Það besta sem þú getur gert til þess að sporna við ótímabærri öldrun húðarinnar!!

Sólarvörn er það BESTA sem þú getur gert fyrir húðina þína, viljir þú sporna við ótímabærri öldrun hennar. En það er ekki alveg sama hvaða sólarvörn það er, heldur þarf sólarvörnin að innihalda bæði UVA og UVB vörn.

Okkur langar að þið skiljið af hverju við ættum að nota sólarvörn daglega. Ég ætla að hafa þetta eins stutt og á eins miklu mannamáli og hægt er, enda er kannski ekki skemmtilegast í heimi að lesa um sólarvarnir. En þetta er bara ekkert djók – svo ef þú hefur áhuga á húðumhirðu – eða vilt hægja á öldrun húðarinnar og draga úr öldrunarummerkjum (já og sporna við húðkrabbameini) þá lestu áfram. Trúið mér, það er auðveldara að koma í veg fyrir eitthvað – heldur en að ætla að taka það til baka. Og því er sólarvörnin okkar besti vinur.

Sólin er ábyrg fyrir 90% af ótímabærri öldrun húðarinnar og það er ekki bara þegar að húðin brennur að hún verði fyrir skaða sem eldir húðina heldur verður hún fyrir skaða á hverjum einasta degi. Þegar það er skýjað, í rigningu og roki eða þó svo þú sitjir inni allan daginn við glugga.

 

En af hverju og hvernig?

Sólin gefur frá sér þrennskonar geisla – UVA, UVB og UVC. Í stuttu máli eru UVB geislarnir eru þeir sem valda sólbruna en UVA geislarnir eru þeir sem að gera okkur brún og elda húðina. Við þurfum sem betur fer ekki að hafa áhyggjur af UVC geislunum því þeir berast ekki til jarðar.

UVA geislar:

Eru um 95% af þeim geislum sem skína á húðina okkar, um leið og það er bjart úti – þá verður húðin fyrir skaða af UVA geislum og það er alveg sama hvort þú vinnir inni allan daginn og búir á Íslandi þar sem sólin lætur varla sjá sig. Ef það er birta frá sólinni þar sem þú ert (í bílnum á leiðinni í vinnuna t.d.) þá eru UVA geislarnir mættir á svæðið og byrjaðir að valda skaða. Þú finnur ekki fyrir þeim, þú sérð þá ekki en þeir eru þarna – alla daga – alltaf.

UVA geislarnir gefa okkur lit og gera okkur brún. Þeir ferðast dýpra ofan í húðina en UVB geislar og skemma því teygjanleika hennar og þéttingu. UVA eru þar af leiðandi ein helsta ástæðan fyrir því að við fáum hrukkur – ásamt því að spila þátt í öllum tegundum af húðkrabbameini.

UVB geislar:

UVB geislarnir eru ábyrgir fyrir sólbruna ásamt roða og sólarblettum– ásamt því að spila stóran þátt í myndun húðkrabbameins. En ólíkt UVA þá skiptir meira máli hvar á hnettinum þú ert og hvort að UVB geislarnir séu nógu sterkir til þess að brenna húðina. Því nær miðbaugnum, og því hærra sem maður fer – því meiri UVB geislar. Þar af leiðandi er mjög mikilvægt fyrir t.d. skíðakappa og fólk sem stundar fjallgöngur að alltaf sólarvörn. 

 

Með upplýsingarnar að ofan að vopni þá vonandi skiljið þið betur núna af hverju við ættum að nota sólarvörn alltaf og alla daga en ekki bara í sólarlandinu eða sólbaði því þó svo þú sjáir það ekki né finnir– þá eru UVA geislarnir alltaf til staðar.

Og til þess að leggja betri áherslu á þetta þá langar okkur að útskýra fyrstu myndina. Þetta er mynd af Bill McElligott sem New England Journal of Meddicine birti. Bill McElligott er 66 ára gamall á þessari mynd en hann vann sem vörubílstjóri í 28 ár og notaði hann aldrei sólarvörn. Munurinn á vinstri og hægri hlið mannsins er svakaleg og sýnir svo vel hvað sólin hefur gert við húðina hans. Þrátt fyrir að það hafi verið í gegn um gluggann á vörubílnum! Ef þessi mynd er ekki hvati til þess að nota sólarvörn þá veit ég ekki hvað.

Hér rétt fyrir ofan er svo búið að spegla báðar hliðarnar saman ef að hann hefði alltaf verið í sól (vinstri) og hægri ef sólin hefði ekki skinið á hann allan daginn – munurinn er svakalegur!! – auðvitað er þetta svolítið gróft dæmi – en gott dæmi samt.

Sólarvörn

Fæstir vita að SPF er einungis mæling á UVB geislum og þegar að sólarvörn er valin er ótrúlega mikilvægt að velja sólarvörn sem er einnig merkt með UVA vörn – og/eða „Broad Spectrum“ sem þýðir að hún verndi bæði gegn UVB og UVA geislum- sérstaklega ef tilgangurinn er að reyna að koma í veg fyrir öldrun húðarinnar. Farðar og förðunarvörur með sólarvörn eru því yfir höfuð ekki nóg til þess að vernda gegn UVA geislum, þrátt fyrir að þær séu að sjálfsögðu gagnlegar gegn UVB geislunum og frábærar með annarri broad spectrum sólarvörn. En eins og áður segir, ef að markmiðið er húðumhirða – veljið þá alltaf vöru sem að verndar ykkur gegn UVA geislunum líka.

 

Sólbrúnka –  en verð ég þá brún/brúnn?

Hvernig verðum við sóbrún? Hér ætlum við bara að vitna í Vísindavefinn (hægt að smella á link ef þið viljið lesa meira). „ Þegar sól skín á húð örva útfjólubláir geislar hennar litfrumur í yfirhúðinni til að mynda litarefnið melanín en það ver húðina gegn þessum sömu geislum. Melanín er mjög öflugt sólarvarnarefni og er fólk með dökka húð (mikið melanín) í hundraðfalt minni hættu á að fá húðkrabbamein en fólk með ljósa húð (lítið melanín)….. Sólbrúnka er í raun eitt einkenni sólskaða á húð. Sólargeislun flýtir fyrir öldrun húðarinnar, til dæmis hrukkumyndun, myndun brúnna bletta og þynningu hennar.“

Sólbrúnka er því jú, leið húðarinnar til þess að vernda sig – og þar af leiðandi í raun og veru ummerki um skaða. Það er algjör mýta að maður verður ekki brúnn með því að nota sólarvörn, en sannleikinn er líka sá að það tekur aðeins lengri tíma að fá brúnku með sólarvörn – EN hún endist líka miklu lengur. Svo hugsaðu hér kosti og galla:

Fljót brúnka sem að skaðar húðina þína, eldir þig og endist í stuttan tíma.

Brúnka sem tekur aðeins lengri tíma, er mun skaðlausari og endist mun lengur.

Án þess að vera hlutlaus hér, þá held ég að besti kosturinn sé slatti af sólarvörn og svo sjálfbrúnka ef maður getur ekki beðið.

Hvenær á að nota sólarvörn?

Á hverjum morgni, eftir að rakakrem hefur verið borið á húðina og áður en að farði eða farðagrunnur er borinn á. Ef að þú ert í mikilli sól, sólbaði eða á skíðum þá er mælt með því að bera sólarvörn á húðina á nokkurra tíma fresti – eða oftar eftir því hversu oft þú bleytir húðina eða svitnar.

4.390 kr.
This product has multiple variants. The options may be chosen on the product page

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *