Gunna ameríska – viðtal við snyrtivöru drottningu Íslands

Þegar við hittum Gunnu fyrst þá vorum við algjörlega heillaðar. Gunna er einu orði sagt stórglæsileg og ástríðan fyrir snyrtivörum algjörlega skín af henni. Það er alveg ómetanlegt að fá að læra af einni reynslumestu konu landsins þegar kemur að snyrtivörum. Ég spurði Gunnu hvort ég mætti ekki taka við hana smá viðtal því hennar sögu þurfa allir sem elska snyrtivörur að heyra.

Við erum þeirrar gæfu njótandi að Guðrún Þóra Sigurðardóttir, kölluð Gunna og margir þekkja sem Gunna ameríska verður með okkur upp í Beautybox.is verslun nokkra valda daga í vetur. Hún verður hjá okkur næst laugardaginn 26. september.

Snyrtivörubúðin á Laugaveg 76 var í sama húsi og Vinnufatabúðin er í dag.

Hver er bakgrunnur þinn í snyrtivöruheiminum?

„Það má segja að ég sé fædd inn í snyrtivörugeirann. Móðir mín, Þóra Þórarinsdóttir opnaði Snyrtivörubúðina á Laugarvegi 76 árið 1958. Þangað fæddist ég inn og var sem ungabarn. Ég var bara á bak við og hún gaf mér brjóst og svo seldi hún snyrtivörur, svo það má segja að ég sé með snyrtivörur í blóðinu.

Ég og ein systir mín unnum í búðinni á ungum aldri en svo fór ég í nám til Bandaríkjanna þar sem ég lærði hótel og rekstrarfræði, en ég hef aldrei unnið við það heldur fer ég alltaf aftur í snyrtivörurnar og er ég búin að vinna við snyrtivörur alla mína ævi, mínus 4 ár. Ég kom heim í stutta stund eftir námið en flutti fljótt aftur út til Bandaríkjanna og kynntist þar manni sem ég giftist. Hann dó nokkrum árum síðar og þá fann ég að mig langaði að fara að vinna aftur og fékk vinnu hjá Lancome. Ég vann þar í 2 ár og var svo boðin vinna hjá Estée Lauder. Það var mjög skemmtilegur tími, Estée Lauder eru mjög kröfuharðir á þjálfun og á 6 mánaða fresti vorum við kölluð inn á 3 daga námskeið.

Ég flyt aftur heim árið 2005. Ég ætlaði mér aldrei að koma aftur til Íslands en ég kynntist íslenskum manni og hér er ég í dag. Ég byrjaði að vinna fyrir Ísflex sem var með La Praire vörurnar en þar var systir mín að vinna. Við erum 5 systur en við tvær erfðum sölumennskuna frá móður okkar. Ég var þar stutt en einn daginn langaði mig að kaupa mér La Mer krem og ég fer upp í heildsöluna Artica. Þar hitti ég eigandann Gulla, sem spyr mig hvað ég er að gera í dag. Ég hafði ekki hugsað mér neitt, en ég var ráðin samdægurs og eru komin 11 ár síðan.“

Gunna rifjar það upp að á tímabili voru 20 + snyrtivörubúðir á Laugarveginum frá Hlemmi niður í Bankastræti og það eru heldur betur breyttir tímar og hefur snyrtivöruheimurinn svo sannarlega breyst.

Það eru margir sem þekkja þig sem Gunna ameríska, getur þú sagt okkur söguna á bak við nafnið?

„Allir sem þekkja mig vita tengingu mína við Bandaríkin. Ég myndi enn vilja búa þar en ég bjó í 25 ár í Michigan. Strákurinn minn býr þar. Ég hef miklar tengingar til landsins og einfaldlega elska Bandaríkin.“

Að þínu mati hvað er það sem þarf til þess að vinna við að selja snyrtivörur?

Ég hef brennandi áhuga á snyrtivörum, ég einfaldlega elska snyrtivörur frá A-Ö, ég elska að stúdera krem og ég elska allt í kringum snyrtivörur. Snyrtivörur eru ekki bara atvinnan mín heldur áhugamál. Ég er ein af þessum klikkuðu, ég get eytt klukkustundunum saman að skoða og bera saman vörur. Ég fékk snyrtivörur í blóðið og er búin að vera að veltast í geiranum í áratugi. Mér finnst ótrúlega gaman að prófa snyrtivörur og á ég alveg óhemju mikið magn af snyrtivörum heima hjá mér. Ég get ekki hugsað mér að gera annað – þetta er það sem ég verð að gera.

Það er það sem þarf í dag til að vinna við sölu á snyrtivörum. Það þýðir ekkert að bulla í konum í dag, konur í dag og sérstaklega ungar konur í dag eru alveg æðislegar og fróðar um snyrtivörur og þú þarft að vita hvað þú ert að tala um.“

Manst þú hver fyrsta snyrtivaran þín var?

 „Já ég man eftir því. Ég var í hestamennsku sem barn og það var kalt og mamma vildi verja húðina á mér fyrir kuldanum. Fyrsta snyrtivaran mín var Creme de Rose frá German Montail. Þetta var þykkt og mikið krem sem var húðina fyrir kuldanum. Fyrsta förðunarvaran mín var Max Factor Stick Foundation sem gerði móður mína alveg brjálaða því það var mikið meik. Þetta er sniðug vara en kannski ekki fyrir 13 ára stúlku. Ég hafði mjög gaman að því að mála mig mikið með því og móðir mín alveg tók út fyrir það.

Hverjar eru uppáhalds 5 snyrtivörurnar þínar?

„Ég er rosalegur La Mer aðdáandi. Ég keypti mér La Mer fyrst löngu áður en ég byrjaði að vinna fyrir merkið. Svo ég verð alltaf að eiga Treatment Lotion, Concentrait, Body Cream og Cream De La Mer Soft Cream. Ég fæ fiðring ef ég er komin langt niður í krukkurnar. Ég hoppa auðvitað líka á milli, nú er ég sem dæmi að nota Dior næturkrem og ég get ekki verið án Advanced Night Repair frá Estée Lauder.“ Ég nota Advanced Night Repair undir allt. Það er alveg sama hvað ég set á mig, ég set alltaf á mig Advanced Night Repair fyrst. Hvort sem það eru ávaxtasýrur, retinol, krem eða maskar. Sérstaklega á undan retinoli. Nýja Advanced Night Repair er líka mind blowing – það er rosalegt. Það fer aðeins betur inn í húðina.

Ég gerði tilraun á manninum mínum, hann var með sár á hælnum sem lokaði sér ekki. Ég var búin að kaupa allskonar smyrsli í apótekinu og ekkert virkaði svo ég hugsaði nú prófa ég La Mer. Ég setti La Mer líkamskremið á hælinn á honum öll kvöld í 10 daga og sárið lokaði sér. La Mer er svo rosalega græðandi.“

Hvaða snyrtivöru/ur ertu alltaf með í veskinu?

„Ég er alltaf með púður, ég er mjög hrifin af Dior púðrinu og ég er alltaf með einhverskonar gloss. Núna er ég með Maximiser frá Dior.

Hver eru þín helstu snyrtivöru leynitrikk?

„Ég er mjög dugleg að segja konum að blanda saman vörum. Ef farðinn þinn er of dökkur, blandaðu honum saman við ljósari farða. Ef þú vilt meiri þekju í farðann þinn einstaka sinnum en sérð ekki ástæðu til að eiga sér farða til að nota nokkra daga á ári, blandaðu hyljara við farðann til að fá meiri þekju. Ef þú vilt gera mattan farða meira ljómandi, blandaðu Advanced Night Repair í farðann þinn. Það er nefnilega hægt að blanda snyrtivörum og nota þær út fyrir kassann. Eins og til dæmis Eyelinerinn frá Bobbi Brown, það er hægt að nota hann sem eyeliner og augnskugga. Það eru margar konur sem að fatta ekki að það er hægt að blanda snyrtivörunum, það þarf ekki aðeins að nota þær á einn hátt.

Út í alla rakamaska er hægt að bæta við nokkrum dropum af olíu, olíur er einnig hægt að nota sem glow á kinnbein. Annað sem mig langaði að nefna er að ekki vera hræddar við olíur, þær eru eitt það besta sem við getum gefið húðinni okkar, sérstaklega hér á Íslandi því við erum svo þurr. Það er í lagi að nota fleira en 1 serum, með mismunandi virkni – ekki vera hrædd við að blanda saman. Það nýjasta nýtt í ilmvötnum er einnig að blanda saman, setja 1 um morguninn og annað um kvöldið. Því ilmirnir vinna oft saman.

Ég er líka svakaleg í serumunum, ég set alltaf fyrst Advanced Night Repair og svo fleiri serum ofan á. Ég segi stundum við konur ef þið viljið fá extra treatment og eruð heima allan daginn setjið á ykkur rakaserum nokkrum sinnum yfir daginn, húðin mun drekka það í sig.

Það er óendanlegt hvað maður getur leikið sér með snyrtivöru. Það er það sem gerir snyrtivörur svo spennandi.“

Nú þekkir þú La Mer merkið líklegast best hér á landi, hvað er það sem gerir merkið svona sérstakt?

„Já ég er aðdáandi númer 1,2 og 3 og löngu áður en ég byrjaði að selja La Mer. Það er eitthvað við La Mer sem heillar mig. Sagan, hvað er í kremunum, hvernig þau eru meðhöndluð og hvað þau gera. Þú sérð mun á húðinni, þú sérð hvað þau gera. Ég geri mér grein fyrir því að ekki allir geta keypt La Mer en við eigum alltaf eitthvað sem hentar öllum konum. En ég segi stundum að ég geri konum óleik að gefa þeim prufur, því þær koma til með að elska La Mer.“ (Ég og mamma mín, já og pabbi sem stelst í krukkuna hennar getum staðfest það).

La Mer kremin skal bera svona á

Notið spatúluna sem fylgir með

Nuddið höndunum saman

Þar til kremið er ekki lengur hvítt heldur glært

Þrýstið á andlit og háls

Hverjar eru þínar uppáhalds La Mer vörur og af hverju?

„Það eru vörurnar sem ég nefndi áður. Treatment Lotion, Concentraitið, Body Cream og Cream De La Mer Soft Cream. Body kremið þarftu aðeins að nota á nokkra daga fresti því að húðin er nærð þó svo þú farir í sturtu. Það er hægt að nota Treatment Lotionið á líkamann líka ef þú vilt fá extra glow. Ef það er einhver vara sem þú vilt prófa frá La Mer og þorir kannski ekki alveg í kremið þá mæli ég með Treatment Lotion. Það bindur raka í húðinni og er dásamlegt. Það er notað á undan rakakremi. Karlmenn geta líka notað það eftir rakstur. Rakakremin eru einfaldlega allt sem húðin þarf, ég nota Soft Cream og Concentrait er mest græðandi varan af þeim öllum.“

Til að ljúka viðtalinu áttu þitt uppáhalds Beauty quote?

„Mér finnst allar konur fallegar. Það er beauty í hverri einustu konu. Þú þarft ekki að vera beautyqueen, það er fegurð í öllum konum. Konur eru bara æðislegar, það er bara svoleiðis.“

Við þökkum Gunnu fyrir viðtalið og mælum innilega með því að þið kíkið á okkur upp í verslun og heilsið upp á hana. Hún er hjá okkur næst laugardaginn 26. september.

Íris Björk Reynisdóttir

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *