Er húðsmánun nýja fitusmánunin?

Fyrir jólin sat ég á gólfinu og var að skreyta jólatréð. Að venju var góð jólamynd sett í tækið og varð Love Actually fyrir valinu. Myndin kom út árið 2003 og situr enn á topp vinsældalistum ár eftir ár þegar dregur að jólum. Þó svo að myndin sé að vissu alltaf krúttleg og enn skemmtileg þá eru ákveðin atriði í myndinni sem eru algjörlega komin til ára sinna. Leikkonan Martine McCutheon sem lék Natalie var ítrekað fitusmánuð, kölluð „plumpy“ og þegar hún sest á Hugh Grant þá segir hann „God, you weigh a lot“.

Sömu söguna má segja um Bridget Jones myndirnar þar sem Renée Zellweger skrifar þyngdina sína daglega í dagbókina sína, en Bridget Jones vó heil 61 kg (!!!) og allur söguþráðurinn snýst um að hún sé feit, í yfirþyngd og allt sé hræðileg út af því. Ég held að við getum öll verið sammála um það að þessar konur eru langt frá því að vera í yfirþyngd… og þó svo þær væru það þarf þá endalaust að vera að tala um það á neikvæðan hátt?

Renée Zelwegger er ekkert nema flott.

Sem betur fer hefur líkamsvirðing lagast mikið síðustu árin og margir bæði berjast fyrir því og vinna heilshugar að því að stuðla að heilbrigðri líkamsímynd og sýna að líkamar geta verið allskonar og allavega og allir eru fallegir. Við eigum þó enn langt í land.

En að máli málanna

Fyrir jólin settum við inn spurningarbox fyrir jólagjafahugmyndir á Instagram síðunni okkar. Þessi liður er alltaf jafn vinsæll en þá biðjum við ykkur um að skrifa niður aldur, verðhugmynd, týpu og tengingu og við gefum ykkur hugmyndir að jólagjöfum. Við fáum árlega fjölmargar hugmyndir sendar sem við svörum samviskusamlega.

Í ár bar á því hversu margir voru að biðja um gjafahugmyndir fyrir ungar stelpur, allt niður í 10 ára og þá helst húðvörur. Magnið af spurningum sem við fengum fyrir þennan unga aldurshóp var okkur ofmegni því að það eru því miður bara alls ekkert margar húðvörur sem við mælum með fyrir þennan unga aldurshóp, og ef við gerum það, þá eru þær húðvörur því miður jafnvel ekki nógu spennandi. Ástæðan fyrir því er að þær eru einfaldar, frá frekar klínískum merkjum, ekki í nógu spennandi pakkningum eða vinsælar á TikTok.

Eins og Ragna Hlín húðlæknir og Katrín Mjöll barnasálfræðingar töluðu um í Ríkissjónvarpinu í síðustu viku þá eru yngri og yngri krakkar og þá einna helst stúlkur komnar með áhyggjur og jafnvel þráhyggju yfir húðinni á sér og fá ótal skilaboð frá öllum áttum um að hin fullkomna húð gefi þér hið fullkona líf, ekki ólíkt þeim skilaboðum sem að tágrannur líkami átti að gefa minni kynslóð á sínum tíma.

Smelltu hér til að lesa greinina inn á RÚV.

En hverjar eru ástæðurnar?

Þegar mín kynslóð og kynslóðin fyrir ofan voru yngri þá voru engir samfélagsmiðlar, en það voru súpermódel og það voru bíómyndir og það voru allskonar tímarit sem tönnluðust á því að við þyrftum að vera grannar, því annars væri að sjálfsögðu ómögulegt að elska okkur. Natalie í Love Actually segir eftir sambandsslitin sín: „He told me no one‘s gonna fancy a girl with thighs the size of tree trunks“. Að vissu urðu „góðu gaurarnir“ í bíómyndunum ástfangnir af þessum konum, en myndirnar snérust um að þeir yrðu ástfangnir af þeim ÞRÁTT FYRIR að þær væru „feitar“, en ekki ÚT AF ÞVÍ að þær voru frábærara að öllu leiti.

Í alvöru.. ☝️ hvað er að

Mín tilfinning er að í dag hefur að svokallað „fatshaming“ tuttugasta áratugsins snúist upp í „skinshaming“ sem kemur að mestu leiti frá samfélagsmiðlum. Ungar stelpur í dag eru ítrekað farnar að hafa meiri áhyggjur af húðinni sinni en nokkurn tímann gæti talist eðlilegt. 10 ára barn hefur ekkert með húðrútínu að gera og í raun og veru heldur ekki 14 ára. Hreinsir og rakakrem sem hentar húðgerð og sólarvörn er það mesta sem börn þurfa á að halda, nema í samræmi við og með aðstoð húðlækna og fagaðila ef vandamál eru til staðar. Einstaka maski gerir kannski ekki mikinn skaða, en þó þarf að íhuga hvaða maskar eru notaðir því margir innihalda mikið magn af virkum innihaldsefnum, frábærir fyrir þroskaða húð, en alls ekki fyrir ungmenni.

Með aðgengi af samfélagsmiðlum eins og TikTok, Instagram og fleirum þá hafa ungir og óþroskaðir heilar ótakmarkað og óritskoðað aðgengi að efni sem matar þau að nauðsynleika þess að nota hin og þessi krem, serum og tónera til þess að fá hina fullkomnu húð, sem satt best að segja þau eru líklegast með nú þegar. Því meira sem maður skoðar, því meira sérðu af þessum vörum og því meira heltaka þessar hugsanir mann og verða þessar vörur algjörlega bráðnauðsynlegur varningur. Innihaldsefni eins og C-vítamín, retinol, ávaxtasýrur og peptíð læðast hægt og rólega inn í skápana hjá ungmennum og eins og Ragna Hlín húðlæknir greinir frá, þá geta þau einfaldlega valdið skaða hjá ungri húð.

Það má heldur ekki gleyma filterum ásamt bótoxi og fylliefnum sem eru mjög algeng úti í hinum stóra heimi á samfélagsmiðlum. En mér þykir mikilvægt að nefna þetta því við megum ekki gleyma því að áhrifavaldar eru jafnvel að auglýsa allskonar húðvörur sem eiga að færa þér eilífðar slétta húð, án þess þó að nefna þær fegrunaraðgerðir sem hann eða hún hefur farið í eða filtera sem eru notaðir.

@elizabethkayeturner FILTER VS REALITY! ⚠️Did you know that 80% of women filter/edit their photos? 

En hvað getum við gert til þess að hægja á eða stoppa þessa þrónun ef hún er að valda vanlíðan?

  1. Í fyrsta lagi pössum okkur og lærum að elska okkur eins og við erum. Setjum súrefnisgrímuna á okkur og svo á börnin. Við eigum til dæmis ekki að standa fyrir framan spegilinn og klípa í lærin okkar og kalla okkur feit fyrir framan ungmennin, svo við skulum heldur ekki gera það með húðina. Lærum að elska okkur eins og við erum og sýna ungmennum að það sé eðlilegt og forréttindi að eldast. Hrukkur sem myndast eftir svefnvana ár með ungabarn bera þroska merki og fjölskyldufjársjóð, fínu línurnar sem myndast í kringum augun því við brosum svo mikið eru fallegar og þyngdaraflið sem kallar á okkur þegar árin færast fram eru merki um þau forréttindi að eldast. Þetta þurfa bara alls ekkert að vera neikvæðir hlutir, bara þvert á móti. Hefur þú einhvern tímann horft á ömmu þína og hugsað að hún sé ljót því hún er með svo miklar hrukkur? Kanntu minna að meta pabba þinn því hann er búinn að missa hárið? Finnst þér að mamma þín eigi að vera í rúllukragabol allt árið um kring því hálsinn hennar ber merki þess að hún sé orðin 60 ára? Neibb það hélt ég ekki, svo ekki hugsa svona um þig heldur. Við erum fyrirmyndir barnanna og ekki gleyma því að þau bera genin þín, svo ekki tala þig niður fyrir framan þau. Höfum þetta í huga og setjum upp súrefnisgrímuna.

Ariana Grande er alltaf jafn hæfileikarík þó svo hún sé með venjulega húð eins og við.

Harry Styles er alltaf jafn mikill sjarmur, þessar bólur skipta engu máli.

Kendall Jenner varð mörgum mikill innblástur þegar hún mætti á rauða dregilinn stolt af húðinni sinni eins og hún var.

2. Minnum unglinga á að flest ungmenni fá einhvern tímann bólur. Ariana Grande, Harry Styles, Dua Lipa, Kendall Jenner, Camila Cabello, Justin Bieber hafa öll fengið bólur (!) og þau hafa komið fram á tónleikum, verðlaunahátíðum og opinberlega fram með bólur. Í sannleika sagt, ef þau ráða ekki við bólurnar, með alla sína húðlækna og aðgengi af öllum mögulegum vörum, hvernig ætlum við að ná því á einum degi með einu kremi? Unglingahúð er eðlileg, margir fara í gegnum þetta tímabil einhvern tímann á ævinni og það er bara einfaldlega allt í lagi. Þó þú fáir bólur þá ertu ekki skítug/ur, óhrein/n eða óheilsusamleg/ur heldur ungmenni með hormóna. Ef vandamálið er mikið og sársaukafullt, leitið þá til húðlæknis.

3. Spyrjum spurninga og komumst að því af hverju þörf eða jafnvel þráhyggja fyrir húðrútínu á ungum aldri sé til staðar.

    1. Ef vara er vinsæl út af samfélagsmiðlum þá getum við hvatt ungmennin til að setja á sig rannsóknargleraugun og skoða t.d. hvort að þessir áhrifavaldar séu búin að tala oft um vöruna eða hvort að þau séu strax farinn að nota aðra vöru. Ætli áhrifavaldurinn fái greitt fyrir eina umfjöllun eða er þetta vara sem hún/hann notar að staðaldri. Er þessi einstaklingur að nota filtera, með fylliefni og eða annað sem gætu blekkt útkomuna.
    2. Ef allar vinkonurnar eiga svona vöru þá er hægt að nálgast unglinginn á þann hátt að það séu ekki allir með eins húð. Það er ástæða fyrir því að það eru til svona margar snyrtivörur, því sama varan hentar ekki öllum. Minntu unglinginn á að hann sé nú þegar með fallega húð og þurfi ekki á vörunni að halda því hún gæti búið til vandamál frekar en að leysa þau.
    3. Og ef húðin er að valda þeim vanlíðan þá er hægt að tala saman, hlusta á þau meta hvort að það þurfi að leita til fagaðila.
@izzierodgers_ ACNE DOESN’T MAKE YOU A DIRTY GIRL✨ #fy #cleangirl #cleangirlmakeup #acne #acnepositivity #makeuplook #realskin ♬ Only You – Platters

4. Stækkunarspeglar yfir 2x eru frábærir fyrir þroskaðar konur og þau sem sjá illa. Þeir gera okkur kleift að setja á okkur augnförðun sem er ómöguleg ef maður sér ekki hvað maður er að gera, já og plokka þessi blessuðu búkonuhár. En stækkunarspeglar eru alls ekki hollir fyrir unga húð. Það sér í alvörunni ENGINN húðina þína svona nálægt eins og stækkunarspegillinn gerir. Stækkunarspeglar eru fyrir slæma sjón og búkonuhár – ekki til að grandskoða hverja húðholu svo það er bara alls ekki vitlaust að geyma stækkunarspegla inn í svefnherberginu og grípa í þá þegar þörfin kallar, en ekki hafa þá inn á baðherbergi þar sem unglingurinn getur grandskoðað húðina sína kvöld eftir kvöld.

5. Minnum ungmennin á að það er ekki alltaf allt sem sýnist, filterar geta gefið mjög ranga ímynd af eðlilegri húð, sem og fegrunaraðgerðir. Tökum öllu með fyrirvara. Það eru líka til áhrifavaldar sem að einblína á að það sé eðlilegt að vera venjulegur. Segið þeim frá hashtöggum eins og #acnepositivity #realskin og svo framvegis. Ekki í þeim tilgangi að „finna lausn á vandamálum“ heldur bara til að sjá það er eðlilegt að vera með allskonar húð.

@sophiehannah Something a little different today #realskin ♬ original sound – Sophie Hannah

6. Pössum okkur að kaupa ekki of virkar vörur fyrir svona unga húð. Ég skil mjög vel að flestir skilji ekkert í öllum þessum snyrtivörum enda eru þetta oft flóknar vörur og innihaldsefnin óskiljanleg flestum. Sem dæmi skil ég mjög vel að húðvara sem er með C-vítamíni hljómi skaðlaus fyrir unga húð, enda þegar við hugsum um C-vítamín sjá flestir fyrir sér appelsínur, ber og brokkolí. En C-vítamín í húðvörum er hins vegar notað til þess að draga úr litabreytingum, örva kollagenframleiðslu og birta húðina, hlutir sem að ungmenni þurfa ekki á að halda. Góð regla er að ef það stendur „anti-aging“ eða varan talar um þroskaða húð og að hún vinni á litabreytingum, hrukkum og fínum línum, þá er hún því miður ekki fyrir unga húð. Þó svo að umbúðirnar séu spennandi, þá er það innihaldið sem skiptir máli, ef varan er of virk fyrir unga húð þá getur hún valdið skaða. Ef þið eruð í vafa eða vandræðum með hvort vörur séu of virkar, ekki hika við að senda okkur skilaboð á Facebook eða kíkja til okkar og við gerum okkar besta til að aðstoða ykkur. Við viljum ekki búa til vandræði sem enda í vítahring.

að lokum

@india_batson #selfconfidence #stretchmarks #acneproneskin #acnejourney #acnepositivity #acnecommunity ♬ original sound – India Batson

Ykkur finnst kannski skrítið að við birtum blogg eins og þetta þar sem við erum í raun og veru að gangrýna okkar eigin bransa. En þar sem við erum að reka snyrtivöruverslun þá sjáum við þessa þróun og mikinn mun á milli ára. Við viljum ekki að börnum líði illa og jafnvel búi til húðvandamál sem eru ekki til staðar. Eitt af okkar þremur gildum er valdefling og vellíðan. Snyrtivörur í okkar huga eru til þess að draga fram okkar eigin fegurð, en ekki laga og hylja vandamál sem eru oftast ekki einu sinni til staðar. Snyrtivörur eru til þess að njóta og hafa unun að, þær eru þitt val og alls engin nauðsyn. Það er munur á því að nota vörur til að koma í veg fyrir eða vinna í ótímabærri (!) öldrun húðarinnar, sem við upplifum vegna svefnskorts, áfalla, umhverfisáhrifa eða lífstíls, en það er bara einfaldlega ekkert sem kemur í veg fyrir að húðin okkar eldist ef við njótum þeirra forréttinda að fá að eldast. Svokallaðar anti-ageing húðvörur eru til að fyrirbyggja og draga úr einkennum sem eru ótímabær og eru þær alveg ónauðsynlegar unglingum og börnum.

En til að enda þetta, þá heyrði ég auglýsingu snemma á síðasta ári frá fyrirtæki sem kennir konum að brosa til að fá ekki hrukkur… Megum við bara ekki aðeins LIFA (!). Ég vil miklu frekar fá allar broshrukkurnar heldur en að þurfa að ritskoða mína eigin gleði. Pössum okkur á öfgunum, ást og knús til ykkar.

Íris Björk Reynisdóttir

2 thoughts on “Er húðsmánun nýja fitusmánunin?

  1. Stella says:

    TAKKKKKKKKKKKK …. orð að sönnu, þetta á svoooooo mikið erindi til allra !!!!

    Vil gjarnan fá meira af svona póstum fyrir allan aldur …. ekki síst unglingana okkar … fyrir öll kyn <3

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *