Hvernig finn ég minn fullkomna rauða varalit?

Það getur verið erfitt að finna hinn fullkomna rauða varalit fyrir sig. Margir eru hræddir við að setja á sig rauðan varalit meðan sumir virðast ekki fara út án hans. Ég veit um margar sem hafa reynt að finna sinn besta lit en finnst það erfitt og vita ekki að hverju skal leita. Ég hef því sett upp leiðarvísi sem getur hjálpað ykkur að komast að því hvernig rauður varalitur myndi henta ykkur best. Ég deili einnig nokkrum trixum í lokin um hvernig er best að setja rauðan varalit á sig.

Undirtónn

Þegar kemur að því að velja réttan rauðan varalit er eitt það mikilvægasta að vita sinn undirtón. Þetta á einnig við þegar kemur að förðun almennt, til dæmis við val á farða sem skal kaupa en einnig við val á varalit, kinnalit, augnskuggum og svo framvegis.
Undirtónn hvers og eins tilheyrir einum af þremur flokkum undirtóna: bleiktóna (kaldur undirtónn), gultóna (heitur undirtónn) og hlutlaus undirtónn (sem er blanda af bleiktóna og gultóna).

Ef þér finnst ekki greinilegt hvaða undirtón húð þín ber þá er hægt að sjá það á nokkra vegu:

Val á skartgripum

Hvernig skartgripir fara þér best? Ertu vön að vera með silfur eða gull skartgripi? Silfur skartgripir hafa kaldan undirtón en gull heitan undirtón. Ef þér finnst silfur skartgripir fara þér betur, þá ertu líklegri að vera með kaldan undirtón (bleikan), og öfugt; ef gull skartgripir fara þér betur ertu líklegast með heitan undirtón (gulan). Ef bæði fer þér vel gætirðu verði hlutlaus.

Litaval á fötum

Það sama á við um hvernig litir á fötum fara þér best. Ef föt í köldum litum eins og bláum og grænum þá ertu líklegri að vera með bleikan undirtón heldur en gulan.

Litatónn æða þinna

 Sumir horfa á æðarnar og segja að fólk með bláleitar æðar séu með bleikan undirtón en fólk með grænleitar æðar séu með gulan undirtón.

Hvernig er húð þín í sól?

Líklegast er auðveldast að komast að undirtón húðarinnar með því að skoða hvernig húðin bregst við í sól. Ef þú færð auðveldlega lit í sólinni og færð gullinn tón þá ertu með gulan undirtón. Ef þú átt hins vegar auðvelt með að brenna og færð mikinn roða í sólinni þá ertu líklegri til að vera með bleikan undirtón. Þeir sem að bæði fá lit en geta orðið rauðir eru líklegast með hlutlausan undirtón.

Þetta eru aðeins viðmiðunarreglur og getur ekki átt við alla. Það getur tekið tíma fyrir suma að komast að því hvaða undirtón þeir eru með. Taktu eftir því að ef þér finnst farðar sem þú prófar oft vera of bleikir fyrir þig þá ertu líklegast með gulan undirtón og öfugt. Oft getur verið erfitt að finna hinn fullkona farðalit fyrir hlutlausan undirtón og mæli ég þá með að blanda tveimur litum saman.

Ljóst eða dökkt litarhaft

Það skiptir líka máli hversu dökka eða ljósa húð þú ert með, þegar kemur að því að finna hinn fullkomna varalit. Ásamt því að vita hvaða undirtón þú ert með skaltu passa þig að para saman dýpt húðtónar þíns við dýpt varalitsins. Ef það skapast of mikill munur á dýpt litarins á milli húðlitarins og varalitsins, þá mun varaliturinn ekki fara þér. Til dæmis ef að þú ert með mjög ljósa húð og velur þér of litsterkan dökkan varalit.

Áferð

Áferð varalitsins er eitthvað sem þarf að hugsa út í. Það eru svo margar áferðir í boði! Sumir elska fljótandi og matta varaliti en aðrir vilja frekar satín eða glansandi áferð.

Mattir varalitir
Mött áferð á varalitum virka best fyrir þá sem eru með þykkar og vel nærðar varir. Passa verður að vera ekki með þurrar varir þegar fljótandi varalitur er borinn á.

Glansandi varalitir (satín, gloss og gjáandi)

Ef þú ert með þunnar varir skaltu forðast mjög matta varaliti og nota frekar varaliti sem gefa vörunum fyllingu og það eru varalitir sem eru með gljáandi áferð. Ef þú ert alltaf með þurrar varir er einnig best að velja varalit með satín, gloss eða gjáandi áferð og forðast matta varaliti sem geta þurrkað upp varirnar enn frekar.

Ef varir þínar eru hvorki þykkar né þunnar þá er best að finna áferð sem þú fílar best, hvort sem það er meira mattar eða meira glans.

Litstyrkur

Mjög algeng mistök, sem ég sé margar konur gera, er að nota of litsterkar varalit miðað við þykkt varanna. Það er mjög einföld regla sem hægt er að fylgja:

Því þynnri varir sem þú ert með því litminni skal varaliturinn vera.

Þannig því þykkari varir sem þú ert með því betur fara litsterkir varalitir þér. Konur sem eru með þunnar varir, fer því verr að vera með skærrauðan varlit eða mjög dökkan varalit – því miður! Betra er að velja litminni varalit. Ástæðan er sú að mjög litsterkir varalitir leggja mikla áherslu á varirnar og ef þær eru þunnar fyrir þá getur sterkur eða of dökkur varalitur látið varirnar líta út fyrir að vera minni en þær eru.

Ef þú ert hvorki með þykkar né þunnar varir geturðu valið litstyrkinn eftir þínum stíl og ákveða hvort þú viljir áherslu frekar á augnförðunina eða varirnar, því best er að velja annað hvort en ekki bæði í einu.

þinn stíll

Þinn förðunarstíll hefur að sjálfsögðu mikið að segja um hvernig varalit þú vilt velja þér. Kannski ertu vön að mála þig mjög náttúrulega og vilt því náttúrulegan rauðan varalit. En kannski langar þig að finna hinn fullkomna “vá” rauða varalit fyrir þig.

Áferð, litstyrkur og annað fer því að sjálfsögðu mikið eftir því hvaða varalit ÞIG langar að vera með og þér finnst fara þér vel. Treystu á þitt eigið álit þegar þú ert að prófa rauða varaliti.

Skoðaðu spurningarnar hér að neðan og sjáðu hvert það leiðir þig

Ertu með bleikan eða gulan undirtón?  

Gulan eða Bleikan

Ertu með mjög ljósa/ljósa húð eða miðlungs/dökka húð?   

Mjög ljósa/ljósa eða Miðlungs/dökka

Ertu að leita að litsterkum varalit eða litminni varalit?

Litsterkum eða Litminni

Ertu með þykkar eða þunnar varir?

Frekar þykkari en þynnri eða Frekar þynnri en þykkari

Hlýir appelsínurauðir varalitir

  •  Ef þú ert:
  • með gulan undirtón (hlýjan)
  • með miðlungs ljósa/dökka húð
  • í leit að litsterkum varalit (getur einnig verið litminni)
  •  með þykkar eða þunnar varir

Þessi flokkur rauðra varalita á best við þá sem eru með gulan undirtón. Best er því að velja varaliti í hlýjum tónum og því henta rauðir varalitir með appelsínugulan undirtón. Appelsínuguli undirtóninn getur verið frá smá lit yfir í mjög appelsínugulan lit. Forðast skal varaliti með köldum og bláum undirtón.

Rimmel – The Only One Lipstick
Call Me Crazy – 2.660 kr

Smashbox – Legendary Lipstick
Get Fired 3.810 kr

Becca – Ultimate Lipstick Love
 Flame 3.860 kr

Blárauðir varalitir

  • Ef þú ert:
  • með bleikan undirtón (kaldan)  
  • með ljósa eða dökka húð
  • í leit að litsterkum eða litminni varalit
  •  með þykkar eða þunnar varir

Varalitir sem eru með bláan eða fjólubláan undirtón fara þeim best sem eru með kaldan undirtón í húð sinni. Góður kostur við blárauða varaliti er að þeir láta tennurnar líta út fyrir að vera hvítari en þær eru! Blái undirtóninn fer því bleiktóna húð vel og gerir hana bjartari. Þessi hópur skal forðast appelsínurauða eða hlýja rauða varaliti, það er ekki þinn litur.

Bobbi Brown – Luxe Matte Lip Color
Red Carpet – 6.280 kr

Rimmel – Provocalips 16hr Kissproof Lip Color
Kiss Me You Fool – 3.370 kr

Smashbox – Be Legendary Liquid Lipstick
Chrimson Chrome – 3.920 kr

Kaldir rauðir kóral varalitir

  • Ef þú ert:
  • með bleikan undirtón (kaldan)  
  • með mjög ljósa húð
  • í leit að litsterkum eða litminni varalit
  •  með þykkar eða þunnar varir

Ef þú ert með mjög föla húð og færð nánast aldrei lit í sólinni heldur roðnar aðeins, þá gæti þessi hópur varalita átt við um þig. Þér fara best rauðir varalitir í kóral tónum. Leitaðu að kaldari litum því þeir fara þér best. Ef þú ert með þunnar varir veldu þér þá frekar varalit með litlum litstyrk, en ef þú ert með þykkar varir geturðu valið þér djarfari lit.

Max Factor – Honey Lacquer
Indulgent Coral – 2.910 kr

Smashbox Legendary Lipstick
LA Sunset – 3.810 kr

Bobbi Brown –  Pot Rouge For Lips & Cheeks
Calypso Coral – 5.520 kr

Mjúkir Rauðir Varalitir

  • Ef þú ert:
  • með gulan eða bleikan undirtón
  • með ljósa eða dökka húð
  • í leit að litminni varalit (vilt náttúrulegt útlit)
  •  með þunnar varir

Fyrir þær sem eru með þunnar varir og vilja ekki of djarfan lit þá henta best mjúkir rauðir varalitir. Mjúkir varalitir ertu litminni, hafa gegnsærri lit og satín áferð. Þessir rauðu varalitir eru ekki litsterkir heldur náttúrulegir. Þeir eiga að láta varirnar líta út fyrir að vera náttúrulega rauðari en þær eru, eins og maður sé nýbúinn að borða ber! Skærrauður litur og dökkrauðir litir eru ekki liturinn fyrir þig. Prófaðu einhvern sem er með litbrigði af berjarauðum.

Bobbi Brown – Crushed Lip Color
Cabana – 5.090 kr

Max Factor – Colour Elixir Cushion
Majesty Berry – 2.740 kr

Glamglow – Potmud Wet Balm
Starlet – 2.770 kr

Djúpir Berjalitir

  • Ef þú ert:
  • með bleikan eða gulan undirtón
  • með dökka húð
  • í leit að litsterkum eða litminni varalit
  •  með þykkar eða þunnar varir

Ef þú ert með dökka húð hugsaðu þá ber, ber, ber. Allir berjalitir eru góðir fyrir dekkri húð, hvort sem þeir eru í djúpum dökkum litum eða skærum kirsuberjalitum! Því dýpri litur, því betri.

Becca – Ultimate Lipstick Love
Maroon – 3.860 kr

Max Factor – Velvet Mattes Lipstick
Love – 2.910 kr

Max Factor – Lipfinity Velvet Matte
Satin Berry – 2.780 kr

Þín fullkomna blanda af rauðum

  • Ef þú ert:
  • með hlutlausan undirtón  
  • með ljósa eða dökka húð
  • í leit að litsterkum eða litminni varalit
  •  með þykkar eða þunnar varir

Ef þú tilheyrir hópnum með hlutlausan undirtón þá ættirðu í raun að geta fundið varalit sem fer þér vel í bæði hlýtóna og kaldtóna rauðum varalitum, það snýst hreinlega um að finna þína fullkomnu blöndu af lit!

Becca – Ulltimate Lipstick Love
Cherry – 3.860 kr

Estée Lauder Pure Colour Desire Rouge Excess Lipstick
Nr. 303 – 7.160 kr

Rimmel – Stay Matte Liquid Lip Colour
Fire Starter – 2.260 kr

Góð ráð við að setja á sig rauðan varalit

  1. Byrjaðu á því að nota varaskrúbb til að taka í burtu allar dauðar húðfrumur og þurrk í vörunum. Þær verða silkimjúkar eftir á!

2. Næst skaltu setja á þig rakagefandi varasalva til þess að næra varirnar. Leyfðu varasalvanum að komast alveg inn í varirnar áður en þú setur varalitinn á. Annars getur það leitt til þess að varaliturinn blæði og/eða helst ekki jafn vel á. Til að vera viss er gott að dúmpa létt yfir varirnar með þunnu tissjúi áður en þú setur varalitinn á.

3. Notaðu varablýant til þess að móta varirnar. Gerðu varirnar jafnari en þær eru. Oftast þarf maður aðeins að stækka efri eða neðri vörina svo þær passi saman. Fylltu líka allar varirnar með varablýantinum, það mun hjálpa varalitnum að vera lengur á.

Ekki til á lager
1.860 kr.
This product has multiple variants. The options may be chosen on the product page
2.990 kr.
This product has multiple variants. The options may be chosen on the product page
1.530 kr.
This product has multiple variants. The options may be chosen on the product page
5.990 kr.
This product has multiple variants. The options may be chosen on the product page
9.090 kr.
This product has multiple variants. The options may be chosen on the product page
1.830 kr.
This product has multiple variants. The options may be chosen on the product page
4.990 kr.
This product has multiple variants. The options may be chosen on the product page

4. Settu á þig hinn fullkomna rauða varalit! Taktu þunnt tissjú og ýttu því beint ofan á varirnar eftir smá stund. Berðu svo aftur á þig varalitinn. Endurtaktu þetta tvisvar. Við þessa tækni setur maður varalitinn á í lögum og það hjálpar til muna að láta hann haldast mun lengur á!

Margrét Magnúsdóttir er hár- og förðunarfræðingur, og er flutt til Íslands eftir að hafa starfað í London í 6 ár. Margrét hefur starfað við allskonar skemmtileg verkefni eins t.d. og Vogue Online, Will.I.Am tónlistarmyndband, Topshop, BBC, tímarit og bíómyndir. Margrét er einnig eftirsótt í brúðkaupsfarðarnir en hún ferðast reglulega erlendis til þess að farða fyrir brúðkaup. Margrét hefur mikinn áhuga á húðumhirðu, hári, förðun og fallegum hlutum.

Hægt er að fylgjast með Margéti hér ♥:

Heimasíða : www.margretmagnus.com
Instagram: www.instagram.com/margretmagnus
Snapchat: @margretmagnus

1 thoughts on “Hvernig finn ég minn fullkomna rauða varalit?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *