Hvað er að tvíhreinsa húðina?

Fyrr á árinu sá ég skoðanakönnun inn í Caroline Hirons Skinfreaks grúbbunni á Facebook (sem ég mæli með fyrir alla áhugasama um húðumhirðu) þar sem ein í hópnum spurði meðlimi hvað það væri sem hefði breytt mestu fyrir húðina þeirra. En það sem var einna helst áberandi var hversu margir sögðu að tvíhreinsun húðarinnar hafi verið það sem gerði mest fyrir þau. En hvað er eiginlega að tvíhreinsa húðina?

Tvíhreinsun húðarinnar

Tvíhreinsun húðarinnar þýðir í stuttu máli að hreinsa húðina tvisvar í röð á kvöldin. Fyrra skrefið er til þess að hreinsa farða, mengun og sólarvörn. Seinna skrefið er til þess að hreinsa húðina enn betur. Besta útskýring sem við höfum heyrt af þessari aðferð er að fyrra skrefið sé eins og að fara úr fötunum og seinna skrefið sé eins og að fara í sturtu.

Þið hafið kannski heyrt um hugtökin farðahreinsir (makeup cleanser eða remover ) og andlitshreinsir (facial cleanser) en það er fullkomlega eðlilegt að hafa ekki pælt í muninum á þeim. En hver hefur ekki lent í því að kaupa sér hreinsi sem er alveg glataður í að taka af farða? En ef betur er horft þá var kannski aldrei aðal starf hreinsisins að taka af farða, heldur djúphreinsa húðina.

Í Regnboga Beautyboxinu leyndust einmitt 2 hreinsar sem tilvalið er að nota í tvíhreinsun húðarinnar. Báðir hreinsarnir eru frá húsjúkdómalækninum Dr. Dennis Gross sem hefur einkennisorðið „Never throw the skin off balance“ eða „Það á aldrei að koma húðinni í ójafnvægi“. Hreinsarnir eiga það sameiginlegt að vera mildir en með frábærum stjörnu innihaldsefnum.

Farðahreinsar

Farðahreinsar bræða af farða, olíu, sólarvörn og mengun frá umhverfinu. Ef að þú áttir bara kósí dag og settir hvorki á þig sólarvörn né farða þá er farðahreinsir í raun og veru algjör óþarfi og þú getur skellt þér beint í andlitshreinsinn, en á þeim dögum sem öllu er tjaldað til, þá mælum við eindregið með gera bæði skrefin.

Farðahreinsar eru oft, en alls ekki alltaf byggðir upp með olíu. Ef þeir innihalda mikið magn af olíu þá mælum við sérstaklega með að nota líka andlitshreinsi svo að það sitji ekki eftir olía á húðinni. Olía er alls ekki slæm, en getur komið í veg fyrir að vörurnar sem þú notar á eftir hreinsuninni eins og serum og rakakrem, nái að fara inn í húðina.

Dr. Dennis Gross Hyaluron Marine Meltaway

Ef þú ert með einhverskonar húðvandamál svo sem stíflaðar húðholur eða vægar bólur þá er olíuhreinsir ekkert endilega versti óvinur þinn, á meðan þú notar einnig andlitshreinsi sem hentar þinni húð eftir á. En það eru ekki allir sem að vilja olíu á húðina og því völdum við olíulausa farðahreinsinn frá Dr. Dennis Gross Hyaluron Marine Meltaway í Beautyboxið okkar. Hreinsirinn er mildur og rakagefandi og inniheldur hýalúrónsýru, sjávarþörunga sem eru ríkir af amínósýrum og b vítamíni, ásamt aloa vera. Hreinsirinn má nota á augun og bræðir af allan farða, meira að segja vatnsheldan.

Þegar Hyaluron Marine Meltaway er notaður er mikilvægt að bera hann á þurrt andlitið, með þurrum höndunum og nudda honum yfir andlitið þar til farði, óhreinindi og olía eru leyst upp. Ekki bleyta upp í honum eins og mörgum öðrum hreinsum, því hann vinnur best alveg sjálfstæður. Við mælum svo með að fjarlægja hann með örtrefjaklút eða Face Halo.

Andlitshreinsar

Nú þegar andlitið er orðið hreint, af hverju ættum við þá að nota andlitshreinsi líka? Í fyrsta lagi ef farði eða sólarvörn hefur verið notaður yfir daginn að þá er nokkuð ólíklegt að ein umferð af hreinsun hafi náð öllu af. Mér finnst oft alveg ótrúlegt hvað kemur í þvottapokann eftir fyrsta hreinsinn. þó svo ég hafi talið andlitið alveg tandurhreint. En hér er líka kjörið tækifæri til þess að velja hreinsi sem að hentar þinni húð og er með smá virkni. Hér á eftir er smá leiðarvísir um týpur af hreinsum sem að henta mismunandi húðgerðum:

Þurr húð: Við mælum með að þurr húð varist hreinsa sem freyða því þeir geta oft þurrkað húðina enn meira. Þeir sem eru með þurra húð ættu því frekar að velja hreinsa em eru mjólkurkenndir eða kremkenndir og innihalda líka rakagefandi efni svo sem hýalúronsýru, glyserin eða jafnnvel olíu.

Blönduð húð: Þeir sem eru með blandaða húð eru oft hrifnir af hreinsum sem eru glekenndir. Blönduð húð getur einnig gagnast mikið af hreinsum sem að innihalda ávaxtasýrur og halda húðholunum hreinum.

Olíukennd húð: Þeir sem eru með olíukennda húð eru oft hrifnir af hreinsum sem freyða eða leirkenndum hreinsum. Þó svo að húðin sé olíukennd mælum við með því að fara varlega í hreinsa sem eru mjög þurrkandi. Ef húðin verður alveg stíf eftir hreinsunina er líklegt að húðin fari í mótþróa og fari að framleiða meiri olíu til að vinna á móti þurrkinum. Hreinsar með ávaxtasýrum og níasínamíði geta hentað olíukenndri húð mjög vel.

Venjuleg húð: Venjuleg húð í jafnvægi getur í raun og veru notað alla þá hreinsa sem að henta bæði þurri og blandaðri húð, það sem ber helst að varast er að nota hreinsa sem að þurrka húðina of mikið og koma henni úr jafnvægi.

Dr. Dennis Gross Alpha Beta Cleansing Gel

Í Beautyboxið völdum við Dr. Dennis Gross Alpha Beta hreinsigelið sem er gætt þeim kostum að henta öllum húðtegundum. Hreinsigelið inniheldur rakagefandi efnið glyserin ásamt fjórum tegundum af ávaxtasýrum sem að leysa upp dauðar húðfrumur og tóna húðina.

Formúlan inniheldur hvorki sápu eða súlföt og er því ekki þurrkandi. Hann inniheldur þó farnesól sem fyrirbyggir bólumyndun með því að hamla vöxt baktería á húðinni ásamt barosma betulina þykkni sem hreinsar og dregur saman húðholurnar og kemur jafnvægi á húðfituna.

Hreinsirinn er ein vinsælasta vara Dr. Dennis Gross og í miklu uppáhaldi hjá okkur. Þegar hreinsirinn er notaður er best að blanda örlitlu magni við smá vatn, nudda húðina vel og þurrka svo af með þvottapoka eða Face Halo. Ef þú vilt dýpri hreinsun er hægt að setja hreinsinn á án þess að blanda honum saman við vatn og bíða svo í 1-2 mínútur. Bleytið svo hendurnar og nuddið hreinsinum inn í húðina og skolið af. Hreinsinn má nota bæði kvöld og morgna.

Það eru til hreinsar sem bæði skrefin og hægt er að nota tvisvar í röð en veljið þá hreinsi sem að talar bæði um að hreinsa farða og húðina. Alpha Beta hreinsirinn frá Dr. Dennis Gross er sem dæmi gæddur báðum eiginleikum þó svo okkur þykir Meltaway hreinsirinn betri til þess að taka af farðann.

Sýnikennsla

Við mælum svo eindregið með því að horfa á sýnikennslu í boði Auðar Jónsdóttur förðunarfræðings sem býr og starfar í Los Angeles en Beautyboxið okkar ferðaðist alla leiðina til hennar fyrir myndbandið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *