Bólur, sem eru ekki bólur! Virkar ekkert? – Lestu færsluna

Við fáum svo ótrúlega margar fyrirspurnir frá ykkur um húðvandamál og við metum það mikils að þið treystið okkur fyrir þeim spurningum. Við skiljum það vel því að oft getur því verið gott að leita sér ráða á netinu í stað þess að mæta í verslun þar sem einhver grandskoðar á manni húðina og gefur allskonar ráð sem stundum virka, og stundum ekki. Þess vegna leggjum við áherslu á því að setja fram fræðsluefni hér á blogginu okkar, svo þið getið lesið ykkur til sjálf og fengið tólin til þess að leita ykkur hjálpar og hvenær er kominn tími til að leita til húðlæknis. Þetta er því svolítið langt blogg, en æj er ekki betra að hafa mikið af upplýsingum á einum stað í stað þess að googla endalaust (eins og við höfum gert fyrir þetta blogg 😊).

Við tökum auðvitað fram að við erum ekki húðlæknar og því mælum við alltaf með því að hafa samband við fagaðila til að fá frekari aðstoð, en reynum okkar besta að vinna öll okkar blogg út frá öruggum heimildum og að okkar bestu getu.

Hér á eftir ætlum við að fara yfir bólur, sem eru ekki bólur… Því já, ekki allar bólur eru þessar klassísku unglingabólur eða fílapenslar. Þetta blogg fer yfir nokkrar af þeim helstu „bólum“ sem eru einfaldlega ekki bólur og þurfa öðruvísi meðferð og oft fagaðstoð. Við vildum óska þess að það væru til töfraráð sem við gætum gefið ykkur, ein ákveðin vara eða töfrapilla en við viljum frekar vera hreinskilin, segja að við vitum ekki allt en vonandi getum við frætt ykkur um húðina ykkar og aðstoðað ykkur við að leita ykkur frekari hjálpar, sérstaklega ef að engin bólukrem eða ráð sem þið hafið notað nú þegar notað hafa virkað

FUNGAL ACNE

Það er mjög algengt að rugla Fungal acne við venjulegar bólur, því að á húðinni myndast einmitt litlar hvítar eða rauðleitar bólur.  Það er lítið talað um Fungal Acne og  höfum við meðal annars bara nýlega heyrt um þær, en einkennið virðist þó vera ansi algengt. Fungal acne orsakast af sveppasýkingu í húðinni en ekki bakteríu eins og venjulegar bólur, og er því ekki hægt að meðhöndla þær á sama máta og hinar hefðbundu bólur.

Einkenni sem benda til þess að þú gætir verið með Fungal Ance:

 • Þig klæjar í húðina
 • Þú ert með önnur sveppatengd einkenni annarstaðar á líkamanum svosem flösu, psoriasis eða exem. (þarf samt ekki að vera).
 • Engar venjulegar „bólumeðferðir“ virka.
 • Þú hefur aldrei verið með bólur, né feita húð en allt í einu ertu komin með húðvandamál.

Sveppabólur er tímabundið einkenni, og ef þú hefur t.d. aldrei verið með bólur en allt í einu ertu þakin hvítum litlum bólum ekki örvænta, það eru lausnir. Við mælum með því að googla aðeins um fungal acne og kynna ykkur þær og sjá hvort þið tengið við einkennin og ef þið eruð búin að prufa allar bólvörur á markaðinum og ekkert virkar, þá gæti það mögulega verið þess virði fyrir þig að kíkja á húðlækni og spyrja hvort þú gætir nokkuð verið með sveppasýkingu í húðinni.

Nokkur ráð

Ýmis innihaldsefni geta triggerað sveppabólur svo okkar helstu ráð væru að minnka snyrtivöru notkun á meðan þú kemst að því hvað er að og hvernig er best fyrir þig að meðhöndla húðina.

Í stað þess að bíða bara eftir töfrapillunni þá mælum við með að skoða aðeins snyrtivörurnar sem þú ert að nota núna (ekki bara bæta við) og mælum við þá t.d. með því að nota síður eins og til dæmis Skin Carisma til þess að athuga hvort að snyrtivörurnar þínar triggeri fungal acne: https://www.skincarisma.com/ingredient-analyzer. Þar afritar þú innihaldsefnin í vörunum þínum og skoðar hvað er í þeim og hvort að þau séu nokkuð að trufla. Ágætt er að taka það fram að þetta er tímaundið ástand að engin ástæða til að forðast triggerandi innihalsefni nema þú sért að upplifa fungal acne.

Leitarniðurstöður af google segja líka að nota flösusjampó (úr apóteki) sem andlitshreinsi virki til að ná sýkingunni niður EN þetta eru róttækar aðferðir, við eigum bara eitt andlit svo endilega talið við annaðhvort húðsjúkdómalækni eða lyfjafræðing áður en þið gerið tilraunir með andlitið ykkur 🙂

MILIA – MJÓLKURBÓLUR

Milia eða mjólkurbólur eru litlar hvítar bólur, sem eru smá harðar og algjörlega ómögulegar að kreista – og alls ekki reyna það! Mjólkurbólur myndast t.d. oft á ungabörnum og eru mjög algengar á þeim sem eru með þurra húð. Þær myndast oftast á kinnunum og í kringum augun þegar dauðar húðfrumur festast undir efsta lagi húðarinnar. Mjólkurbólurnar geta verið á húðinni mánuðum saman og eru alveg skaðlausar, en ef þær eru að angra þig eru nokkur ráð.

Nokkur ráð (en alls ekki á börnin! þetta fer á endanum)

 • Notaðu mildan andlitshreinsi.
 • Notaðu ávaxtasýruskrúbb sem inniheldur innihaldsefni eins Salicylic sýru til þess að hjálpa húðinni að endurnýja sig og fjarlægja dauðar húðfrumur. Einnig er hægt að nota svokallaða spot treatment og því meðhöndla bara mjólkurbólurnar en ekki alla húðina.
 • Notaðu vörur sem innihalda Retinol (a-vítamín) og hjálpa húðinni að endurnýja sig.
 • Notaðu sólarvörn daglega (þetta á reyndar við alltaf, og við alla)
 • Ef að mjólkurbólurnar fara ekki eftir nokkurra vikna ávaxtasýrumeðferð (já húðin tekur tíma að endurnýja sig, ekki búast við niðurstöðum daginn eftir 😊 ) þá mælum við með að panta tíma hjá snyrtifræðing sem stingur á og kreistir út. Og já það er þess virði að láta snyrtifræðing gera þetta fyrir þig, þú átt bara 1 andlit og vilt ekkert vera að kroppa í það með nál og eiga möguleika á því að gera ástandið verra og fá sýkingar. Við getum fúslega viðurkennt að hafa reynt þetta sjálf, og endað með ör – beint til snyrtifræðings!

KERATOSIS PILARIS – KJÚKLINGAHÚÐ

Kjúklingahúð myndast þegar það er offramleiðsla á keratíni sem er eitt af byggingarefnum húðarinnar. Keratínið fer í hársekkina og myndar litlar, rauðar hrjúfar bólur og verður húðin smá eins og sandpappír. Oftast myndast þær á upphandleggjunum, en einnig á lærum, rassi og andliti. Því miður er þetta oftast erfðafræðilegt ástand og smá erfitt að meðhöndla en hverfur oftast með aldrinum. En hér eru nokkur ráð:

Nokkur ráð

 1. Ertu nokkuð með glúten óþol? Ef svo er, þá gæti kjúklingahúð verið eitt af einkennunum. Það gæti verið þess virði að taka glúten úr fæðunni, og mögulega athuga hvort að þú gætir tekið það úr snyrtivörunum þínum líka. Vörurnar frá Mádara eru t.d. margar glútenlausar og eru þær allar merktar þannig ef þær eru það.  Einnig er hægt að leita að mjög mörgum snyrtivörum á https://www.skinsafeproducts.com og sjá hvort að þær séu glútenlausar. Þar getur þú einnig séð hvort að vörurnar séu td. .nikkel fríar og ilmefnafríar – frábær síða fyrir ofnæmispésana :).
 2. Forðastu vörur sem innihalda lyktarefni. Bæði í snyrti og hárvörum og líka t.d. lyktandi þvottaefni ef þú ert með einkenni á líkamanum.
 3. Ekki fara í of heitar sturtur eða nota sjóðandi heitt vatn til að þrífa andlitið.
 4. Rakakrem er þinn besti vinur – en passaðu bara að það sé ilmefnalaust.

SEBACEOUS HYPERLASIA

Sebaceous Hyperplasia myndast oftast eftir fertugt og á þeim sem hafa verið með feita húð og gleymt sólarvörninni (enn og aftur – sólarvörn alla daga – alltaf! ef þú vilt vita af hverju lestu þetta blogg hér: https://beautybox.is/thad-besta-sem-thu-getur-gert-til-thess-ad-sporna-vid-otimabaerri-oldrun-hudarinnar/). Sebaceous Hyperplasia eru oftast húðlitaðar en geta líka verið gulleitar og einkennast á dældinni sem myndast í miðri „bólunni“. Sebaceous Hyperplasia eru stækkaðir fitukyrtlar sem myndast út af skemmd sem hafa orðið í húðinni, t.d. sólarskemmdum og því getum við ekki minnst nógu oft á það hversu mikilvægt er að nota sólarvörn daglega.

Ef þú tengir við þessa lýsingu mælum við með því að kíkja á húðlækni sem ráðleggur þér bestu lausnina en það gæti verið t.d. að nota BHA sýrur, leiser meðferð, lyfjaskylt retinol (a-vítamín) eða í versta falli skurðaðgerð til að laga lítið. Þar sem Sebaceous Hyperplasia getur verið svipað húðkrabbabeini sem kallast carcinoma er alltaf þess virði að láta fagaðila skoða húðina – ef þú ert með þessi einkenni er ekki málið að spara sér ferðina til húðlæknis.

Lex Gillies – rósroða bloggari – https://www.instagram.com/talontedlex/

ROSECEA – RÓSROÐI

Rósroða getur verið erfitt að greina, og jafnvel enn erfiðara að meðhöndla en ótrúlegt en satt þá er hann mjög algengur. Rósroði kemur oft ekki upp fyrr en á þrítugsaldrinum eða upp úr og er oft ættgengur. Þeir sem upplifa rósroða halda jafnvel gjarnan að þeir séu með bólur og eru því ekki að meðhöndla húðina rétt. Hér er líka rétt að heimsækja húðlækni og fá ráð en því miður getur verið bæði erfitt að greina rósroða og meðhöndla hann.

Einkenni rósroða eru mörg og þú þarft endilega að vera með þau öll, en hér eru nokkur:

 • Viðkvæm húð og þú roðnar auðveldlega.
 • Rauð og ert húð, sérstaklega í kringum mitt andlitið.
 • Rauðar bólur og hiti í húðinni.
 • Stækkað nef, þar sem húðin á það til að þykkna með einkennum rósroða og því virkar nefið stærra.
 • Augnvandamál og þurrkur.

Einkenni rósroða geta líka verið mæld með því hvað triggerar rósroðann. Svo ef þú finnur að húðin þín verður verri við ákveðnar aðstæður, þá gætir þú verið með rósroða.

Hér eru algengir triggerar sem gera húðina þína verri:

 • Sterkur matur
 • Heitir drykkir, t.d. kaffi.
 • Mjólkurvörur
 • Áfengi, og þá er sérstaklega talað um rauðvín.
 • Veðrabreytingar, mikil sól og vindur.
 • Stress

Við mælum með því að heimsækja húðlækni sem velur meðferð fyrir þig og taka fram öll einkennin þín. Einnig mælum við með því að lesa viðtalið okkar eftir Húðsnapparann hana Ylfu og fylgja henni á Instagram þar sem hún deilir sínum ráðum. Bloggið er hægt að lesa hér: https://beautybox.is/hudsnapparinn-ylfa-soussa-2/

Perioral Dermatitis

Bloggarinn Linda Hallberg er með Perioral Dermatitis – https://lindahallberg.se/2015/10/27/perioral-dermatits

Perioral Dermatitis nokkuð algengur húðsjúkdómur sem er algengari hjá konum en körlum. Sumir upplifa sjúkdóminn 1x á ári, og þá oftast í veðrabreytingum. Perioral Dermatitis eru litlar rauðar upphækkaðar bólur í kringum munninn en geta líka myndast í kringum augun. Hér gæti verið þess virði að heimsækja húðlækni og fá sýklalyf en ein í okkar teymi náði tökum á sínum einkennum með því að forðast vörur (þá aðallega hreinsa) sem innihald SLS – Sodium Laureth Sulfate sem er innihaldsefni sem lætur vörur freyða.

Fyrir flesta er þetta skaðlaust innihaldsefni en við erum jafn mismunandi og við erum mörg svo það gæti verið þess virði að prufa að skipta út freyðandi andlitshreinsi fyrir mildari hreinsi, svosem kremhreinsi eða mjólkurhreinsi, og einnig passa að sjampóið renni ekki niður andlitið.

Ef þú hefur einhverjar spurningar, eða athugasemdir við færsluna hér fyrir ofan. Ekki hika við að senda okkur skilaboð á Facebook 😊 okkur þykir alltaf gaman að heyra í ykkur hvort sem það sé að leita ráða eða leiðbeina okkur. Og takk fyrir að lesa þetta langa blogg :)!

Íris Björk Reynisdóttir

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *