Hvort þrífur þú húðina fyrir eða eftir hreyfingu?

Við lögðum fram spurninguna – „Hvort þrífið þið húðina ykkar fyrir eða eftir hreyfingu?“ á Instagram story í vikunni og niðurstöðurnar voru nokkuð merkilegar. 75% af þeim sem að svöruðu sögðust þrífa húðina eftir ræktina og 25% fyrir, en nokkrir sendu okkur skilaboð og sögðust gera bæði.

Okkur fannst niðurstöðurnar mjög áhugaverðar og það hvatti okkur til þess að finna hvort það sé eitthvað rétt og rangt hérna. Er betra að þrífa húðina fyrir eða eftir hreyfingu, eða nauðsynlegt að gera bæði.

Líkurnar á því að hitta fyrrverandi og nýju kærustuna hans í ræktinni eru yfirgnæfandi miklar hér á landi svo að við dæmum engan sem að vill laga sig aðeins til fyrir æfingu 😉. En mörgum er líka alveg sama. Stundum er maður líka bara að koma úr vinnunni og ekkert að pæla í þessu. Eins og við erum alltaf að segja, við erum öll mismunandi svo bara YOU DO YOU.

Ef að þú átt í engum vandræðum með húðina þína og hún er alltaf góð og fín, þá þarftu svo sem ekkert að pæla neitt í þessu. EN ef þú átt aftur á móti í erfiðleikum með húðina þína þá er þess virði að veita þessu athygli. Sérstaklega ef að þú æfir með farða. Þú gætir t.d. verið að gera allt rétt á morgnanna og kvöldin, með hina fullkomnu rútínu. En svo stundarðu hreyfingu í eftirmiðdaginn og sérð ekki nógu vel um húðina þá, og öll vinnan sem þú gerir á morgnana og kvöldin er þá gerð fyrir ekki neitt.

Hvað gerist í húðinni þegar við hreyfum okkur?

Hreyfing kemur hringrásinni í líkamanum á stað, ekki bara í vöðvunum heldur líka í húðinni. Háræðarnar í húðinni þenjast út og svitakirtlarnir framleiða svita til þess að reyna að kæla niður líkamann. Húðholurnar stækka og leyfa húðinni að hreinsa sig með því að ýta óhreinindum upp á yfirborðið. Þar af leiðandi er mikilvægast að þrífa húðina í andlitinu eftir æfingu, því að ef að óhreinindin þorna í andlitinu þá geta þau leitað aftur inn í húðina. Þetta gildir jafnt fyrir stelpur og stráka, og sérstaklega sem að eru í vandræðum með húðina sína!

En við ætlum ekki að stoppa hér því það eru margir sem að fara beint á æfingu eftir vinnu eða skóla, eða jafnvel í hádeginu og þá er vert að hugsa aðeins lengra. Það gefur auga leið að ef að þú ert með farða á húðinni þá geta svitaholurnar stíflast auðveldlega og allskonar vandamál komið upp því að húðin nær einfaldlega ekki að anda. Það getur orsakað fílapensla, bólur eða jafnvel hita bólur (miliaria) sem þig klæjar í. Einnig getur húðin orðið ójöfn og þreytuleg því hún nær ekki að losa sig við óhreinindin á réttan hátt.

Að því sögðu þá er hreyfing mjög holl fyrir húðina svo alls ekki ofhugsa þetta og hafa áhyggjur af því að hreyfing og sviti sé slæmur fyrir húðina þína, bara alls ekki. Hreyfing eykur ekki húðfitumyndun og ef að húðin er þrifin eftir á, og þú passar þig að snerta ekki andlitið mikið og bera bakteríur í opna húðina þá er hreyfing eitt það besta sem þú getur gert fyrir húðina þína. Hreyfing örvar súrefnis- og blóðflæðið í húðinni sem eykur kollagen framleiðslu og að heldur henni ungri. Við hreyfingu losnar líka endorphine sem að minnkar streitu í líkamanum og hefur jákvæð áhrif á cortisol og aðra hormóna sem að geta valdið bólum.

Til að útskýra aðeins betur þá er mikilvægt að vita að það eru 2 tegundir af holum (pores) í húðinin. Svitholur og húðholur. Í daglegu tali ruglum við þessu svolítið saman og tölum um svitaholur þegar að við ættum frekar að tala um húðholur. En svitaholur eru yfir höfuð mjög litlar og sjást ekki en húðholurnar eru þar sem vandamálin skapast. Sjáið þið hér á myndinni að svitakirtillinn (sweat gland) og hárkirtillinn (hair follicle) þar sem olíukirtillinn (oil gland) er og húðfitan myndast, ekki það sama.

Hér eru nokkur ráð sem er vert að hafa í huga 😊

  • Ef þú stundar útivist, labbar á fjöll, útihlaup eða skíðar. Mundu þá að nota alltaf sólarvörn, því að sólin er megin ástaðan fyrir ótímabærri öldrun húðarinnar, og í raun og veru hennar versti óvinur. Ef þú stundar mjög aktíva líkamsrækt og finnur að sólarvörnin rennur í augun, þá er einnig er hægt að nota derhúfu og sólgleraugu með UV vörn og sólarvörn á neðri hluta andlits.
  • Mikilvægast er að þrífa húðina alltaf vel eftir æfingu með mildum hreinsi og helst áður en að húðin nær að kólna of mikið og húðholurnar ganga aftur saman.
  • Taktu farða helst af fyrir ræktina. Ef að húðin er þrifin vel fyrir æfingu, þá er nóg að þrífa hana bara með vatni eftir æfinguna.
  • Til þess að þrífa húðina fyrir æfingu mælum við með því að vera með Micellar vatn í töskunni og nokkra bómullar púða og einfaldlega strjúka farðann af fljótlega fyrir æfinguna.
  • Ef að þú getur ekki ímyndað þér að vera án farða, þá mælum við með því að nota olíu lausan farða, eða olíu laust BB, CC krem eða olíulaust litað dagkrem. Mineral púður er samt sem áður örugglega besti kosturinn. Líkurnar á því að þær vörur stífli húðholurnar við æfingu eru minni en vörur sem að innihalda olíur. Passaðu bara að þrífa húðina vel eftir æfingu!
  • Það er ekki vitlaust að bera smá serum á húðina eftir á ef hún er mjög þurr, til þess að gefa henni snögga næringu sem að fer fljótt inn í húðina. En svo sem ekki nauðsynlegt.
  • Þó svo að þú notir ekki farða þá er ekkert sem að stoppar þig í að fylla inn í augabrúnirnar, nota maskara (vatnsheldan ef svitinn er mikill) og jafnvel smá vatnsheldan augnblýant. Einnig er hægt að setja smá lit á varirnar og kinnalit, þó svo að í flestum tilfellum sé það óþarfi því að húðin sér um það sjálf að roðna við hreyfingu.
  • Hafðu í huga að ef þú ert t.d. í ræktinni þá eru motturnar, lóðin og tækin gróðrarstía fyrir bakteríur. Svo forðastu það að snerta á þér andlitið ef þú ert gjörn/gjarn á að fá bólur og taktu með þitt eigið handklæði (sem þú veist að er þvegið með efnum sem þú þolir) til þess að þerra svitann í framan.
  • Ef þú ert með bólur, gæti verið sniðugt að setja spot remover á þær fyrir hreyfinguna og eftir hana líka.
  • Ef þú ert atvinnu íþróttamaður, dansari, leikari eða í þannig aðstöðu að þú hefur ekkert val og þarft að vera mikið förðuð / farðaður við hreyfingu vertu þá dugleg/ur að nota hreinsimaska og vörur sem innihalda ávaxtasýrur til þess að djúphreinsa húðina vel á milli.
  • Ef þú ert með rósroða eða exem sem þú finnur að espist upp við æfingu forðastu þá að æfa í heitu umhverfi, svo sem hot fit eða yoga. Best er að nýta dásamlega kalda veðrið og æfa úti og í umhverfi þar sem húðin hitnar ekki mikið. Einnig er mælt með því að synda, en þá er mikilvægt að bera gott rakakrem eftir á því að klór getur þurrkað húðina upp.
  • Annað ráð fyrir exem sem espist upp við æfingu er að bera létt rakakrem á þau svæði um klukkutíma fyrir æfingu svo það nái að smjúga inn. Ein af ástæðunum fyrir því að húðin espist upp er út af söltunum sem að losna við svita. Rakakremið býr til filmu yfir húðina sem að verndar þau svæði fyrir því að þurrkast enn frekar upp.

Vonandi hjálpar þessi grein einhverjum, og ef svo er þá megið þið endilega smella á like eða deila með okkur sögum hér fyrir neðan 😊

Íris Björk Reynisdóttir

beautybox@beautybox.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *