7 Skins Method – nýjasta trendið frá Kóreu

7 Skins Method eða 7 laga leiðin eins og við ætlum að kalla hana er kóreskt húðumhirðu trend sem felur í sér að setja 3-7 umferðir af rakavatni, essence, rakaspreyi eða toner (sem þurrkar ekki) á hreina húðina áður en rakakrem er sett á.

Við uppgötvuðum þetta trend eftir að fylgjast með í alþjóðlegri húðgrúbbu á Facebook. Þar var kona sem spurði meðlimi í grúbbunni hvað það hefði verið sem breytti öllu í húðrútínunni þeirra. Flestir svöruðu því að tvöföld hreinsun hefði breytt mestu, en það voru mjög margir sem töluðu um 7 Skins Method. Þegar svona margir mæla með einhverju þá þurfum við auðvitað að prófa og vitið menn – þetta virkar og er sérstaklega gott fyrir þurra eða rakaþurra húð.

Tilgangurinn með 7 laga leiðinni er að drekkja húðinni í raka með því að nota rakagefandi tóner, rakavatn, andlitssprey eða essence. Það sem er áhugavert við þetta trend er að það eru margir sem að eiga þessar vörur til í skápnum sínum, en leggja kannski ekki mikla áherslu á þær vörur. Þú getur notað sömu vöruna 3-7x eða notað mismunandi þunnfljótandi rakagefandi vörur hverja á fætur annarri.

Svona beitir þú aðferðinni:

  1. Byrjaðu á því að hreinsa húðina. Við mælum með tvíhreinsun.
  2. Berðu strax á þig 1 umferð af rakavatni, tóner, essence eða andlitsspreyi.
  3. Þrýstu rakanum inn í húðina.
  4. Bíddu í 30 sek eða þann tíma sem það tekur húðina að draga inn í sig rakann.
  5. Endurtaktu 3-7x með sömu vörunni eða öðrum vörum í sama flokki.
  6. Þú finnur það þegar húðin er orðin rakafull og tekur ekki lengur við vörunum. Þú gætir t.d. bara þurft 3 skipti en ekki 7.
  7. Berðu á þig serum ef þú notar serum.
  8. Berðu á þig rakakrem til að læsa rakann inn í húðinni.

Aðferðinni er hægt að beita bæði kvölds og morgna en það eru ekki allir sem fíla að nota hana á morgnanna á undan farða, en það er um að gera að prófa og sjá.

Þessi aðferð er einstaklega góð fyrir þau sem nota Tretinoin og Retinol því þær vörur eiga það til að þurrka húðina upp í byrjun og því er ofboðslega gott að dæla í hana góðum raka svo hún flagni sem minnst.

Ágætt er að hafa í huga að nota vörur sem eru með þann tilgang að næra húðina og gefa henni raka og pass að nota t.d. ekki tóner sem inniheldur mikið af ávaxtasýrum eða öðrum virkum innihaldsefnum. Hér viljum við helst bara góðan dásamlegan raka.

Við mælum með því að þið prófið, og hlökkum til að heyra hvað ykkur finnst.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *