Taktu Pláss.. það má

Við erum þeirrar gæfu njótandi að hafa eignast frábæra nýja nágranna og vini þegar við fluttum í Síðumúla 22. Á móti okkur er nefnilega verslunin Systur og Makar sem hugmyndaboltinn Katla Hreiðarsdóttir á og rekur en þar er bæði hannaður og saumaður fallegur kvenfatnaður og ásamt því er hún einnig með frábært úrval af gjafavöru og fylgihlutum. Í kaupbæti með henni fylgdi systir hennar María Krista sem stofnaði með henni Systur og Maka en á og rekur bæði hönnunarnetverslun og lágkolvetna matarblogg í dag.

Miðvikudaginn 20. september ætlum við að sameina krafta okkar, ásamt henni Halldóru í Kvennaráði sem ætlar að ræða við okkur á léttu nótunum um hormónabreytingar. Vilma sem er með Vilma Home ætlar að vera með sniðugar vörur í versluninni hjá Kötlu og Raxel annar eigandi Ognatura ætlar að vera með Ginbar og bjóða upp á smakk. Á boðstólum verður einnig freyðivín, óáfengi freyðivínsdrykkurinn TÖST, mátulega orkumikli drykkurinn mist, súkkulaði frá Nóa Siríus og allskonar sniðug tilboð frá öllum aðilum. Við í Beautybox ætlum meðal annars að kynna tvö ný merki The Ordinary og DKNY og bjóða upp á 20% afslátt í versluninni á meðan viðburðurinn er. Við mælum innilega með því að kíkja og njóta með okkur.

Til að lesa allt um viðburðinn smellið HÉR.

Taktu Pláss.. það má

En spjöllum aðeins um það að taka pláss og af hverju við erum að halda þennan viðburð.

Því miður er það ekki óalgengt að við, og þá því miður sérstaklega konur, upplifum það að við séum betur settar í skugganum og við leyfum okkur ekki að taka verðskuldað pláss í okkar eigin lífi.

Þetta gerist oft á ákveðnum aldri eða við ákveðnar breytingar í lífinu okkar. Hjá sumum gerist það þegar við verðum mæður, því að allt í einu snýst lífið okkar um allt annað en okkur sjálfar, hjá sumum gerist það á breytingarskeiðinu þegar við upplifum breytingar sem að við héldum að væri jafnvel bara mýta. Líkaminn okkar, líðan og útlit breytist, og þá allt í einu finnst okkur eins og við þurfum að fela okkur; hætta að ganga í fötum sem áður gáfu okkur sjálfstraust, hætta að nota shimmer augnskuggann sem að við elskum (því einhver kjáni sagði að eftir fimmtugt megi ekki nota shimmer) og hætta að sækjast eftir hlutum sem okkur virkilega langar til að gera.

En það að taka pláss þýðir ekkert endilega að þú þurfir að tala manna hæst í öllum matarboðum, mála þig eins og Kim Kardashian eða vera í skærustu litum í heimi alla daga. Það þýðir einfaldlega að þú megir taka pláss og gera hluti sem þig langar virkilega að gera og haldir ekki aftur af því bara út af því að þér finnst þú ekki vera nógu góð, flott, klár, ung og sæt til þess að gera þá. Því trúðu mér, það eru allar líkur á því að það sé algjört kjaftæði.

Hugleiðingar

Hefur þú einhvern tímann horft á mömmu þína eða ömmu þína og hugsað, ji hvað hún er hrukkótt og ljót? Hefur þú horft á vinkonu þína og hugsað vá hún er asnaleg í þessum þröngu fötum, hvað heldur hún eiginlega að hún sé? Hefur þú horft á mágkonu þína sem ákvað að skella sér í nám á fimmtugsaldri og hugsað, hvað er hún eiginlega að pæla að gera svona á þessum aldri?

Við vonum innilega að svarið við þessu sé nei (og ef svarið er já þá mælum við með að líta í eigin barm því svona hugsanir spretta oftast upp af afbrýðisemi). En aðal spurningin er, leyfir þú þér að tala svona við sjálfa þig? Og enn stærri spurning er, leyfir þú þessum orðum að hafa áhrif á lífið þitt með því að trúa þeim?

Við þurfum að vera miklu meðvitaðri um hugsanirnar okkar og orðin sem við notum þegar við tölum við okkur sjálf. Mín aðal regla og besta ráð er: ef þú myndir ekki segja þetta við bestu vinkonu þína þá ekki voga þér að leyfa þér að segja þessi orð um þig sjálfa. Ég veit að það er hægara sagt en gert að endurforrita hugsanir sínar ef maður er búin að eyða mörgum árum í því að berja sig niður, en það er aldrei of seint að byrja að reyna að snúa þessu við. Reyndu að vera meðvituð um hugsanirnar sem að spretta upp og stöðva þær í fæðingu.

Leyfðu þér að taka pláss, leyfðu þér að láta ljósið þitt skína, leyfðu þér að ganga í fötunum sem að þig dreymir um og farða þig eins og þér líður best. Taktu af skarið og opnaðu sniðuga Instagramið sem þig dreymir um að gera, taktu af skarið og farðu í námið sem þig hefur alltaf langað í, taktu af skarið og vertu í fötunum sem gefa þér sjálfstraust, taktu af skarið og notaðu skæra augnblýantinn sem þú elskar, taktu af skarið sýndu okkur hvað í þér býr, taktu af skarið og TAKTU fkn (afsaka orðbragðið) PLÁSS! 

Leyfðu þér að gera það, því þú átt alveg jafn mikið skilið og allir aðrir í heiminum að láta ljósið þitt skína. Við erum svo miklu betur sett sem samfélag ef að við fáum öll að njóta okkar og vera við sjálf. Og ef þig vantar smá búst í sjálfstraustið, kíktu til okkar og við böðum þig í hrósi og hjálpum þér að draga fram þitt besta sjálf.

Og síðast en ekki síst, ekki gleyma að fylgja vinkonum okkar sem verða með á viðburðinum:

Systur og Makar
María Krista
Kvennaráð
Vilma Home
Og natura

Íris Björk Reynisdóttir

1 thoughts on “Taktu Pláss.. það má

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *