Tan vandræði – og hvernig á að leysa þau

Nú þegar sólin lækkar á lofti og sumarbrúnka flestra rennur af eru margir sem vilja viðhalda smá lit yfir vetrartímann. Sumum finnst þetta samt sem áður agalegt vesen og hafa lent í allskonar brúnkuslysum yfir árin – og þar á meðal við!

Þess vegna tókum við saman nokkur bestu ráðin sem við höfum fengið og tileiknað okkur yfir árin og vonum að þau auðveldi ykkur brúnkuásetninguna.

Lendir þú stundum í því að leggirnir þínir eða aðrir líkamspartar verða doppóttir eftir að þú hefur sett á sjálfbrúnku?

Þú ert líklegast að setja á þig sjálfbrúnku beint eftir heita sturtu. Hafðu í huga að eftir heita sturtu eru húðholurnar „opnari“ og er brúnkan því líklegri til að setjast ofan í húðholurnar og mynda doppótta brúnku. Við mælum því með að fara alls ekki í heita langa sturtu beint fyrir brúnkuásetningu.

Við mælum með:

Farðu í góða sturtu um morguninn eða daginn áður, skrúbbaðu líkamann vel og ef þú rakar þig þá er þetta tíminn. Berðu svo á þig rakakrem eftir sturtuna.

Um kvöldið eða morguninn eftir skelltu þér í stutta kalda sturtu til að skola rakakremið af, þurrkaðu líkamann vel og settu brúnkuna á þurran hreinan og ekki of heitan líkama. Þá ættir þú að sleppa við doppurnar.

Ef þú hefur ekki þennan tíma, reyndu allavega að bíða í 1-2 tíma eftir sturtu áður en brúnkan er borin á.

Lendir þú stundum í því að fá allt of dökkar hendur, olnboga og hné?

Þetta er mjög algengt vandamál en eitthvað sem flestir vilja koma í veg fyrir svo að brúnkan sé sem jöfnust.

Hendurnar, hnén og olnbogarnir eru oft þurrustu svæði líkamans og sest því brúnkan oft aðeins of mikið á þau svæði. Við mælum með því með að muna eftir að skrúbba þessi svæði vel og bera á þau rakakrem reglulega.

Við mælum með:

Áður en þú berð brúnku á þessi svæði mælum við með að bera á þau olíulaust rakakrem. Þegar þú ert búin að setja brúnkuna á, settu smá rakakrem í brúnkuhanskann eða burstann og strjúktu rakakreminu vel yfir þessi svæði aftur – yfir brúnkuna. 

Sem sagt: rakakrem – brúnka – og aftur rakakrem.

CeraVe kremin hafa þjónað okkur mjög vel í þessum tilgangi.

Of seint? og brúnkan er nú þegar búin að setjast í þessi svæði?

Ef þú gleymdir að bera rakakrem á þessi svæði og ert nú þegar komin með extra dökka bletti, gríptu þá í einhverja ávaxtasýru sem þú átt heima, settu í bómull og nuddaðu yfir svæðin.

Einnig getur þú notað Tan Remover froðurnar frá St. Tropez eða Bondi Sands til þess að leysa upp brúnkuna á þessum svæðum. Face Halo Body er svo frábær til að skrúbba extra brúnku af.

Passaðu að bera rakakrem aftur á svæðin eftir þetta skref. Stundum þarf að gera þetta nokkrum sinnum til þess að ná öllu af – passaðu bara að skrúbba ekki á þig sár!

Lendir þú í því að rúmið þitt sé eins og vígvöllur

eftir að þú sefur með brúnkuna á?

Þú getur að sjálfsögðu sofið í langerma bol og síðum buxum, en ef þú þolir ekki að sofa í fötum – þá mælum við með að grípa í gamalt sængurver og sofa inn í því – já þá meinum við að fara inn í sængurverið og sofa í því.

Elín Stefáns kenndi okkur þetta snilldarráð sem við höfum notum óspart, enda er smá skemmtilegt að sofna í púpu og vakna eins og fiðrildi.

Þá þarftu aðeins að smella snægurverinu í þvott daginn eftir en ekki skipta á öllu rúminu strax.

Lendir þú í því að brúnkan sé að smitast í sængurverið nokkrum dögum eftir að þú setur hana á?

Ástæðan fyrir því að þetta gerist er að brúnkan litar aðeins efsta húðlagið, eða þær húðfrumur sem eru nú þegar dauðar. Húðin okkar flagnar alla daga, allan ársins hring og það eina sem gerist öðruvísi hér er að þú sérð það greinilega á rúmfötunum.

Svo þetta er ágætis áminning um að skipta á rúminu reglulega, því nú sjáum við dauðu húðina okkar á rúmfötunum. En ekki gleyma að þetta gerist hvort sem þú ert með tan eða ekki – þú bara sérð það betur 🙂 !

Svo síðasta ráð dagsins er:  ekki gleyma að skipta á rúminu minnst 1x í viku, hvort sem þú er með brúnku eða ekki.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *