Algeng beauty-mistök sem þú gætir verið að gera!

Í þessari grein tala ég um algeng mistök þegar kemur að förðun, húðumhirðu og hári. Gæti verið að þú sért að gera eitthvað af þeim? Það er allavega ekkert mál að laga þau.

Þú gleymir að hugsa um hálsinn

Þú notar góðar húðvörur á andlitið til að koma í veg fyrir fínar línur og viðhalda raka, en hvað með hálsinn? Charlotte Tilbury, heimsfrægur förðunarfræðingur, sagði eitt sinn: ,,Þú getur alltaf séð aldur konu með því að horfa á háls hennar“. Hálsinn þarf að hugsa um og ekki má gleyma að nota góðar vörur á hann líka. Mundu eftir að setja rakakremið og serumið líka niður hálsinn fyrir svefninn.

Þú hreinsar af þér farðann, en gleymir að hreinsa húðina

Fyrst þarf að taka farðann af og síðan hreinsa húðina. Sumir hreinsar eiga að taka farðann af og hreinsa húðina á sama tíma en það er best gera tvöfalda hreinsun, eins og ég kalla það. Fyrst er allur farði tekinn af með vöru sem er sérstaklega hönnuð til þess að taka farða af. Næst hreinsarðu húðina með húðhreinsi sem fer inn í húðina og húðholurnar, og hreinsar þannig húðina alveg fullkomlega.

Þú prófar litinn á farðanum með því að setja hann á handarbakið.

Þetta eru hrikaleg mistök en ég hef meira að segja séð þetta gert af sölufólki í snyrtibúðum! Það er alls ekki við hæfi að prófa hvort að liturinn á farðanum sé réttur fyrir þig með því að setja hann á handarbakið. Við erum oftast ljósari í framan og á hálsi, heldur en á líkamanum. Allt á að blandast saman í einn góðan lit og því þarf að prófa litinn á farðanum með því að draga hann í línu frá kjálka, niður háls og að bringu til að sjá hvort hann sé við hæfi. Liturinn á handarbakinu á þér segir ekkert til um það.

Farðinn þinn er með rangan undirtón

Sumir vita ekki að farðar eru með mismunandi undirtóna sem þarf að velja eftir undirtón þinnar húðar. Undirtónn húðar þinnar er annað hvort hlýr, kaldur eða hlutlaus (natural). Aðallega er talað um gulan eða bleikan undirtónn eða þá blöndu af báðum. Þetta þarf sérstaklega að passa þegar þú kaupir þér farða því þeir hafa ákveðinn undirtón. Það passar til dæmis ekki ljósri húð með gulan undirtón að vera með bleiktóna farða. Það getur verið að liturinn á farðanum passi upp á hversu dökkur eða ljós hann er, en ef að undirtóninn er ekki réttur lítur farðinn ekki rétt út.

Þú plokkar, kreistir og potar í húðina

Aðeins snyrtifræðingar hafa leyfi til þess, því þeir vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera. Ekki plokka í sár, bólur eða annað á húð þinni. Það gerir aðeins illt verra og mun taka lengri tíma fyrir húðina að jafna sig. Reyndu að pota sem minnst framan í þig og leyfðu húðinni að vera.

Þú notar sólarvörn bara á sumrin eða í útlöndum

Ég tönnlast endalaust á notkun sólarvarnar því sólarvörn er svo mikilvæg fyrir húðina. Sólin hefur mest áhrif á öldrun húðarinnar, fyrir utan reykingar. Það er best að nota sólarvörn daglega, alveg sama hvernig veðrið er, til að verja húðina alveg gegn sólargeislum. Notaðu sólarvörn daglega sem inniheldur allavega SPF 30. Líka á hálsinn!


Þú bíður ekki eftir því að rakakremið og primerinn fari inn í húðina fyrir farða

Ef það tekur þig innan við 5 mínútur að setja á þig rakakremið, primerinn og farðann þá ná þessir þrír hlutir ekki að gera hlutverk sitt eftir bestu getu. Vörurnar þurfa tíma til þess að komast inn í húðina í sitthvoru lagi og gera sitt. Settu til dæmis á þig rakakremið eftir að þú þværð þér í framan. Burstaðu svo tennur. Settu síðan primerinn, málaðu augun og settu svo farðann á. Þá þarftu ekki að eyða tíma í að bíða heldur gerir eitthvað annað á meðan.

Þú setur augnkremið vitlaust á

Ekki setja augnkremið á þig með því að draga húðina til og setja pressu á augnsvæðið. Það þarf að fara varlega að kringum augnsvæðið. Dúmpaðu frekar augnkreminu létt á augnsvæðið. Láttu kremið aðallega á ytri partinn undir augun, undir augabrún og inn á gagnaugað.

Þú ferð ekki nógu oft í klippingu

Algengt er að konur séu að reyna að safna hári og vilja því ekki fara í klippingu. En þú átt einmitt að fara í klippingu til þess að fá fallegt, heilbrigt hár. Að klippa hárið reglulega kemur í veg fyrir slitna enda, en slitnir endar geta þynnt hárið til muna og gert það að verkum að það virðist vaxa hægar. Passaðu upp á hárið þitt og farðu reglulega í klippingu.

Þú heldur að þú sért of ung fyrir anti-ageing vörur

Almennt er mælt með því að byrja að nota vörur sem koma í veg fyrir ótímabæra öldrun húðarinnar um 25 ára aldur! Það skaðar allavega ekki að byrja of snemma. „Að koma í veg fyrir“ er mun einfaldara en að laga!

Þú sleppir því að nota primer

Ég mæli með að nota primer undir farða og augnskugga. Primer gerir það að verkum að húðin verður mun sléttari þar sem primerinn fyllir í húðholur, er rakagefandi og heldur húðolíunni í skefjum. Farðinn helst lengur á og húðin lítur miklu betur út.

Þú þværð ekki förðunarburstana þína

Því miður er mjög algengt að konur þvoi ekki burstana sína en það er mjög mikilvægt. Í hvert skipti sem þú notar förðunarburstana þína safnast upp skítur og bakteríur í þeim sem getur haft áhrif á húð þína til lengdar. Einnig berð þú svo það sem er í förðunarburstunum, í förðunarvörurnar þínar þegar þú snertir þær með burstanum, eins og t.d. púðrið og kinnalitinn. Meðalkonan á allavega að djúphreinsa burstana sína einu sinni í mánuði, með barnasjampói eða burstasápu. Einnig mæli ég með að sótthreinsa burstana, með burstahreinsi sem inniheldur sótthreinsandi efni, einu sinni í viku. Það tekur minni tíma en þú heldur!

Þú blandar ekki farðann niður á háls

Þó að þú passar upp á að farðinn sé í réttum lit fyrir þig þá verðurðu að passa að blanda farðann niður á háls. Ég set meira að segja oft restina á burstanum aðeins yfir eyrun. Þetta verður að gera svo að við fáum sömu áferð á húðina frá enni niður á háls og engin skil sjást.

Þú setur ekki hitavörn í hárið

Þetta er mikilvægt skref í hárumhirðu. En tæki með brennandi hita til þess að slétta eða krulla hárið geta farið illa með það ef ekki er sett hitavörn á undan. Þú ert líklegri til þess að fá slitna enda ef þú notar ekki hitavörn. Passaðu upp á hárið þitt og gerðu það að reglu að nota alltaf hitavörn áður.

Þú setur of dökkan eyeliner á neðri augnháralínu

Mistök sem ég sé stundum eru að konur setja of dökka línu á neðri augnháralínu sem gerir það að verkum að augun líta út fyrir að vera minni en þau eru og breyta augnumgjörðinni. Það er miklu betra að setja dökkan eyeliner á efri augnháralínu og milda línu undir augunum. Það gefur fallegri augnumgjörð og augun virðast stærri.

Þú notar ranga tegund af hyljara

Það eru til allskonar tegundir af hyljurum. Kremaðir, léttir, með fulla þekju, rakagefandi og svo framvegis. Ég sé oft konur með of ljósa, þykka, eða rangan tón af hyljara. Kannski mælti vinkona þín með einhverjum hyljara sem henni finnst æði. En þú verður að hafa það í huga að eitthvað sem hentar öðrum gæti ekki hentað þér. Í fyrsta lagi verður þú að hugsa um hvað þú vilt laga með hyljara. Ertu að fela bólur? Ertu að fela dökka bauga eða bláma undir augunum? Ef þú ert með þroskaða húð þarftu léttari og kremaðari hyljara. Ef þú ert að hylja bláma undir augunum þarftu hyljara með ferskjulituðum undirtón sem dæmi. Í dag eru svo margar tegundir til að gott er að fá ráð förðunarfræðinga við val á hyljara

Þú notar ekki réttar húðvörur fyrir þína húðtegund

Að þekkja sína eigin húð er mikilvægt. Veldu húðvörur sem henta þinni húðtegund. Þó þú sért með olíuríka húð til dæmis þá þarftu samt raka. Best er að fjárfesta í góðri húðrútínu sem hentar þér og prófa þig áfram. Sjáðu hvað virkar fyrir þig. Vertu líka dugleg að breyta til. Það eru svo ótrúlega margar góðar vörur í boði. Þú getur skoðað vörur eftir þinni húðtegund í valmyndinni fyrir ofan (í tölvu) og til hliðar (í síma). Ef þú ert í vafa með hvernig húðtegund þú ert með þá endilega kíktu bloggið „Hvernig í ósköpunum á ég að vita hvernig húðtegund ég er með?“

Þú ofplokkar augabrúnirnar í miðjunni

Ef þú plokkar plokkar augabrúnirnar of mikið í miðjunni þannig að það er of langt á milli þeirra, getur látið andlitið virðist ósamhverfara, nefið virðist stærra og form augabrúnanna ekki jafn fallegt. Augabrúnirnar eiga að byrja við línuna þar sem nasirnar enda.

Þú notar ekki réttan farða fyrir þína húðtegund.

Passaðu að velja þér farða sem er sérstaklega fyrir þína húðtegund. Olíufríir farðar eru til dæmis góðir fyrir olíuríka húð og kremaðir og léttir farðar fyrir þurra húð. Þetta er mikilvægt svo að farðinn komi fallega út á húð þinni og gerir það sem hann á að gera.

Þú ert með of teiknaðar augabrúnir.

Flestir eru nú búnir að læra þetta eftir að þykkar augabrúnir komust til tísku. Hinsvegar eru margir sem eru með of teiknaðar og hvassar augabrúnir. Frekar heldur en að draga heilar línur eftir augabrúnunum reyndu þá að gera léttar strokur sem virðast líta út fyrir að vera alvöru augabrúnahár.

Þú blandar augnskuggann ekki nóg.

Eitt það mikilvægasta sem maður gerir er að blanda augnskuggann til að fá fallega augnförðun. Það er aldrei hægt að blanda of mikið. Fjárfestu í góðum blöndunarbursta og blandaðu frekar meira en minna.

Þú setur fyrst hyljarann á þig og síðan farðann.

Þetta eru mjög algeng mistök. Reglan er að það á alltaf að setja farðann fyrst á sig og síðan hyljara. Farðinn nær oftast að hylja vel það sem þarf og þá er óþarfi að vera búin að eyða hyljaranum yfir svæði sem verða hvort sem er hulin með farðanum. Farði fyrst – hyljari svo.

Margrét Magnúsdóttir er hár- og förðunarfræðingur, og er nýflutt til Íslands eftir að hafa starfað í London í 6 ár. Margrét hefur starfað við allskonar skemmtileg verkefni eins t.d. og Vogue Online, Will.I.Am tónlistarmyndband, Topshop, BBC, tímarit og bíómyndir. Margrét er einnig eftirsótt í brúðkaupsfarðarnir en hún ferðast reglulega erlendis til þess að farða fyrir brúðkaup. Margrét hefur mikinn áhuga á húðumhirðu, hári, förðun og fallegum hlutum.

Hægt er að fylgjast með Margéti hér ♥:

Heimasíða : www.margretmagnus.com
Instagram: www.instagram.com/margretmagnus

Snapchat: @margretmagnus

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *