Allir sem þú þekkir eru að nota ákveðna vöru og ELSKA hana. Uppáhalds bloggarinn þinn notar hana og hún er með svo fullkomna húð að þú gætir grátið þig í svefn. Þú kaupir hana líka því að þig langar að vera með eins flotta húð og hún, prufar hana og þvílík vonbrigði! Bólur spretta upp á enninu, húðin þín þornar og skrælnar á öðrum stöðum og í versta falli færð þú ofnæmis viðbrögð.
Hver hefur ekki lent í þessu? En þetta er því miður ekki óalgengt, því að við erum eins misjöfn og við erum mörg! Þetta er líka einmitt ástæðan fyrir að það er hafsjór af snyrtivörum í boði, því að hver og ein þeirra hentar einhverjum vel og öðrum verr.
Er ég að mæla með því að þú hættir að treysta uppáhalds bloggaranum þínum? Nei sko alls ekki!!! Enda vinnur hún við það að prufa vörur og segja þér hvernig þær henta henni. En í stað þess að gera ráð fyrir því að þær henti þér líka, er ég að mæla með því að þú reynir fyrst að finna út hvernig húðtegund þú ert með, svo að þú getir athugað hvort að varan henti þér eins vel. Oft er til dæmis til svipuð vara frá sama merki sem að myndi henta þér miklu betur og gefa þér sömu loka niðurstöðu og varan sem þú leitaðir af upprunnalega.
Það er ekki óalgengt að konur haldi að þær séu með feita húð um leið og ein bóla sprettur upp, og byrja að gera allskonar vitlausa hluti eins og til dæmis hætta að nota rakakrem eða forðast allar olíur. En vitlausar vörur, skortur á raka, illa þrifin húð og hormónabreytingar geta tímabundið breytt öllum húðtegundum.
Til þess að leysa vanda, þarf fyrst að finna út hver hann er.
Hér fyrir neðan tel ég mismunandi húðtegundir og helstu einkenni þeirra svo að þú getir reynt að finna út hvaða hópi þú tilheyrir. Þar sem að ég er hvorki snyrtifræðingur né húðlæknir þá mæli ég auðvitað eindregið með því að hafa samband við fagaðila ef að þú vilt meiri upplýsingar eða ert í miklum vandræðum með húðina þína. Upplýsingarnar hér fyrir neðan eru fengnar úr bókum og eftir góða rannsóknarvinnu.
Mikilvægt er að taka fram að oft tilheyrir húðin fleiri en einum hóp af því sem er lýst hér fyrir neðan, og er það t.d. mjög algengt fyrir konur sem eru að ganga í gegn um tíðarhvörf að húðin breytist mikið á skömmum tíma.
**Ef þú vilt lesa meira um húðtegundirnar og hvað hentar þeim best, þá getur þú smellt á fyrirsögnina á hverri húðtegund.**
Þurr húð
- Þér líður illa, næstum óþægilega í húðinni eftir að hafa þrifið hana eða farið í sturtu.
- Húðin er þurr í lok dags, jafnvel þótt þú hafir borið á hana rakakrem um morguninn. Farðinn er þornaður á húðinni í flekkjum.
- Húðin er aum í köldu veðri og óróleg í of miklum hita.
- Þú færð fínar línur á undan jafnöldrum þínum.
- Húðin getur orðin svolítið grá og líflaus, sérstaklega á veturna, í kring um nefið, augun og kinnarnar.
- Húðin er mjög þurr á morgnanna ef þú gleymir að setja á þig næturkrem.
- Litlar svitaholur.
- Hefur tilhneigingu til þess að fá „milia“ sem eru litlar hvítar bólur sem að virðist vera ómögulegt að kreista og eru jafnvel í húðinni mánuðum saman. Myndast oft í kring um augun.
Húð sem vantar raka (dehydrated)
Þarfnast aðeins meiri útskýringar því að það er mjög algengt að konur haldi að þær séu með þurra húð, en í raun vantar húðinni raka. Stutta útskýringin er að þurri húð vantar fitu/olíu, og húð sem vantar raka, vantar vatn! Þar af leiðandi er til dæmis hægt að vera með feita húð, á sama tíma og henni vantar raka.
- Getur verið frekar líflaus og flöt í útliti.
- Fínar línur sem að virðast koma og fara.
- Húðin er bleikari og virðist vera fyllri og heilbrigðari beint eftir sturtu, en áður en þú þurrkar hana.
- Er betri í röku andrúmslofti og sérstaklega góð í gufu.
- Er þurr eftir sturtu (og þurrkun).
- Flagnar stundum þegar að farði er settur á, sérstaklega í kring um augu og nef.
- Þurrar varir.
Viðkvæm húð
- Húðin verður stundum heit og þig klæjar í hana eftir að hafa hreinsað hana.
- Þú færð auðveldlega útbrot eftir að hafa prufað nýja húðvöru.
- Þú ert pirraðri í húðinni á ákveðnum tíma tíðarhringsins.
- Getur verið olíukennd, blönduð, þurr og vantað raka (dehydrated). (já þú getur verið með viðkvæma húð ásamt því að tilheyra hinum hópunum líka!)
- Þú hefur tilhneigingu til þess að fá kláða útbrot sem eru verri við snertingu.
- Þér svíður í húðina í sturtu og er rauð eftir hana.
- Oft er húðin aðeins viðkvæm fyrir nokkrum innihaldsefnum, svo mikilægt er að finna út hver þau eru.
Blönduð húð
- Svitaholurnar eru stærri í kring um nefið, ennið og á hökunni.
- Kinnarnar eru vanalega eðlilegar, en geta stundum verið smá þurrar.
- T- svæðið: enni, nef og haka eru olíukennd og líklegra er að þú fáir bólur þar, sérstaklega á sérstökum tíma tíðarhringsins, við óléttu eða tíðarhvörf.
- Það virðist einstaklega erfitt að finna rakakrem sem að gefur allri húðinni matta og þægilega tilfinningu.
- Farði verður flekkóttur á húðinni.
Feit húð (olíukennd)
- Glansandi
- Stórar og áberandi svitaholur.
- Fílapenslar.
- Hefur tilhneigingu til þess að fá bólur / eða svokallaðar unglingabólur (acne).
- Þér líður vel í húðinni eftir sturtu eða hreinsun húðarinnar.
- Klukkutíma eftir hreinsun húðar (og án þess að bera vörur eftir á) getur þú prufað að þrýsta hreinum pappír á hökuna þína og þú sérð olíu í pappírnum.
Venjuleg húð
- Hvorki feit né mjög þurr.
- Slétt og þægileg.
- Litlar svitaholur.
- Getur orðið smá þurr einstaka sinnum, t.d. í köldu veðri, ásamt því að verða aðeins feit einstaka sinnum með stækkandi svitaholum á T svæðinu. En þetta er alls ekki ástæða til þess að taka dramatískar breytingar og breyta í vörur fyrir feita / þurra húð því það gæti raskað jafnvæginu á annars mjög góðri húð.
Gangi þér vel, það er ekkert betra en að koma jafnvægi á húðina.
Íris Björk Reynisdóttir