Mín bestu ráð við að pakka snyrtivörum fyrir ferðalag!

Það getur verið vesen að ferðast með snyrtivörur. Sumar pakkningar eru óþarflega stórar eða erfiðar í laginu, sumar snyrtivörur geta lekið og aðrar förðunarvörur eiga í hættu á að brotna á leiðinni og svo lengi mætti telja.

Þannig hvernig er þá best að pakka snyrtivörum fyrir ferðalög?

Hér að neðan gef ég mín bestu ráð fyrir að pakka snyrtivörum þegar maður er að ferðast og hvað er hentugt að taka með. Þessi ráð gilda fyrir öll ferðalög hvort sem það er í sólarlandaferðina, viðskiptaferðina eða útleguna.

Í fyrsta lagi eru ferðapakkningar algjör nauðsyn. Hvort sem að þú kaupir vöruna í mini stærð eða setur vöruna í ílát sem hægt er að ferðast með. Þetta er sérlega gott fyrir sjampó og næringu, krem, hárvörur og svo framvegis. Sum snyrtivörufyrirtæki hafa gefið út vörur í sérstökum ferðapakkningum sem eru þá í hentugri ferðastærð, því ekki nennir maður að taka allan brúsann með! Ef varan er ekki framleidd í ferðapakkningum þá er einfaldlega hægt að fara og kaupa svoleiðis ílát og fylla í þau. Þetta er möst!

Meðmæli

Í öðru lagi: ekki flækja málin og haltu þig við einfaldar vörur! Hér er ég til dæmis að tala um að í staðinn fyrir að taka húðhreinsi í vökva- eða kremformi að taka frekar hreinsihanska eða trefjaklúta. Þessa klúta þarf aðeins að nota með vatni til þess að taka allan farða af og hreinsa húðina. Það fer ótrúlega lítið fyrir þeim og engin hætta á að neitt leki í töskuna = fullkomnir til að ferðast með.

Meðmæli

Það getur munað miklu að eiga góða snyrtitösku sem er vel skipulögð. Hentugast er að taskan innihaldi mismunandi stór hólf og hugsanlega sér hólf fyrir förðunarbursta. Það er mun einfaldara að hafa hlutina á réttum stað í þannig tösku í stað þess að hafa alla hlutina á sama stað í einni stórri tösku. Einnig sparar það mikið pláss í ferðatöskunni að eiga vel skipulagða snyrtitösku.

Þegar maður ferðast er tilvalið að nota förðunarbursta sem eru sérstaklega hannaðir til þess að ferðast með, þá eru þeir oft með styttra skaft eða í minni stærð. Einnig gefa sum fyrirtæki út allskyns aukahluti sem eru sniðugir fyrir ferðalög, meðal annars Real Techniques sem að gefa út skemmtilegan sílíkon vasa sem hægt er að festa við spegil eða gler til að geyma burstana í á meðan maður ferðast. Þá eru burstarnir alltaf á sínum stað og haldast hreinni.

Meðmæli

Eitt besta ráðið er að taka förðunarpallettur með – og helst þær sem að innihalda fjölbreyttar vörur sem hægt er að nota á húð, augu og varir! Það munar rosalega um að hafa margt af því sem þarf til þess að farða sig á einum stað, í einni pallettu, meðan maður er á ferðalagi. Margar pallettur innihalda til dæmis sólarpúður, kinnalit, highlighter og augnskugga. Ef maður finnur ekki hina fullkomnu pallettu fyrir sig þá er einfaldlega hægt að búa hana til sjálfur! Það er gert með því að taka vörurnar úr upprunalegu umbúðunum og setja í pallettur. Á ensku kallast þetta depotting og ég mæli með að skoða myndbönd á Youtube sem sýna hvernig skal gera það, ef þið hafið áhuga á því.
Eini ókosturinn við pallettur er að þær geta brotnað ef þær eru settar í stóra ferðatösku. Það sem ég geri er einfaldlega að setja pallettuna í handtöskuna mína og þá er lítil hætta á að hún brotni.

Meðmæli

Annað gott ráð er að taka prufur með. Prufur koma í mun minni pakkningum og eru því einstaklega hentugar til þess að ferðast með. Oft fylgja prufur með snyrtivörum sem maður kaupir og því gæti maður átt einhverjar heima, en einnig er oft hægt að kaupa prufur. Í Beautyboxinu eru til dæmis oft vörur í prufustærð sem væri gott að geyma fyrir næsta ferðalag! Mér finnst t.d. best að taka prufur sem innihalda augnkrem með í ferðalög, því maður notar lítið magn af þannig vöru og það fer þá lítið fyrir henni. Einnig tek ég oft prufubréf af farða með sem ég hef einhvern tímann fengið eða beðið um, sérstaklega ef ég er að fara í helgarferð.

Meðmæli

 Gerðu lista fyrirfram yfir hvað þú þarft að taka með þér. Það leiðir oftast að því að maður tekur minna af dóti með sér í stað þess að henda einhverju ofan í tösku sem að maður heldur að maður ætli að nota. Ef maður er með lista til að krossa af um leið og maður setur í töskuna þá veit maður hvað var búið að setja ofan í – og þá gleymist ekkert heldur! Það er ekkert verra en að gleyma maskaranum eða uppáhalds varalitnum til dæmis!

Ef þú mátt aðeins ferðast með takmarkaðan farangur þá er gott að taka svokallaðar “multi” vörur með til þess að spara pláss. Það er til dæmis krem kinnalitir sem mætti einnig nota á augu og varir, highlighter sem er líka hægt að nota sem augnskugga, skyggðu augum með sólarpúðrinu og notaðu augabrúnalitinn sem eyeliner.

Meðmæli

Gott ráð er að setja bómullarskífu inn í allar púðurpakkningar og pallettur, þá er minni hætta á að varan brotni. Ef maður er til dæmis með púður þá er gott að setja eina bómullarskífu á milli púðursins og loksins, eða ef maður er með pallettu að raða nokkrum bómullarskífum ofan á púðurvörurnar áður en maður lokar. Þá kemur minna högg á vörurnar á ferðalaginu. Það er mjög svekkjandi að opna förðunarvöru og hún er brotin eftir ferðalagið. Einnig getur verið gott að setja viðkvæmar eða brothættar vörur inn í sokka og síðan ofan í skó og þá er mun minni hætta á að þær brotni.

Þegar ég ferðast þá set ég allt sem að getur hugsanlega lekið í poka (e. zip bag), og þá spillist það ekki útum allt ef eitthvað skyldi gerast. Einnig set ég oftast lítið límband yfir tappann og þá er ekki hætta á að varan opnist óvart. Einnig finnst mér gott að hafa mismunandi poka fyrir mismunandi vörur, til dæmis einn poka fyrir hárvörur, annan fyrir sólarvarnir og svo framvegis og þá er fyrirkomulagið skipulagðara.

Góða ferð!

Margrét Magnúsdóttir er hár- og förðunarfræðingur, sem flutti til Íslands fyrir ári síðan eftir að hafa starfað í London í 6 ár. Margrét hefur starfað við allskonar skemmtileg verkefni eins t.d. og Vogue Online, Will.I.Am tónlistarmyndband, Topshop, BBC, tímarit og bíómyndir. Margrét er einnig eftirsótt í brúðkaupsfarðarnir en hún ferðast reglulega erlendis til þess að farða fyrir brúðkaup. Margrét hefur mikinn áhuga á húðumhirðu, hári, förðun og fallegum hlutum.

Hægt er að fylgjast með Margéti hér ♥:

Heimasíða : www.margretmagnus.com
Instagram: www.instagram.com/margretmagnus
Snapchat: @margretmagnus

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.