Bjútítips sem þú ættir EKKI að fylgja!

Bjútítips sem maður rekst á eru misgóð. Sum virka frábærlega en önnur ekki neitt og sumum geta hreinlega verið slæmt að fara eftir. Í gegnum tíðina hef ég prófað og komist að mörgum góðum ráðum sem ég hef t.d. deilt með ykkur HÉR, en nú vil ég deila með ykkur hvaða ráðum er best að fylgja ekki eftir. Sum munu spara ykkur pening og önnur leiðrétta algengar mýtur. Ég vona þið hafið gaman af því að lesa

 Að sleppa rakakremi ef þú ert með olíuríka húð

Einn stærsti misskilningurinn þegar kemur að húðumhirðu: að fólk með olíuríka húð eigi ekki að bera á sig rakakrem því það geri illt verra. En það rétta er að ef húðinni skortir raka þá byrja olíukirtlarnir að framleiða enn meiri olíu til þess að húðin fái raka. Það gerir húðina því ennþá olíuríkari og festir þig í vítahring. Að nota gott rakakrem reglulega hjálpar olíuframleiðslu húðarinnar að haldast á jöfnu meðalstigi og fá þann raka sem nauðsynlegur er.

Að nota svitalyktaeyði á ennið til að koma í veg fyrir að það glansi

Þetta bjútítips er ekki góð hugmynd því svitalyktaeyðar vinna þannig að þeir blokka svitakirtla húðarinnar en gera ekkert fyrir olíuframleiðslu húðarinnar. Þá er einnig er hætta á því að stífla húðholur sem getur valdið því að bólur myndist. Ekki setja svitaeyði framan í þig. Notaðu frekar farðagrunn (e. primer) fyrir olíuríka húð.

Að nota maíssterkju til þess að „baka“ húðina

Þið hafið kannski rekist á þetta bjútítips, en kannski ekki! En “að baka” er förðunartækni sem hefur orðið vinsæl undafarið, þá sérstaklega með Youtube myndböndum sem sýna hvernig skal skapa fullkominn grunn og óaðfinnanlega áferð á húðinni þar sem engar húðholur sjást. “Að baka” húðina er í raun að láta vel af örfínu lausu andlitspúðri á húðina og láta púðrið sitja á húðinni í dágóðan tíma, áður en það er burstað létta af. En þetta bjútítips stingur uppá að í stað þess að nota sérstakt andlitspúður er mælt með að nota maíssterkju. Maíssterkja er eitthvað sem þú vilt ekki bera framan í þig, sérstaklega í miklu magni og er því ekki mælt með að fylgja þessu bjútítipsi!

Að hita augnhárabrettarann með hárblásara áður en þú krullar augnhárin

Hljómar ágætlega og virkar örugglega vel, en þú ert í raun að breyta augnhárabrettaranum í pínulítið krullujárn, og ef þú setur það sjóðandi heitt of nálægt augunum er bæði hætta á því að brenna óvart augnlokið eða skaða augað sjálft. Einnig getur það að setja mikinn hita á augnhárin oft (eins og á hverjum degi) skaðað augnhárin til lengdar. Fjárfestu frekar í góðum augnhárabrettara sem ekki þarf að hita og notaðu svo krullandi maskara

Að nota serum/hárvörur til þess að laga slitna og ónýta enda hársins.

Sannleikurinn er sá að það er ekki hægt að gera neitt til þess að laga slitna enda hársins nema að klippa þá í burtu. Hægt er að nota hárvörur eins og serum til þess að láta slitna enda líta betur út með því að gera þá minna úfna, en þú ert ekki að fara laga endana og koma þeim í heilbrigt form. Það er því best að fara í klippingu reglulega til að halda hárinu heilbrigðu.

Að þér eigi að líða ótrúlega hreinni og stífri í húðinni eftir að þú hreinsar hana, að aðeins þá sé húðin alveg hreinsuð

Að skrúbba húðina og taka allt í burtu efir daginn er frábær tilfinning. En ef þér líður eftir hreinsun húðarinnar að húðin sé mjög stíf þá þarftu að passa þig. Það getu nefnilega verið að þú sért að nota of sterkan hreinsi fyrir húð þína. Hreinsirinn getur þannig verið að taka náttúrulegar olíur húðarinnar í burtu, sem er ekki gott fyrir jafnvægi húðarinnar.  Frekar skaltu nota hreinsi sem þér líður vel í húðinni eftir á og mjúkri.

Að setja tvisvar sjampó í hárið svo það verði extra hreint og olíulítið

Nei, þetta er algjör óþarfi og eyðsla á sjampói. Að þvo hárið vel einu sinni í sturtunni ætti að vera alveg nóg. Ef þér líður eins og hárið á þér sé fitugt þó þú sért nýbúin að þrífa það þá mæli ég með að skipta um sjampó sem hentar þinni hártegund og hársverði betur.

Að nota heimatilbúnar aðferðir til þess að gera varir þínar stærri

Á Instagram og Youtube hefur verið trend að láta varirnar líta út fyrir að vera stærri til dæmis með því að sjúga skotglas eða setja cayenne pipar eða wasabi á varnirnar til þess að gera þær stærri. Í raun getur þetta bara haft skaðleg áhrif fyrir varirnar og mun aðeins hafa áhrif í nokkrar mínútur, ef það þá virkar. Frekar mæli ég með því að setja á sig fallegt varagloss.

Að greiða hárið oft og mikið svo það glansi

Ef þú burstar hárið á þér of mikið þá getur verið að þú takir í burtu náttúrulegar olíur þess og það gerir hárið úfið og viðkvæmt. Fólk með krullað hár skal sérstaklega fara varlega í að bursta hárið og nota frekar grófa greiðu í staðinn fyrir fínan hárbursta. Til þess að fá glansandi hár mæli ég frekar með að nota góðar hárvörur og greiða hárið aðeins eftir sturtu og á morgnanna, ef þess þarf!

Að nota krem og olíur til þess að koma í veg fyrir húðslit (e. stretch marks)

Það eru svo mörg krem og olíur á markaðinum sem að segja að þau geti lagað og/eða komið í veg fyrir húðslit. Rannsóknir hafa hins vegar sýnt að þau hafa ENGIN áhrif! Sem er sjokkerandi að lesa. Rannsókn frá 2015 sýnir að sérstök krem fyrir húðslit gerðu ekkert gagn. Sannleikurinn er sá að þegar skaðinn er skeður er lítið hægt að gera, því miður. Að fá húðslit er mikið genatengt og fer einnig eftir húðtegund, rakastigi í húð og öðru sem þarf frekar að passa uppá.

Að nota vörur sem eiga að minnka húðholurnar þínar í alvöru

Margar vörur eru til á markaðnum sem segjast geta minnkað húðholur þínar. En þetta er ekki alveg rétt. Við getum ekkert gert til þess að láta húðholurnar MINNKA, við getum aðeins notað þessar vörur til þess að láta þær LÍTA ÚT fyrir að vera minni þar sem að stærð húðhola fer mikið eftir genum. Það er frábært að nota þesskonar vörur undir farða, og mæli ég með því, en þú ert ekki að fara að breyta genasamsetningu þinni og tegund húðar þinnar. Frekar mæli ég með að finna hina fullkomnu húðrútínu fyrir þig og nota góðan farðagrunn sem hentar þinni húð – það getur gert kraftaverk fyrir að láta húðholurnar sýnast minni.

Að prófa tannhvítnunar trikk, líkt og maður sér á Instagram

Maður hefur rekist á allskyns myndbönd þar sem er verið að kynna allskonar vörur (náttúrulegar og ónáttúrulegar) sem eiga að hvítta tennurnar úr gulum í skjannahvítari. Sannleikurinn er sá að ef maður vill sem áhrifamesta og öruggasta tannhvítnunarmeðferð eða efni til þess, að þá er best að fara til tannlæknis og spyrja með hverju þau mæla. Við eigum bara eitt sett af tönnum og það er best að hugsa vel um þær.

Ekki nota olíur á olíuríka og bólótta húð

Þetta bjútítips er í raun frekar snúið – þar sem það getur verið bæði rétt og rangt! Málið er að ef maður er með olíuríka og/eða bólótta húð þá er best að forðast ákveðnar olíur, sem eru oft notaðar sem fyllingarefni í mörgum húð- og snyrtivörum. Þessar olíur eru jarðolíur (e. mineral oils). Þær gera ekkert gagn fyrir olíuríka húð og geta stíflað húðina enn frekar. En ákveðnar gæða olíur (eins og til dæmis olíurnar sem Ra Oils nota) geta hjálpað húðinni mikið þá til dæmis við að hreinsa húðina, koma veg fyrir bólumyndun og koma jafnvægi á húðina. Það er því best að halda sig frá jarðolíum og leita í góðar olíur ef maður er með olíuríka húð.

Margrét Magnúsdóttir er hár- og förðunarfræðingur, og er flutt til Íslands eftir að hafa starfað í London í 6 ár. Margrét hefur starfað við allskonar skemmtileg verkefni eins t.d. og Vogue Online, Will.I.Am tónlistarmyndband, Topshop, BBC, tímarit og bíómyndir. Margrét er einnig eftirsótt í brúðkaupsfarðarnir en hún ferðast reglulega erlendis til þess að farða fyrir brúðkaup. Margrét hefur mikinn áhuga á húðumhirðu, hári, förðun og fallegum hlutum.

Hægt er að fylgjast með Margéti hér ♥:

Heimasíða : www.margretmagnus.com
Instagram: www.instagram.com/margretmagnus
Snapchat: @margretmagnus

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *