Slæmur hárdagur – Hvað er til ráða?

Við eigum öll slæman hárdag einhvern tímann og lausnin fer eftir því hvert vandamálið er. Hér hef ég tekið saman nokkrar hugmyndir að auðveldum lausnum þegar kemur að slæmum hárdögum…

Feitt hár

Ráð númer eitt, tvö og þrjú er þurrsjampó! Allar konur ættu að eiga þurrsjampó inn í skáp – þá sérstaklega fyrir neyðartilfelli. Þurrsjampói er spreyjað í rót hársins og svo nuddað með fingrum við rótina. Þurrsjampóið lætur fituga hárrótina hverfa og gefur í staðinn lyftu í rót og lætur hárið líta út fyrir að vera nýþvegið!

Ef þú átt ekki þurrsjampó eða ef allt hárið er fitugt mæli ég einfaldlega með að setja hárið upp í hnút. Það getur reyndar bara verið mjög fallegt að setja hárið annað hvort í háan eða lágan hnút við hnakkann – það gefur fágað útlit. Fallegur og einfaldur hnútur hentar bæði fyrri vinnuna eða í veisluna og með þessari greiðslu kemstu upp með fitugt hár þar sem lúkkið á að vera slétt og glansandi!

Þurrt og úfið hár

Kannski fórstu í sturtu kvöldið áður og gerðir ekkert við hárið áður en þú fórst að sofa? Svo vaknarðu og lítur út eins og Argintæta. Eða þú hafðir ekki tíma til þess að gera neitt um morguninn og ert búin að vera úti í veðri og vindum allan daginn og þarft fljótlega lausn fyrir kvöldið. Hvað er til ráða þá? Fyrir þurrt og úfið hár er best að nota hárvörur í hárið sem að gefa því strax raka. Þá er best að nota hárolíur eða krem sem að laga úfið hár og gefa því glansa.
Ef þú hefur smá meiri tíma er best að nota hita eins og sléttujárn eða krullujárn til þess að laga hárið. Að nota hita á hárið er eitt besta ráðið til að laga úfið hár strax – það er hins vegar ekki góð lausn til lengdar fyrir þurrt hár. En fyrir fljótlega lausn: Notaðu hitajárn í hárið og góða hárolíu eftir á. Voilá!

Líflaust og flatt hár

Ef hárið er líflaust og flatt þá er góð hugmynd að setja í það þurrsjampó eða froðu til að gefa því lyftu í rót og lífga upp á það. Einnig má túbera hárið við rótina með greiðu til að gefa enn meiri lyftu. Þá er einnig gott að blása hárið með hárblásara og stórum rúllubursta fyrir líflegt útlit. Passaðu að þyngja ekki hárið með hárvörum öðrum en þeim sem gefa því líf, eins og þurrsjampó eða froðu.

Önnur fljótleg lausn er einfaldlega að breyta skiptingu hársins! Ef þú ert vön að hafa skiptinguna í miðjunni eða á annarri hvorri hliðinni – breyttu þá til. Það gefur meiri lyftu í hárið og gefur því nýtt líf.

Ég þarf nauðsynlega að lita á mér hárið…

Ef það er vandamálið þá er ég með snilldarlausn. Það er Color WOW. En það er púður sem er ótrúlega fljótlegt og auðvelt í notkun! Þú einfaldlega setur púðrið í rótina eða í gráu hárin og þá hverfur rótin! Formúlan er vatnsheld og hefur unnið til fjölda verðlauna. Hvort sem þú ert með of dökka rót, ljósa eða rauða þá er til gott litaúrval til þess einfaldlega að fylla upp í rótina og hún hverfur. Vandamál leyst þar til þú kemst í litun!

Hárið er ómögulegt og ég hef engan tíma!

Ef það er bókstaflega ekkert að fara að bjarga þér og þú hefur lítinn tíma þá er best að leita þriggja lausna:

  1. Fléttur, fléttur, fléttur. Það er alltaf góð skyndilausn að setja hárið í fléttu, hvort sem það er ein stór flétta, fiskiflétta til hliðar, eða tvær fastar fléttur –  hárið mun alltaf líta betur út!
  2. Stórt hárband. Skelltu töff hárbandi í hárið: það dregur athyglina frá hárinu og hylur það að einhverju leiti.
  3. Hattar og húfur. Þetta er mögulega mesta skyndilausnin en það er að skella flottum hatti eða húfu á hausinn og rokka það lúkk. Við búum líka á Íslandi!

Margrét Magnúsdóttir er hár- og förðunarfræðingur, sem flutti til Íslands fyrir ári síðan eftir að hafa starfað í London í 6 ár. Margrét hefur starfað við allskonar skemmtileg verkefni eins t.d. og Vogue Online, Will.I.Am tónlistarmyndband, Topshop, BBC, tímarit og bíómyndir. Margrét er einnig eftirsótt í brúðkaupsfarðarnir en hún ferðast reglulega erlendis til þess að farða fyrir brúðkaup. Margrét hefur mikinn áhuga á húðumhirðu, hári, förðun og fallegum hlutum.

Hægt er að fylgjast með Margéti hér ♥:

Heimasíða : www.margretmagnus.com
Instagram: www.instagram.com/margretmagnus
Snapchat: @margretmagnus

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.