Hvernig get ég málað mig sjálf meira eins og atvinnu förðunarfræðingur?

Að fara í förðun er algjör lúxus og gerir mun auðveldara að finna sig til fyrir ákveðið tilefni. Förðunin kemur einnig mun betur út á myndum og svo er bara svo ótrúlega þægilegt að láta mála sig. En flestar konur splæsa í förðun hjá förðunarfræðingi fyrir eitthvað sérstakt tilefni en ekki í hvert skipti sem þær fara eitthvað fínt.. Hvernig er þá hægt að mála sig sjálf meira eins og atvinnu förðunarfræðingur og láta förðunina líta betur út?

Ég hef tekið saman nokkra punkta, sem að ég geri þegar ég farða, sem geta hjálpað ykkur að láta förðunina ykkur líta faglegri út þegar þið málið ykkur sjálfar fyrir sérstakt tilefni.

Undirbúningur

Fyrst og fremst hugsa ég um undirbúning húðarinnar, en ég tek góðan tíma í að undirbúa húðina. Ég byrja aldrei á því að grípa í farðann og skella honum á. Fyrst kíki ég á húð einstaklingsins og spyr spurninga um hana. Síðan undirbý ég húðina með þeim vörum sem að mér finnst viðeigandi fyrir húðtegundina. Þetta þarf að hugsa um fyrir sjálfan sig líka áður en maður málar sig. Oftast byrja ég á að setja gott rakakrem sem er viðeigandi fyrir húðtegundina (til dæmis fyrir þurra húð eða olíuríka húð). Stundum þarf þó fyrst að hreinsa húðina alveg og setja tóner, sérstaklega ef manneskjan er með farða framan í sér. Fyrir brúðkaupsdaginn set ég stundum einnig viðeigandi maska ef þess er þörf, til dæmis ef brúðurin er með sérstaklega þurra húð um morguninn skelli ég rakamaska á.

Eftir að ég nudda rakakreminu vel inn í húðina og leyfi blóðflæði húðarinnar að komast í gang (þetta er gott tips þar sem húðin fær strax lit og verður frísklegri) þá hugsa ég um hvaða primer ég vil nota. Sjaldnast nota ég einn primer. Það fer eftir hverri húð hvaða primer ég nota en oftast nota ég t.d. rakagefandi primer undir augnsvæðið, primer sem fyllir í húðholur á T svæðið og annan í kinnar. En þetta er auðvelt er að gera þegar maður málar sig sjálfur, að átta sig á því hvaða primer hentar vel á hvaða svæði og þannig mun förðunin líta betur út og haldast lengur á. Næst bíð ég aðeins og leyfi þessum vörum að komast inn í húðina og gera sitt hlutverk áður en ég set farða á húðina.

Blanda, blanda, blanda

Það sem að kemur fólki oft á óvart er hvað ég blanda mikið vörum saman, en það er algengt að förðunarfræðingar geri það og fólk er oft hrætt við að blanda saman, eins og það megi ekki. Ég nota til dæmis sjaldnast einn farðalit á húðina. Í um 95% tilvika þá blanda ég saman tveimur litum, stundum þremur. Eftir að hafa fundið viðeigandi farða fyrir húðina og tilefnið þá hugsa ég hvaða litur passar. Hann má ekki vera of dökkur eða ljós miðað við líkama og verður að vera með réttan undirtón. Það er ómögulegt fyrir snyrtivörufyrirtæki að framleiða liti á förðum sem að passa 100% við alla og þess vegna blanda ég þangað til ég hef hinn fullkomna faraðlit. Ég mæli því með að þið eigið tvo liti af uppáhalds farðanum ykkar, einn dekkri lit og einn ljósari lit sem þið blandið saman eftir árstíðum (og við tilefni eins og ef þið farið til sólarlanda og fáið lit). Einnig verður að hafa undirtón húðarinnar í huga og kaupa þá gultóna eða bleiktóna meik, annars er hægt að blanda þeim saman ef húð þín er meira neutral (hlutlaus litur) en sum fyrirtæki gefa út blandaða liti (með neutral undirtón).

Annað sem ég geri er að ég skelli ekki bara farðanum á heldur blanda ég honum virkilega vel inn í húðina. Við viljum ekki að farðinn sitji á húðinni heldur blandist við hana og geri húðina sjálfa fallegri. Eyddu mjög

góðum tíma í að blanda og passaðu að setja farðan á hvern einasta stað eins og háls, upp að hárlínu og smá á eyrun. Einnig er best setja farðann fyrst á miðju andlitsins þar sem oftast þarf mesta þekju og blanda hann svo út frá miðjunni. Sjaldnast þarf maður fulla þekju á jöðrum andlitsins og þannig kemurðu í veg fyrir að nota of mikinn farða. Ég eyði miklum tíma í grunninn (sem er farðann, hyljarann og púðrið) sem virkar svo sem einhverskonar rammi fyrir það sem ég set síðan á. Ef að grunnurinn lítur ekki vel út mun förðunin í heild ekki líta vel út, sama hversu flotta augnförðun þú gerir.

Langflestir sem ég farða eru einnig hissa hvað ég nota mikið af vörum á andlitið. Ekki vera hrædd við að nota mikið af vörum á andlitið, þetta snýst allt um að setja og blanda (e. layering). Þá er ég að tala um að preppa húðina með góðu kremi, svo primer, svo farða og hyljara, svo púður þar sem þarf, fallegt brons púður og krem kinnalit og svo framvegis. Ekki hlaða vörunum á heldur notaðu þær í minna magni og lagsettu þær fallega á og blandaðu saman og þá verður förðunin í heild óaðfinnanleg. Þetta er eitt helsta trikkið: nota réttu vörurnar, nota rétta magnið af þeim og blandaðu meira en þú heldur.

Eins og þið hafið eflaust oft heyrt áður að þá skiptir máli að eiga góð tól eins og bursta og svampa. Þetta er alveg rétt. Það þýðir ekkert að ætla að láta förðunina líta út eins og þú hafir farið til förðunarfræðings ef þú ert að nota lélega, gamla eða óhreina brusta. Fjárfestu í góðum tólum. Þau endast lengi og skipta öllu máli fyrir fallega förðun.

Góð tól

Mitt helsta trikk til þess að láta augnskuggann þinn líta út fyrir að vera faglegan er að blanda. Þó þú sért ekki góð í að nota mismunandi liti af augnskuggum og gera þvílíka skyggingu, þá geta allir blandað – þó þú sért aðeins að nota einn augnskugga á allt augnlokið. Settu augnskuggann á við augnhárin og taktu svo góðan blöndunarbursta og blandaðu upp á við. Taktu þér góðan tíma og blandaðu upp þangað til liturinn er alveg dofnaður í ekki neitt. Þú þarf líklegast helmingi meiri tíma í að blanda en þú heldur. Þetta gerir augnskuggann óaðfinnanlegan og fágaðan. Sama gildir með highlighter, kinnalit og skyggingu andlits –  blandaðu meira en þú heldur og það gefur þér þetta faglega útlit.

Annað sem að förðunarfræðingar gera er að nota létta hendi frekar en þunga þegar þeir farða. Þá er ég að tala um byggja upp förðunarvöruna á andlitinu frekar en að skella mikið af farða á í einu eða augnskugga og ætla svo að blanda það út. Reglan er að byrja alltaf með minna en meira, það er miklu auðveldara og fallegra að bæta á heldur en að þurfa að taka af eða redda sér eftir á.

Það er mikilvægara en maður heldur er að gera augabrúnirnar og augnhárin falleg, en það rammar inn andlitið. Passaðu að fylla vel í augabrúnirnar og að þær séu jafnar og náttúrulegar. Vandaðu þig við að setja maskarann á og notaðu jafnvel stök augnhár eða heil augnhár ef þú ert að fara eitthvað fínt. Það gerir mikinn mun og lætur fólk halda að þú hafir farið í förðun.

Rétt lýsing

Málaðu þig í réttu ljósi. Ef þú ert að mála þig viðburð sem verður í dagsljósi, málaðu þig þá í dagsljósi. Ef þú ert að mála þig fyrir viðburð um kvöld, málaðu þig þá í réttu ljósi. Passaðu að þú sér ekki í of gulu baðljósi til dæmis. Þegar ég farða tek ég lítið ljós oftast með mér sem gefur náttúrulega birtu þannig að ég geti séð hvort ég sé að nota réttu litina og að blanda nógu vel út.

Gefðu þetta extra – einbeittu þér að einhverju ákveðnu þegar þú hefur gert góðan grunn. Hvað viltu leggja áherslu á? Það getur verið augnförðunin eða ljómi á húðina til dæmis. Taktu þér þá góðan tíma í það og gerðu það eftirtektarvert.

Loka skrefið

Ég hef sagt þetta áður en það er mjög mikilvægt að festa förðunina eftir á. Ég nota oftast tvö setting sprey eftir að ég klára förðunina. Fyrst spreyja ég öðru þeirra yfir til þess að láta púðurvörurnar bráðna inn í húðina, auka ljómann og gefa þetta fágaða útlit. Þegar það hefur gert sitt hlutverk nota ég öflugt setting sprey sem að heldur förðuninni í allt að 16 klukkustundir. Virka þessi setting sprey? Já, ég get sagt ykkur það. Ég persónulega efaðist fyrst og fannst hugsanlega að þetta gæti verið sölutrikk. Hinsvegar ákvað ég að prófa það sjálf og það er ótrúlegur munur! Förðunin helst mun lengur á! Því enda ég alltaf á að spreyja því yfir og mæli með að gera það þegar þið eruð að mála ykkur sjálfar og viljið að förðunin dugi allt kvöldið.

Margrét Magnúsdóttir er hár- og förðunarfræðingur, og er nýflutt til Íslands eftir að hafa starfað í London í 6 ár. Margrét hefur starfað við allskonar skemmtileg verkefni eins t.d. og Vogue Online, Will.I.Am tónlistarmyndband, Topshop, BBC, tímarit og bíómyndir. Margrét er einnig eftirsótt í brúðkaupsfarðarnir en hún ferðast reglulega erlendis til þess að farða fyrir brúðkaup. Margrét hefur mikinn áhuga á húðumhirðu, hári, förðun og fallegum hlutum.

Hægt er að fylgjast með Margéti hér ♥:

Heimasíða : www.margretmagnus.com
Instagram: www.instagram.com/margretmagnus
Snapchat: @margretmagnus

 

3 thoughts on “Hvernig get ég málað mig sjálf meira eins og atvinnu förðunarfræðingur?

  1. Margrét Magnús says:

    Hæ Lilja.

    Ég nota oftast undir augun Laura Mercier Secret Brightening Under Eye Powder, á andlit nota ég oft Charlotte Tilbury Airbrush Flawless finish púðrið eða MAC transparent finishing powder.
    Setting sprey sem ég nota er MAC Fix+ til að láta allt „bráðna“ inn í húðina og gefa aukinn ljóma, og svo Urban Decay All Nighter Setting sprey til að festa förðunina í margar klukkustundir 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *