Við erum heppnar að fá að eldast 😊 og að sjálfsögðu eldumst við allar eins og eðalvín og verðum betri með hverju árinu. En með aldrinum breytumst við líka og þurfum við því stundum að endurhugsa og breyta okkar förðunar venjum til þess að ná að draga fram það besta í okkar útliti. Bloggið er ekki skrifað fyrir neinn ákveðin aldursflokk heldur ættu flestir sem eru aðeins byrjaðir að finna fyrir breytingum að geta dregið einhvern fróðleik úr.
Þetta blogg er heldur ekki hér til þess að segja þér að þú megir ekki nota glimmer og sterka liti því þú ert ekki unglingur, ef þú elskar glimmer, vertu með glimmer, ef þú elskar sterka liti notaðu sterka liti. En ef þú finnur að förðunin sem gaf þér einu sinni sjálfstraust er ekki alveg að virka lengur þá eru hér nokkur ráð 😊
Húðin
Undirbúningur:
Við ætlum að einblína á förðun en ef þú vilt meiri fróðleik um húðumhirðu sem dregur úr áhrifum öldrunar eða fyrir þroskaða húð þá mælum við með að kíkja hér: https://beautybox.is/hver-er-munurinn-a-anti-aging-vorum-og-vorum-fyrir-throskada-hud/ .
Við þurfum samt að nefna undirbúninginn því grunnurinn er alltaf mikilvægastur áður en við höldum áfram. Rakagefandi serum (valkostur) og gott rakakrem sem hentar þinni húð er algjört lykilatriði. Ef þú ert með mjög þurra húð og jafnvel þurrkubletti þá langar mig að benda á það að það er enginn farði sem að hylur þurrk heldur þarf að meðhöndla hann áður en farðinn er settur á. Þurrkurinn er einfaldlega dauðar húðfrumur sem þarf að fjarlægja áður en raki er borinn á húðina. Til að gera það er best að nota skrúbb, annað hvort ávaxtasýruskrúbb eða t.d. sykurskrúbb og skrúbba mjúklega dauðu húðfrumurnar í burtu.
Farðagrunnur, farði og hylljari
Því miður er ekki hægt að fela hrukkur með farða, og ef það er eitthvað sem dregur fram hrukkur þá er það mikill, þekjandi og mattur farði. Leyfum hrukkunum því að njóta sín og einblínum frekar á áferð og að jafna út litinn fyrir yngra yfirbragð.
Betra er því að nota farðagrunn sem að lagar áferð húðarinnar og mælum við með að skoða þetta blogg hér ef þú vilt finna farðagrunn sem hentar þinni húð: https://beautybox.is/hvernig-fardagrunnur-hentar-ther-best/. Í stað þekjandi ferða er mælt með að nota léttari og meira ljómandi farða, BB eða CC krem til að jafna út húðlitinn og gefa húðinni unglegan ljóma. Ef þú ert með sólarskemmdir eða bletti sem þú vilt hylja betur þá mæli ég frekar með að nota góðan hyljara einungis á þau svæði sem þurfa meiri athygli. Ágætt er að nota litlaputta eða lítinn bursta í þetta verk og „blettahreinsa“ en ekki smyrja hyljaranum yfir allt andlitið. 😊
Í myndbandinu hér fyrir neðan sýnir einn færasti förðunarfærðingur í heimi, Lisa Eldridge, mjög fallega förðun og deilir sínum ráðum.
Ef þú átt nú þegar þykkan mattan farða þá mæli ég með að gera smá tilraun og t.d. prófa að blanda honum saman við smá rakakrem og ljómakrem á handabakinu og þá ertu komin með þynnri og meira ljómandi farða.
Púður og Kinnalitir
Púður
Til þess að halda unglegum ljóma í húðinni er mikilvægt að púðra hana ekki um of. Betra er því að sleppa því að nota tól eins og t.d. svamp eða mjög þéttan stóran bursta, og nota því í staðin minni og meira fluffy bursta til að bera púðrið á. Mikið og þekjandi púður mattar og þurrkar húðina og á það til að setjast í fínar línur.
Við mælum alveg einstaklega mikið með Becca Hydra Mist púðrinu sem var í Sumarpartý boxinu til þess að dragar úr glans en þurrka húðina ekki.
Allt um það hér: https://beautybox.is/blautt-pudur-hvers-konar-galdrar-eru-thad-eiginlega/
Kinnalitur
Kinnalitur getur gert alveg rosalega mikið fyrir okkur og þá sérstaklega til þess að gefa okkur unglegt frísklegt útlit. Mig langar að hvetja ykkur til að prófa að nota krem kinnaliti þar sem að þeir gefa húðinni enn meiri frískleika en púður kinnalitir. Til þess að bera krem kinnalit á er langbest að nota bara puttana og dúmpa og dreifa úr kinnalitnum þannig.
Sólarpúður
Sólarpúður og skyggingarvörur eru líka mjög góð leið til þess að gefa andlitinu lit og móta það betur ef andlitsfallið hefur breyst. Auðveldast er að byrja á enninu og teikna 3 niður andlitið, undir kinnbeinin og kjálkann. Mælt er með að nota matt sólarpúður frekar en sólarpúður með shimmer í, þar sem að glitrið gæti dregið fram fínar línur.
Augnsvæði
AUGNSVÆÐI
Þegar kemur að augnsvæðinu er mikilvægast að hafa eitt í huga, að hugsa upp! Við viljum nýta förðunina okkar í að opna augun og stækka augnsvæðið.
Augabrúnir
Augabrúnirnar eru mikilvægar til að ramma inn andlitið og gera mikið fyrir okkar heildarútlit. Mæli ég með að fjárfesta í góðu augabrúna geli og nota það til að draga hárin upp á við og stækka þannig augnsvæðið – þessa aðferð má sjá í myndbandinu fyrir neðan. Gelið getur verið glært, en einnig með smá lit í eftir því hvað þú fílar. Gott er svo að móta og fylla inn íaugabrúnirnar með augabrúnablýanti eða púðri.
Ef þú ert með mjög þunnar augabrúnir og lítið til að vinna með mæli ég með RapidBrow sem að örvar hárvöxt augabrúnanna.
Augu
Með aldrinum þá þynnist húðin í kringum augun og eiga augnlokin til að verða smá rauðleit eða æðaber sem getur gert okkur þreytuleg. Að nota örlítinn hyljara eða augnskuggagrunn getur gert mjög mikið til að birta upp augun og jafna litinn. Einnig endist augnförðunin lengur.
Augnlokin eru einnig oft það fyrsta sem að fer að færast aðeins til hjá okkur og er þá mjög algengt að blauti augnblýanturinn sem þú hefur alltaf notað sé hættur að henta þér. Erfiðara verður að gera beina skarpa línu og á hann til að smitast. Aftur á móti þá gerir það alveg rosalega mikið fyrir konur að móta og leggja áherslu á augun svo það er alls ekki ástæða til þess að sleppa því alveg að ramma inn augun.
Þrátt fyrir að Shelbey Wilson í myndbandinu hér fyrir neðan sé enn ung þá gefur hún, mjög góð ráð. Mælum með að horfa.
Í stað þess að nota blautan augnblýant þá mæli ég með að prófa að nota þurran augnblýant eða lítinn skáskorinn bursta og dökkan augnskugga til að móta augun. Dökkbrúnn kemur alltaf rosalega vel út, og jafnvel betur en svartur, sérstaklega í dagförðun. Það er auðveldara að vinna með augnskugga og þurran augnnblýant en blauta línu og kemst maður nær augnhárunum. Ef þér finnst þér vanta aðeins meiri skerpu er hægt að bleyta burstann örlítið og þá verður liturinn sterkari. Eins og áður segir, hugsið upp og passið að endinn á línunni beinist upp en ekki niður.
Að nota kremaðan augnblýant í neðri vatnslínu getur svo gert kraftaverk til þess að opna augun enn betur og hvítta þau án þess að það sé óraunverulegt eða of 90s. Ég mæli með Max Factor Kohl Kajal Liner í litnum Beige.
Maskari er svo himnasending og enn betra er að nota augnhárabretta. Beinið athyglinni á efri augnhárin og setjið minna á neðri, eða jafnvel sleppið því. Öll athyglin upp á við.
Varir
Með aldrinum þynnast varirnar og verður því erfiðara að nota matta og mjög langvarandi varaliti. Gott er að næra varirnar vel bæði morgna og kvölds og nota ljósari og meira glansandi varaliti eða glossa. Varablýantur í þínum náttúrulega lit gerir líka mjög mikið og hægt er að móta og stækka varirnar örlítið svoleiðis. Til þess að finna út hver þinn „náttúrulegi“ varablýantur er, reyndu að velja lit sem er sem líkastur litnum sem er innan á vörunum þínum.
Einnig langar mig að hvetja ykkur til að hugsa vel um tennurnar allt ykkar líf, það er ástæða fyrir því að Hollywood stjörnurnar hafa flestar látið laga á sér tennurnar en heilbrigðar hvítar tennur geta yngt okkur um mörg ár.
Íris Björk Reynisdóttir