Mín bestu förðunarráð fyrir þroskaða húð

Allar myndir eru með förðun eftir mig

Það er aldrei of seint að byrja að mála sig eða breyta til og gera eitthvað nýtt þegar kemur að förðun. Margar konur sem ég hef farðað segjast aldrei hafa lært að mála sig almennilega og vita ekki hvernig þær eiga að mála sig. Ég segi þeim alltaf að þetta sé einmitt tíminn til þess að mála sig og dekra við sig.

Með hækkandi aldri þurfum við að mála okkur minna og aðeins öðruvísi. Með aldrinum þynnist ysta lag húðarinnar (epidermis) og litarefni húðarinnar minnkar þannig að við virðumst litlausari í framan. Einnig minnkar sveigjanleiki húðarinnar og fínar línur koma fram.

Með auknum aldri þornar húðin upp þar sem að kirtlarnir framleiða minni húðolíu. Þar af leiðandi þarf að passa sérstaklega að gefa húðinni nægilegan raka og viðhalda góðri húðumhirðu. Einnig þarf að passa að nota förðunarvörur sem eru ekki þurrkandi fyrir húðina, heldur rakagefandi, léttar og kremaðar.

Þegar kemur að förðuninni viljum við passa að draga allt upp á við, þá sérstaklega augnförðunina og augabrúnir. Einnig þarf að passa að nota ekki of kalda tóna, það ýtir undir litarleysi. Best er að nota hlýja tóna og hlýjan undirtón fyrir farða á andlitið. Varast skal skæra liti á varir og augu.

Húð

Áhrif sólarinnar á húðina eru mikil og mæli ég með að nota alltaf sólarvörn á andlit, háls og hendur þó að það sé rigning úti, og helst að halda andlitinu alveg frá sól. Áhrif sólar ýtir undir öldrun húðarinnar, sólarbletti og fínar línur.

Góð húðumhirða skiptir gríðarlega miklu máli. Passa verður sérstaklega að gefa húðinni nægilegan raka. Gott er að fjárfesta í góðu rakakremi, serumi, hyaluronic acid og retinoli til að viðhalda góðri húð. Falleg förðun byrjar með fallegri húð.

Veldu réttan farða og ekki nota of mikið af farða á húðina, það getur látið húðina líta illa út, sérstaklega ef að farðinn sækist í fínar línur og situr í þeim. Ég mæli með að nota léttan og ljómandi farða fyrir þurra húð, sem er með léttri til miðlungs þekju. Við viljum ekki hafa neitt of ýkt þegar kemur að húð, augum eða vörum heldur halda förðuninni fallegri og vel blandaðri. Notaðu rakagefandi primer undir farðann, hann mun haldast betur á og líta betur út.

Ég blanda stundum olíu eða rakakremi í farðann. Það gefur léttari þekju og lítur oft æðislega flott út. Ef þú átt farða sem þér finnst of þungur, prófaðu þá að blanda rakakreminu þínu í hann.

Það skiptir miklu máli að fá hlýrri lit í andlitið með því að nota fallegt sólarpúður og farða með hlýjan undirtón. Varast skal að nota of ljósan farða með köldum undirtón, þar sem það gerir andlitið líflaust.

Best er að nota hyljara sem er ekki með fulla þekju, heldur léttur, ljómandi og mjög kremaður. Notaðu hann sparlega undir augun.  Varast skal að nota hyljara sem er of þykkur, þurr eða ljós – þá sérstaklega undir augu.

Ég mæli með að nota mjög fínlegt púður aðeins á þá staði sem þarf og mjög sparlega. Mikið púður getur ýtt undir þurrkun húðarinnar og látið húðina sýnast þurrari.

Kinnalitur gerir kraftaverk, ekki sleppa honum. Hann gefur strax lit í andlitið. Mér finnst fallegast að nota krem kinnalit á þroskaða húð þar sem krem kinnalitir eru mjög kremaðir, gefa léttan ljóma og þurrka ekki húðina eins og púður kinnalitir. Best er að setja kinnalitinn á epli kinnanna.

Highlighter og skygging – hentar það mér? Að nota glitrandi highlighter á kinnbeinin nálægt augum hentar oft ekki þar sem hann undirstrikar fínar línur sem hafa myndast á því svæði, þannig þessi „týpísku highlighter svæði“ henta ekki endilega ef að fínar línur hafa myndast á þeim svæðum. Því þarf að fara mjög varlega í notkun highlighters og hvar hann er settur. Ég læt oftast bara smá highlighter ef það hentar, frekar vil ég halda útliti húðarinnar frísklegu og ljómandi í heild. Einnig þarf að passa sig á skyggingu kinnbeina, þar sem að of mikil skygging getur látið andlitið líta út fyrir að vera eldra. Betra er að nota fallegt sólarpúður fyrir hlýjan lit yfir andlitið.

Ég nota alltaf setting sprey yfir förðunina svo að hún haldist allan daginn og kvöldið, en best fyrir þroskaða húð er að nota rakagefandi setting sprey sem lætur púðrið og aðrar förðunarvörur bráðna inn í húðina og gefur náttúrulegra útlit. Einnig mun farðinn haldast mun lengur á.

Augu

Notaðu augnskuggaprimer. Oftast festast augnskuggar í fínum línum augnlokanna eftir langan tíma, sem er kallað creasing. Augnskuggaprimer kemur í veg fyrir það og lætur augnmálninguna haldast lengur á.

Mattir eða shimmer augnskuggar – engin regla. Maður hefur heyrt þá klisju að með auknum aldri eigi bara að nota matta augnskugga en það finnst mér ekki rétt. Ég nota oft shimmer augnskugga, eða augnskugga með litlum glimmerkornum í og þeir koma mjög vel út á hvaða augnlokum sem er. Alls ekki festa þig í að nota bara matta augnskugga, ég nota oftast matta til að skyggja en shimmer augnskugga á mitt augnlokið.

Notaðu augnskugga í hlýjum litum eins og gull, brúna, nude, blandað í grátt, dökkblátt, vínrauða og svo framvegis.

Legðu áherslu á falleg augnhár. Ég mæli með að eiga góðan maskara sem lengir og þykkir augnhárin. Einnig er mikilvægt að eiga góðan augnhárabrettara til þess að krulla augnhárin, það lætur augnhárin líta út fyrir að vera lengri, opnar augun og þau virðast stærri.

Augabrúnirnar ramma andlitið. Alls ekki hafa augabrúnirnar of dökkar eða gervilegar. Best er að nota svipaðan lit og hárlit þinn og reyna að hafa þær sem náttúrulegastar og þykkastar. Þykkari augabrúnir yngja mann upp. Passaðu einnig að draga enda augabrúnana ekki niður, heldur halda þeim í beinni línu svo þær dragi augnsvipinn ekki niður.  

Rammaðu inn augun með augnblýanti til að leggja áherslu á þau. Forðastu blauta eyelinera (liquid liners). Notaðu frekar augnblýanta (eye pencil) þar sem að þeir gefa mýkra útlit.

Láttu augnblýantinn draga augun upp. Gættu þess að línan sé alveg slétt og líttu stöðugt í spegilinn með opin augun til að sjá hvar er best að augnblýanturinn endi. Forðast skal að draga augnblýantinn of langt út á enda, því ef augun eru aðeins farin að síga og augnmálingin nær of langt út að enda fer línan að halla niðrá við og dregur augun niður. Það sama á við augnskugga, dragðu hann upp á við.

Varir

Með aldrinum þynnast oft varirnar og þá kemur varablýantur til bjargar. Veldu þér varablýant í sama lit og þínar náttúrulegu varir, eða einum lit dekkra og línaðu kringum varirnar svo þær líti út fyrir að vera þykkari.  

Notaðu rósrauða, bleika og brúna varaliti frekar en djúpa liti. Forðastu mjög dökka varaliti þar sem að varirnar þynnast of með aldri. Dekkri varalitir ýta undir áberandi varir og geta látið varirnar líta út fyrir að vera þynnri en þær eru.

Til að koma í veg fyrir að varaliturinn blæði gerðu þá línu fyrst á varirnar með varablýanti, settu varalitinn á með bursta. „Blottaðu“ varirnar tvisvar sinum með tissjú og settu varalitinn aftur á. Hægt er að púðra aðeins yfir varalitinn með litarlausu púðri svo hann haldist á sama stað.

Prófaðu nýjan varalit, breyttu aðeins til. Sumar konur eru búnar að nota sama varalitinn í mörg ár eða áratugi. Í stað þess til dæmis að vera með sama rauða litinn, prófaðu aðeins bleikari lit. Það eru allskyns litir í boði sem er gaman að prófa og fólk mun hrósa þér fyrir eitthvað öðruvísi en vanalega.

Best er að forðast mjög gljáandi gloss á vörum. Varalitir með fallegum glans henta betur.  

Gangi þér vel og ekki vera feimin við að prufa eitthvað nýtt.

Margrét Magnúsdóttir er hár- og förðunarfræðingur, og er nýflutt til Íslands eftir að hafa starfað í London í 6 ár. Margrét hefur starfað við allskonar skemmtileg verkefni eins t.d. og Vogue Online, Will.I.Am tónlistarmyndband, Topshop, BBC, tímarit og bíómyndir. Margrét er einnig eftirsótt í brúðkaupsfarðarnir en hún ferðast reglulega erlendis til þess að farða fyrir brúðkaup. Margrét hefur mikinn áhuga á húðumhirðu, hári, förðun og fallegum hlutum.

Hægt er að fylgjast með Margéti hér ♥:

Heimasíða : www.margretmagnus.com
Instagram: www.instagram.com/margretmagnus
Snapchat: @margretmagnus

2 thoughts on “Mín bestu förðunarráð fyrir þroskaða húð

 1. Svava Þorsteinsdóttir says:

  Ég er komin með ansi þroskaða hûð og er ekki alveg örugg með hvernig ég á að mála mig.

  • Beautybox.is says:

   Sæl Svava, og takk fyrir skilaboðin.

   Við töluðum við Margréti og ef þú hefur áhuga þá getur hún getur boðið þér upp á einkakennslu í förðun. Emalið hennar er margretmakeup@gmail.com.

   Ef þú ferð í einkakennslu til hennar þá bjóðum við þér upp á 20% afsláttarkóða til að nota á Beautybox.is eftir kennsluna :).

   Kveðja Beautybox.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *