Á meðgöngu þarf að aðlaga sig að ýmsum hlutum til að hlífa litlu kríli sem vex og dafnar, t.d. með breyttu matarræði og drekka ekki áfengi. En það eru líka ákveðin innihaldsefni í snyrtivörum sem þarf að athuga með á meðgöngu. Sum innihaldsefni er best að hætta að nota en önnur innihaldsefni skal vara sig á að nota í takmörkuðu magni þessa 9 mánuði.
Þetta er þó persónulegt val fyrir verðandi mæður um hversu varlega þær vilja fara. Það eru nefnilega mismunandi upplýsingar til staðar. Sumir vilja banna ákveðin efni á meðgöngu meðan aðrir segja að þau séu í lagi. Þetta er því persónuleg ákvörðun sem hver og ein verður að taka fyrir sig. Og ef í vafa þá mæli ég alltaf með því að tala við ljósmóðiu.
Ég ætla að fara aðeins yfir þessa hluti og upplýsa ykkur í grunninn hverju er best að fylgja. Nauðsynlegt er að lesa innihaldsefni á snyrtivörum til að sjá hvað inniheldur hvað. Ég set innihaldsefnin sem ég ræði í sviga á ensku fyrir aftan, svo þið getið leitað af þeim í innihaldslýsingum.
Innihaldsefni sem skal hætta að nota á meðgöngu
Retinoid
Á meðgöngu er mjög mikilvægt að nota ekki vörur sem að innihalda retínóíð (e. retinoid), retínól (e. retinol) og A vítamín. Þessi innihaldsefni eru nefnilega ekki umdeild, heldur hafa rannsóknir sýnt að þau geta valdið fósturskaða og því skal algjörlega hætta notkun þess á meðgöngu. Sum krem innihalda þessi efni í mjög litlum mæli en önnur innihalda hreint retínól, með 1-2% styrk. Eins skal ekki taka inn retinóíð lyf eins og Decutan eða Accutan bólulyfið. En retínóíð og retínól (A vítamín) sem borið er á húðina er í raun úr sama efni og þau lyf, bara ekki nærri jafn sterk og því skal ekki nota þau á meðgöngu.
Þessi efni eru á bannlista samkvæmt læknisráði og því er nauðsynlegt að sleppa algjörlega húðvörum sem innihalda þessi efni í 9 mánuði (þó svo að það sé síðasta innihaldsefnið á listanum sem þýðir að það sé í mjög litlum mæli) og einnig á meðan brjóstagjöf stendur, því rannsóknir sýna það þau eru ekki áhættulaus.
Innihaldsefni á gráu svæði á meðgöngu
Hér eru efni sem ég vil tala um að séu “á gráu svæði”. Sumir vilja algjörlega að óléttar konur halda sig frá þeim en aðrir segja að það sé ekki nægilegur rannsóknarstuðningur sem sýnir að af þeim beri skaða og því sé í lagi að nota þau. Hver verður því að meta fyrir sig.
Listinn hér að neðan gæti virst mjög langur og hvernig á eiginlega að fara að því að lesa hvert einasta innihaldsefni og vita hvort það sé skaðlegt?
Almenna reglan er í raun að “virk efni”, eins og þau eru oft kölluð, sé best að halda sig frá og færa sig yfir í mildari og náttúrulegri vörur.
Það eru þó eflaust margar konur sem nota þessi efni í einhverjum mæli í snyrtivörum alla meðgönguna og hljóta ekki skaða af. En með því að sleppa notkun þeirra þá þarf maður ekki að hafa áhyggjur af “hvað ef” – því þörf er á frekari rannsóknum á þessari efnum og hvaða áhrif þau hafa. Hver verður því að meta fyrir sjálfan sig, hvað þær vilja nota og hvað ekki.
Bensóýlperoxíð (e. benzoyl peroxide)
Þetta efni er oftast notað til þess að vinna á móti bólum og bólumyndun. Bensóýlperoxíð fellur undir innihaldsefni sem ekki hefur verið hægt að sanna öryggi fyrir notkun efnisins á meðgöngu. Líkaminn tekur þó ótrúlega lítið magn af því í blóðstreymið og er það því á gráu svæði. Í Bandaríkjunum flokkast efnið undir C flokk hjá FDA sem þýðir að það er möguleg áhætta fyrir fóstrið til staðar og margir mæla því ekki með notkun þess. Ef þú ert með mikið af bólum á meðgöngu er best að fara til húðlæknis og fá þá til þess að skrifa upp á krem sem er talið öruggt að nota.
Ál (e. aluminum) í svitalyktareyðum
Það eru eflaust ekki margar sem hugsa út í að þurfa að skipta um svitalyjktareyði meðan þær eru óléttar. En talað hefur verið um að virka efnið ál eða aluminum sé best að forðast að nota á meðgöngu, þá sérstaklega þar sem við erum vanar að setja á okkur svitalyktareyði a.m.k. einu sinni á dag. Flestir svitalyktaeyðar innihalda ál, en það eru einnig til svitalyktaeyðar án áls. Ég mæli með að nota svitalyktaeyði án áls og með náttúrulegri efnum sem hjálpa til við svitalykt á meðgöngu.
Ég mæli með þessum svitalyktaeyði en hann inniheldur hvorki ál né alkóhól:
Salisýlsýra (e. salicylic acid)
Þessi ávaxtasýra er innihaldsefni í ótrúlega mörgum húðvörum. Allt frá andlitsskrúbbum yfir í rakakrem. Það er í mismunandi sterku magni í húðvörum. Oftast er t.d. meira magn af salisýlsýru í andlitsskrúbbum og vörum sem vinna gegn bólumyndun, en frekar lítið magn af sýrunni í rakakremum. Margir mæla með að forðast salisýlsýru í miklu magni á meðgöngu og leita frekar í aðrar ávaxtasýrur sem eru taldar öruggari. Það eru til dæmis glýkólsýrur (e. glycolic acid), mjólkursýrur (e. lactic acid) og möndlusýrur (e.mandelic acid).
3-hýdroxýprópíonsýra (e. 3-hydroxypropionic acid)
Þessi sýra getur ekki verið talin algjörlega örugg til þess að nota á meðgöngu og er því talin vera á gráu svæði af mörgum. Eins og með allt skal forðast að nota vörur með þessu efni eða að nota þær sjaldan og í litlu magni.
Formaldehýð (e. formaldehyde)
Mælt er með að óléttar konur skuli sérstaklega passa sig á miklu magni af formaldehýð, vegna aukinnar áhættu. Formaldehýð er efni sem er vanalega notað sem rotvarnarefni og sótthreinsiefni í snyrtivörum. Það finnst oft í vörum eins og sjampói og naglalakki. Best er að takmarka notkun á snyrtivörum sem innihalda fomaldehýð. Betra er að velja naglalökk sem eru merkt 3-Free eða 5-free en þau innihalda ekki þessi efni. Gel neglur og ásetning þeirra inniheldur til dæmis hærra formaldehýð og einnig er hátt magn formaldehýðs í brasilískri sléttunarmeðferð á hári.
Bæði Essie og OPI eru 3-Free.
Paraben
Paraben geta verið í tannkremum, sturtusápum, ilmvötnum, kremum, förðunarvörum, sjampói&næringu og naglalökkum sem dæmi. Oft er hægt að spotta þau ef að orðin innihalda: “ethyl,” “butyl,” “methyl,” eða “propyl”.Paraben eru á gráu svæði þegar kemur að innihaldsefnum fyrir óléttar konur. Þörf er á frekari rannsóknum, þar sem ekki er víst hversu mikið af parabeni berst virkilega í líkama okkar þegar það er í einhverju sem við notum á húðina. Fyrir óléttar konur er mælt með því að leita í paraben-fríar vörur til þess að minnka magn parabens í umhverfi þeirra. Ég mæli með því að nota frekar paraben-fríar snyrtivörur á meðgöngu til að vera viss. Það er gott úrval í boði.
Við mælum með að nýta ykkur flokkanirnar á Beautybox.is 🙂
Ath: Merkingin „Án Parabena“ er ekki alveg tæmandi og erum við enn að vinna í þeim en oftast stendur það líka í vörulýsingu :). Ef varan er ekki merkt, mælum við með því að skoða heimasíðu merkjanna.
Hárlitir
Til eru margar formúlur af hárlitum og erfitt að segja til um hverskonar hætta er af þeim. En oftast er mælt með því að forðast að lita á sér hárið á fyrstu 12 vikum meðgöngu, sem sem það er oft talið viðkvæmasta tímabilið. Hins vegar segja margir að svo lítið magn af efnum fari í gegnum höfuðleðrið við litun hárs og áhættan sé því mjög lítil, ef hárið er sjaldan litað.
Ftalöt (e. phthalates)
Ftalöt er annað efni sem oft finnst í snyrtivörum eins og naglalakki, líkamskremum og hárspreyi. Þetta efni er notað til þess að auka endingartíma og laglífi varanna. Ftalöt eru talin geta aukið áhættu fyrir fóstur og jafnvel fósturlát ef notað í miklu mæli. Best er því að lesa innihaldslýsinguna á snyrtivörum en oft eru ftalöt merkt til dæmis DBP, DNOP, DiNP, DEP og svo framvegis. Margar vörur eru hins vegar merktar sem ftalöt-fríar.
Blý (e. lead) í varalitum og steinefna förðunarvörum
Ótrúlegt en satt finnst stundum blý í varalitum frá ákveðnum merkjum og einnig í sumum steinefna förðunarvörum (e. mineral makeup) og því er best að lesa innihaldslýsinguna. Að bera á sig blý í miklu magni er ekki talið gott.
Tólúen (e. toluene) í naglalakki
Hátt magn af tólúen er ekki gott fyrir verðandi mæður. Það er hins vegar ólíklegt að hátt magn af tólúeni sé í náumhverfi þínu. En það getur verið t.d.í háu magni í mikilli umferð þar sem það er notað í bensín. En tólúen er stundum notað í naglalakk og því er betra að nota tólúen-frí naglalökk.
Díetanólamín (e. diethanolamine) eða oleamíð (e. oleamide) í sjampói
Þessi efni eru af sumum talin vera á gráu svæði fyrir ófrískar konur að nota. Þau finnast stundum í sjampói og því mæli ég með að leita í náttúrulegri merki sem innihalda ekki þessi efni, til að vera alveg viss um öryggi þess.
Hýdrókínón (e. hydroquinone)
Þetta efni er stundum sett í húðvörur til þess að lýsa upp húðina. Þá aðallega til að lýsa upp dökka bletti í húðinni sem koma með aldri eða ef maður hefur verið í mikilli sól. Ég mæli ekki með að nota húðvörur sem innihalda hýdrókínón meðan maður er óléttur, því ekki hefur tekist að sanna að það sé alveg skaðlaust.
Innihaldsefni sem ég mæli með að nota á meðgöngu
Hýalúrónsýra (e. hylaruonic acid)
Hýalúrónsýra er þekkt fyrir að gefa ótrúlegan raka í húðina og er því frábær til þess að nota á meðgöngu. Hýalúrónsýran er talin örugg að nota þar sem hún er ólík öðrum sýrum, sem notaðar eru á húðina sem húðskrúbbur. Hýalúrónsýran er mildari og gefur ótrúlegan raka. Hún hjálpar til við að koma í veg fyrir fínar línur og bæta áferð og litarhaft húðarinnar. Ég mæli með að nota rakakrem eða serum sem innihelda hýalúrónsýru á meðgöngu til að halda húðinni góðri, en sýran virkar vel fyrir hvaða húðtegund sem er.
Kókosolía
Sprenging í vinsældum kókosolíunnar átti sér stað fyrir nokkrum árum, og ekki af ástæðulausu. Lífræn kókosolía í sínu hreinasta formi er frábær til þess að nota á húðina á meðgöngu, hvort sem það er á andlitið eða líkamann. Kókosolía er tegund af olíu sem er tekin frá kókoshnetum. Kókosolían er rík af góðum fitusýrum og hjálpar þannig að vernda húðina, þá gegn örverum sem gætu myndað sýkingar eða bólur. Ef þú ert með mjög olíuríka húð skaltu samt passa þig að bera ekki of mikið af henni í andlitið því hún gæti stíflað húðholur. Kókosolían er einnig þekkt fyrir að vera góður rakagjafi fyrir húðina og hjálpað til við þurrktilfinningu og kláða sem myndast oft í húð óléttra kvenna. Ég mæli því 100% með því að nota hreina kókosolíu á bumbuna og líkamann til að viðhalda húðinni góðri, gefa raka og koma hugsanlega í veg fyrir slit.
Shea butter
Shea smjör eða shea butter er annað innihaldsefni sem kemur frá náttúrunni og ég mæli með fyrir óléttar konur. Shea butter er stútfullt af góðum fitusýrum og vítamínum og því er það frábært til þess að mýkja húðina, gefa raka og róa húðina. Ég mæli með því fyrir allar til að bera á líkamann en einnig á andlitið yrir þær sem eru ekki með mjög olíuríka húð. Shea butter er sérstaklega þekkt fyrir það að vera rakagefandi í marga tíma eftir að það er borið á og endist því vel yfir daginn og/eða nóttina. Einnig er shea butter fullt af góðum sýrum sem vernda húðina gegn umhverfisáhrifum og vinnur því gegn öldrun húðarinnar.
Náttúrulegar & lífrænar húðvörur
Eins og ég hef nefnt áður, að þá er best að nota eins náttúrulegar og hreinar snyrtivörur og maður getur, og reyna að sleppa því að nota vörur sem innihalda aukaefni sem við erum ekki enn viss hvernig hafa áhrif á fóstur. Því langar mig að mæla með því að leitast í lífrænar húðvörur og snyrtivörur á meðgöngu. Það er til gott úrval og um að gera að nýta þessa 9 mánuði í að prufa sig áfram í lífrænum húðvörum.
Mádara Organic Skincare eru með lífræna vottun.
Ra Oils – Eternal Radiance Face Oil
Mig langar í lokin sérstaklega að mæla með Eternal Radiance olíunni frá Rå Oils. En Rå oils vörunar innihalda ekki nein aukaefni heldur aðeins hreinar gæðaolíur sem eru frábærar fyrir húðina. Ég hef persónulega verið að bera þessa olíu á bumbuna, ásamt kókosolíu og rakakremi. Mér finnst olían virka frábærlega á bumbuna, þó hún sé kannski ekki sérstaklega hönnuð til þess. Ég hef allavega ekki fengið nein merki um slit hingað til.
Einnig mæli ég með að nota góðan hanska í sturtu sem skrúbbar húðina og hjálpar þannig við að endurnýja húðfrumur og viðhalda henni góðri.
Margrét Magnúsdóttir er hár- og förðunarfræðingur, og er flutt til Íslands eftir að hafa starfað í London í 6 ár. Margrét hefur starfað við allskonar skemmtileg verkefni eins t.d. og Vogue Online, Will.I.Am tónlistarmyndband, Topshop, BBC, tímarit og bíómyndir. Margrét er einnig eftirsótt í brúðkaupsfarðarnir en hún ferðast reglulega erlendis til þess að farða fyrir brúðkaup. Margrét hefur mikinn áhuga á húðumhirðu, hári, förðun og fallegum hlutum.
Margrét okkar er ólétt af sínu fyrsta barni.
Hægt er að fylgjast með Margéti hér ♥:
Heimasíða : www.margretmagnus.com
Instagram: www.instagram.com/margretmagnus
Snapchat: @margretmagnus