Við höldum áfram að fara yfir vörurnar í #bakviðtjöldin Beautyboxinu og nú ætlum við að segja ykkur betur frá Becca First Light farðagrunninum sem var í boxinu og er í miklu uppáhaldi hjá okkur.
Þegar að við völdum vörunar í #bakviðtjöldið Beautyboxið okkar fannst okkur mjög mikilvægt að hafa farðagrunn í boxinu þar sem að farðagrunnar eru leynivopn förðunarfræðinganna og okkur þótti það frábært ástæða til að fræða ykkur betur um þá. Ástæðan fyrir því að við við völdum Becca First Light farðagrunninn í #bakviðtjöldin Beautyboxið okkar því okkur þótti hann vera sá farðagrunnur sem að hentar langflestum íslenskum konum.
En það sem Becca First Light farðagrunnurinn gerir er að hann jafnar misfellur í húðinni og gefur húðinni geislandi ljóma og frísklegt útlit, án þess að húðin glansi eða glitri. Þar sem formúlan er létt og köld þá er hún einstaklega góð til þess að vekja upp húðina á morgnanna. Hún inniheldur steinefnaríkt vatn, perublóm, hylarúnic sýru, engifer og sítrus sem að gefur húðinni orkuskot og raka. Farðagrunnurinn er fjólublár þegar hann kemur úr umbúðunum en verður glær á húðinni. Hann hentar allri húð og er einstaklega góður fyrir þreytta húð sem vantar smá extra búst á morgnanna.
Hér sjáið þið hvernig Becca First Light farðagrunnurinn frískar upp á húðina
En þar sem við fáum svo margar spurningar í sambandi við farðagrunna þá ætlum við líka að fara betur yfir mismunandi tegundir farðagrunna og hvernig þið getið nýtt ykkur farðagrunnana til þess að fá hina fullkomnu lokaútkomuna ykkar.
Við erum sammála henni Margréti okkar sem að skrifaði bloggið : Primer: Það mikilvægasta í snyrtibuddunni (mælum með að lesa!). En það blogg vakti mikla athygli þar sem hún sýndi hvað farðagrunnur gerir – hann undirbýr húðina fyrir allt sem á eftir kemur í förðunarrútínunni – já eða getur verið það eina sem þið notum.
En þar sem við fáum svo margar spurningar í sambandi við farðagrunna þá ætlum við líka að fara betur yfir mismunandi tegundir farðagrunna og hvernig þið getið nýtt ykkur þá til að draga fram það besta í húðinni ykkar.
Eitt sem þeir eiga allir sameiginlegir eru að vera undirstaðan í förðunarrútínunni og vera það fyrsta sem við berum á okkur, á eftir rakakremi og auðvitað sólarvörn 😉.
Mismunandi tegundir af farðagrunnum
Sléttandi:
Sléttandi farðagrunnar eru mest þekktu farðagrunnarnir en þeir hafa þann eiginleika að slétta úr húðinni og fylla upp í húðholur og láta farðann endast extra lengi (dæmi – bloggið hennar Margrétar). Vert er að lesa vel um farðagrunnana hér fyrir neðan því margir þeirra hafa líka önnur sérkenni. Farðagrunnar sem slétta eru yfirhöfuð með sílikon undirgrunni sem fyllir upp í húðholurnar og gerir húðina einstaklega slétta og auðvelda að vinna með – en þó eru undirtekningar á því. Sléttandi farðagrunnar hafa oft þann eiginleika að draga úr olíumyndun þó svo að það sé ekki alltaf aðal hlutverk þeirra. Þessi tegund af farðagrunnum hentar öllum sem vilja slétta yfirborð húðarinnar og hentar einstaklega vel þeim sem eru með smá ójafna húð og stórar húðholur.
Lita leiðréttandi og jafnandi:
Litaleiðréttandi og jafnandi farðagrunnar eru oftast fjólubláir, grænir, ferskjutónaðir eða með brúnku. Grænleitir farðagrunnar jafna út rauða tóna í húðinni, fjólubláir gefa húðinni meira líf og birta hana upp og farðagrunnar með smá brúnku gefa húðinni frískleika og lit. Þessi tegund af faraðgrunnum hentar best þeim sem vilja jafna litinn í húðinni, birta húðina og eru með roða eða þreytta húð sem þarf smá extra búst.
Rakagefandi:
Rakagefandi farðar geta annaðhvort innihaldið olíur, eða aðrar tegundir af fitu svo sem shea smjöri og/eða glyserini eða hylarunic sýru sem halda raka í húðinni. Þessi tegund af farðagrunnum gefa húðinni extra raka og olíur, draga úr fínum línum, mýkja og jafna yfirborð húðarinnar. Þeir eru oft smá þykkir og einstaklega góðir fyrir þá sem eru með þurra húð og finna fyrir því að húðin þorni yfir daginn. Farðagrunnarnir halda því raka í húðinni og láta farðann endast lengur á þurri húð.
Mattandi:
Mattandi farðagrunnar eiga margt sameiginlegt með farðagrunnum sem að slétta yfirborð húðarinnar og er oft hægt að setja þá undir sama hóp. En það sem mattandi farðagrunnar gera líka er að draga úr olíumyndun húðarinnar svo að förðunin endist lengur og betur yfir daginn á olíuríkri húð. Mattandi farðagrunnar eru yfirhöfuð olíulausir og henta best þeim sem eru með feita húð, fílapensla og/eða bólur. Langflestir geta þó nýtt sér mattandi farðagrunna til þess að fullkomna förðunina með því að bera þá aðeins á T-svæðið til þess að matta það. Ef þið eruð með mjög þurra húð, passið að bera aðeins lítið magn af þeim og aðeins á T-svæðið.
Ljómandi:
Ljómandi farðagrunnar geta átt mikið sameiginlegt með litaleiðréttandi og rakagefandi farðagrunnum en það sem þeir hafa extra er að gefa húðinni mjög mikinn ljóma og extra glóð. Þar sem margir þeirra eru mjög ljómandi og hafa jafnvel smá glimmer í þeim þá er einnig hægt að nota sérstaklega mikið af þeim á þau svæði sem þið viljið draga fram. Eða það er að segja, það er hægt að nota þá sem ljómakrem (higlighter). Ljómandi farðagrunnar henta öllum, en ef þú ert með mjög feita húð þá er ágætt að hafa það í huga að nota þá einmitt bara á kinnbeinin, yfir augabrúnirnar og varirnar og sleppa T-svæðinu ef þú vilt ekki að það glansi of mikið.
Undirrituð er mikill aðdáandi farðagrunna og á það frekar til að nota 2 mismunandi farðagrunna og smá hyljara frekar en að nota farða. Ég er ekki mikið fyrir það að vera með mikla þekju á húðinni og vill láta frekknur og mína náttúrulegu húð njóta sín sem best og nota ég þá farðagrunna til þess að jafna lit og áferð.
Sem dæmi nota ég ljómandi farðagrunn á allt andlitið fyrst til að fríska upp á húðina – til dæmis Becca First Light eða Becca Backlight Priming Filter. Næst set ég svo sléttandi farðagrunn aðeins á T-svæðið sem dæmi Smashbox Photo Finish Foundation Primer til þess að fylla upp í húðholur og matta þau svæði sem ég vill ekki að glansi of mikið. Eftir á set ég smá hyljara undir augun og ef ég er með einstaka bólur eða roða – og kinnalit og/eða sólarpúður. Úr því verður slétt, ljómandi húð án þess að vera með mikla þekju. Fullkomið fyrir sumarið 😊
Íris Björk Reynisdóttir