldur en á daginn. Þær konur sem að eru eða hafa gengið í gegnum tíðarhvörf hafa sérstaklega fundið fyrir því. Á þessum aldri koma næturkrem einstaklega sterk inn því þau innihalda oft tvöfalt meiri rakabindandi efni og fleiri góðar olíur sem að koma í veg fyrir að við missum raka úr húðinni yfir nóttina.

Þarf ég bæði?

Trúið mér ég hef pælt í þessu líka!

Vel og lengi vel átti ég bara eitt krem sem ég notaði kvölds og morgna. En ég áttaði mig svo á því að ég set á mig rakakrem kvölds og morgna, og því get alveg eins átt tvær krukkur því þær endast mér þá tvöfalt lengur en eitt krem sem ég myndi nota tvisvar sinnum á dag. En með því að eiga 2 krem þá get ég líka valið krem út frá því sem ég vil að það geri fyrir mig. Sem dæmi finnst mér mjög gott að eiga frískandi og létt dagkrem og feitt nærandi næturkrem.

En ég nota líka stundum sama kremið kvölds og morgna og fyrir þær sem að finnst þetta vera of flókið eða vilja fá virknina úr öðrum vörum, þá erum við líka með mörg góð krem sem eru frábær bæði kvölds og morgna.

Ekki hika við að senda okkur skilaboð ef þið hafið spurningar.

Íris Björk Reynisdóttir

4 thoughts on “Hver er munurinn á rakakremi, dagkremi og næturkremi?

    • Beautybox.is says:

      Hæhæ ekkert mál að senda erlendis en við þurfum að reikna út sendingarkostnað og taka frá VAT og svona 🙂 – endilega sendu okkur email á beautybox@beautybox.is og við finnum út úr því.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *