Blönduð húð er næst síðasta húðtegundin sem við tökum fyrir úr seríunni “Hvernig í ósköpunum á ég að vita hvernig húðtegund ég er með”.Ágætt er að kynna sér einkenni feitrar húðar og þurrar húðar þar sem að húðin er auðvitað blanda af báðu, en hér fyrir neðan eru nokkur góð ráð fyrir blandaða húð.
Blönduð húð
- Svitaholurnar eru stærri í kring um nefið, ennið og á hökunni.
- Kinnarnar eru vanalega eðlilegar, en geta stundum verið smá þurrar.
- T- svæðið: enni, nef og haka eru olíukennd og þú ert líklegri til að fá bólur þar, sérstaklega á sérstökum tíma tíðarhringsins, við óléttu eða tíðarhvörf.
- Það virðist einstaklega erfitt að finna rakakrem sem gefur allri húðinni matta og þægilega tilfinningu.
- Farði verður flekkóttur á húðinni.
Blönduð húð getur verið alveg einstaklega pirrandi þar sem erfitt getur verið að finna vörur sem virka á allt andlitið í einu. Blönduð húð getur oft orsakast út af hormónabreytingum og þá sérstaklega tengdum tíðarhringum eða þegar að konur fara í tíðarhvörf. Ofnotkun á vörum sem annaðhvort fjarlægja olíurnar af húðinni eða of feit rakakrem geta líka valdið því að húðin fari í ójafnvægi. Þar af leiðandi er mikilvægt að nota mildar húðvörur og passa að fara ekki út í öfgar á annan hvorn vegin. Ef að þú tekur eftir skyndilegum breytingum í húðinni sem þú telur ekki orsakast af hormónabreytingum, fylgstu með því hvort einhver af húðvörunum þínum gerir húðina einstaklega þurra eða einstaklega feita og prufaðu að taka hana út í smá tíma.
Sérstaklega erfitt getur reynst þeim sem eru með blandaða húð að finna rakakrem sem gefur húðinni nægan raka en skilur hana ekki eftir feita yfir daginn. Þar af leiðandi mælum við með því að nota olíulaust rakakrem fyrir daginn en nota næturkrem sem að inniheldur olíur á kvöldin. Einnig mælum við á móti því að nota andlitshreinsa sem freyða, sérstaklega ef þeir innihalda SLS, og mælum við frekar með því að nota andlitsmjólk, olíuhreinsa eða kremhreinsa. Einnig er hægt að hafa það í huga að mörg sjampó innihalda SLS og því er mikilvægt að halla höfðinu aftur í sturtu þegar að sjampóið er skolað úr hárinu.
Hér eru nokkrar vörur sem að við mælum með fyrir blandaða húð en eins og vanalega er einnig hægt að skoða eftir húðtegund hér í valmyndinni fyrir ofan (í tölvu) og til vinstri (í síma).
Íris Björk Reynisdóttir