Hver er tilgangurinn með rakavatni og tóner?

Í Regnboga Beautyboxinu leyndist Erborian YuZa Double Lotion sem er blanda af rakavatni og tóner. En hver er tilgangurinn með því að nota tóner og rakavatn og hver er munurinn?

 

Tónerar

Það er ekki svo langt síðan að flestir andlitshreinsar voru að mestu byggðir upp sem sápur og voru því mun basískari en þeir hreinsar sem eru á markaði í dag. Hreinsarnir skildu húðina oftar en ekki eftir í ójafnvægi og var hlutverk tónera þá aðallega að koma PH gildi húðarinnar aftur í lag.

Áður fyrr voru tónerar einnig notaðir eins og annað skref í hreinsun, eða til þess að ná restinni af farða og óhreinindum af húðinni. Hreinsar í dag eru þó mun fullkomnari og eru tónerar í dag oftast notaðir til þess að ná fram einhverri sérstakri virkni.

Til eru ýmsar tegundir af tónerum og er yfirleitt tekið fram hvaða húðtegund þeir henta best. Tónerar eru með léttri áferð, oft þunnir og vatnskenndir.
Þeir innihalda yfirleitt ávaxtasýrur, níasínamíð, C-vítamín eða önnur innihaldsefni sem hafa þann tilgang að skrúbba húðina mjúklega, draga saman ásýnd húðhola eða birta húðina.
Ef þú ert með þurra eða viðkvæma húð, mælum við með því að þú veljir tóner sem inniheldur rakagefandi innihaldsefni og ekki alkahól. Tónerar eru oftast bornir á húðina með því að nota bómull og er húðin því skrúbbuð mjúklega í leiðinni.

Rakavötn

Rakavötn eru frábrugðin tónerum á þann hátt að aðal tilgangur þeirra er að gefa húðinni raka og næra hana. Rakavötn eru yfirleitt þykkari en tónerar en þynnri en serum. Ég viðurkenni fúslega að það er ekki langt síðan að ég sá tilganginn með rakavötnum. En eftir að ég byrjaði á húðlyfjum sem þurrkuðu húðina mína alveg upp, þá fann ég hversu mikil snilld rakavötn eru fyrir þurra húð.

Rakavötn eru fyrsta skrefið í húðrútínunni eftir hreinsun (og eftir tóner ef það er sitthvor varan) og eru notuð á undan serumi og rakakremi. Þau stútfylla húðina af raka sem þú svo læsir inni með serumi og/eða rakakremi. Fólk sem er með olíukennda húð geta jafnvel komist upp með að nota rakavatn eitt og sér. Þeir sem eru með skegg þykja rakavötn oft betri kostur þar sem þau geta verið þægilegri en rakakrem yfir skeggrótina.

Yuza Double Lotion

Erborian Yuza Double Lotion er blanda af bæði rakavatni og tóner þar sem formúlan er tvískipt og inniheldur bæði vatnsfasa og olíufasa sem saman gefa húðinni ljóma, næra hana og fylla af raka. Rakavatnið er unnið úr yuzu ávextinum sem er ríkur af andoxunarefnum eins og C-vítamíni. Það inniheldur einnig lakkrísrótarþykkni sem veitir húðinni bjart yfirbragð og hýalúronsýru sem stútfyllir húðina af raka. Yuza Double lotion hentar öllum húðgerðum en sérstaklega þurri og rakaþurri húð.

Vörunar frá merkinu Erborian hafa svo sannarlega slegið í gegn hjá okkur eftir að CC kremið þeirra var í síðasta Beautyboxi okkar. Erborian sameinar krafta kóreska og franska húðvara og eru CC og BB kremin þeirra algjörlega frábærar, en húðvörurnar gefa ekkert eftir í gæðum.

Við mælum með að skoða „Seven Skins“ aðferðina ef þú ert með mjög þurra húð, sú aðferð er líka algjör snilld þegar að það fer að kólna úti og húðina skortir raka. Til að skoða Seven Skins aðferðina smelltu HÉR.

Sýnikennsla

Við mælum svo eindregið með því að horfa á sýnikennslu í boði Auðar Jónsdóttur förðunarfræðings sem býr og starfar í Los Angeles en Beautyboxið okkar ferðaðist alla leiðina til hennar fyrir myndbandið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *