Húðtegund vikunnar er viðkvæm húð en ef þú ert í vafa um hvernig húð þú ert með þá mælum við með því að lesa bloggið „Hvernig í ósköpunum á ég að vita hvernig húðtegund ég er með“. Ég minni enn og aftur á það að húð getur verið viðkvæm á sama tíma og hún er t.d. þurr, feit eða vantar raka.
Viðkvæm húð
- Húðin verður stundum heit og þig klæjar í hana eftir að hafa hreinsað hana.
- Þú færð auðveldlega útbrot eftir að hafa prufað nýja húðvöru.
- Þú ert pirraðri í húðinni á ákveðnum tíma tíðarhringsins.
- Getur verið olíukennd, blönduð, þurr og vantað raka (dehydrated). (já þú getur verið með viðkvæma húð ásamt því að tilheyra hinum hópunum líka!)
- Kláða útbrot sem eru verri við snertingu.
- Brennur auðveldlega í sól.
Afhverju er húðin viðkvæm?
Það er alveg óþolandi að vera með viðkvæma húð, sérstaklega ef þú ert mikið fyrir snyrtivörur og/eða hefur gaman að því að mála þig. En því miður eru mörg innihaldsefni sem að geta pirrað suma húð þrátt fyrri að vera fullkomlega hættulaus og góð fyrir flesta aðra. Það sem er enn meira óþolandi er að það getur verið mjög mismunandi hvaða innihaldsefni erta mismunandi húð. Algengt er að þeir sem eru með viðkvæma húð eru kannski bara með óþol fyrri 1-2 innihaldsefnum og virðast engar vörur geta notað því þessi innihalsefni eru svo algeng. Ef þú ert með viðkvæma húð og tekur eftir því að þú getur ekki notað ákveðna vöru kíktu þá vel á innihaldsefnin, og skrifaðu þau niður. Þegar þú ert komin með samansafn af vörum sem þú getur ekki notað, reyndu þá að finna út hvað það þessar vörur eiga sameiginlegt og forðastu þau innihalsefni. Ef að þú færð ofnæmisviðbrögð og útbrot mælum við með því að þú talir við heimilislækninn þinn og biðjir um að fara í ofnæmispróf, en t.d. getur mataróþol skilað sér út í húðina.
Við erum eins mismunandi og við erum mörg
Sem dæmi um það hvað mismunandi innihaldsefni geta angrað mismunandi húð langar mig að nefna tvær ungar konur sem ég þekki. Ein af þeim er með ofnæmi fyrir ananas og getur alls ekki notað vörur sem að innihalda ávaxtasýrur því þá hleypur húð hennar upp, en ávaxtasýrur eru aftur á móti algjörlega hættulausar fyrir flesta og þykja mjög gott innihaldsefni. Hitt dæmið er kona sem að komst nýlega að því að hún væri ófrísk. Hún hefur alltaf þjáðst af exemi en ljósmóðir hennar benti henni á að hún þyrfti að hætta að nota sterakremið sem heldur exeminu niðri. Í stað þess að leita til læknis fór hún í jurta apótek og fékk þar krem sem er alveg náttúrulegt og öruggt fyrir verðandi móður. Exemið lagaðist því miður ekki og varð mun verra en áður. Þegar hún loksins leitaði til læknis þá benti hann henni á að hún væri með frjókorna ofnæmi og jurtakremið sem hún var að nota innihélt meðal annars plöntur sem að valda því ofnæmi.
Út frá þessum dæmum getum við séð að þó svo varan sé náttúruleg, lífræn og úr frábærum innihaldsefnum þá getur hún samt sem áður ert ákveðnar húðtegundir. Við erum eins mismunandi og við erum mörg og það sem hentar einum, hentar öðrum alls ekki. Þetta er auðvitað ástæðan fyrir því að til eru svona margar tegundir af snyrtivörum.
Núllstilling húðar
Ef að þú ert með viðkvæma húð þá mælum við með því að þú prufir að núllstilla húðina. Þetta ferli er ekkert sérlega skemmtilegt en gæti verið nauðsynlegt að gera 1-2 yfir ævina til þess að finna út hvaða vörur / innihaldsefni eru að valda þér óþægindum. Til þess að núllstilla húðina mælum við með því að hætta að nota allar snyrtivörur í minnst 3 daga, nema volgt vatn og þvottapoka til þess að þrífa húðina. Eftir 3 daga með engar snyrtivörur, hvorki húðvörur né farða (!) byrjaðu aftur að bæta við þínum reglulegu snyrtivörum við rútínuna þína. Reyndu að bæta bara 1 vöru við á ca 1-3 daga fresti. Ef að þú sérð eða finnur fyrir breytingu á húðinni þegar þú bætir við nýrri snyrtivöru við hættu þá að nota hana strax og skrifaðu niður innihaldsefnin. Með þessari útilokunaraðferð ættir þú vonandi að komast að því hvað er að valda þér óþægindum.
Innihaldsefni sem að geta pirrað viðkvæma húð (þrátt fyrir að þau séu alveg fullkomlega góð fyrir aðra) eru t..d mineral/palm/parrafin olíur, lyktarefni (sérstaklega ef það er ofarlega í innihaldsefna listanum), paraben og alkahól.
Það er nokkuð erfitt að mæla með vörum í þessu bloggi þar sem það getur verið svo mismunandi hvað ertir, en við mælum með því að þið kynnið ykkur innihaldsefnin vel og finnið út hvað hentar ykkur. Þegar þið finnið vörur sem að henta ykkur vel haldið ykkur við þær eins lengi og þið getið.
Það eru þó nokkrar vörur sérstaklega hannaðar fyrir viðkvæma húð og hægt er að finna þau í valmyndinni hér fyrir ofan (í tölvu) og hér til hliðar (í farsíma).
Íris Björk Reynisdóttir