Förðun og hár: 15 hlutir sem þú verður að vita áður en þú giftir þig!

Brúðkaupsdagurinn er einn stærsti dagur lífsins og sá dagur sem flestar konur vilja líta sem best út. Líklegast er þetta sá dagur sem er mikilvægastur í lífi flestra kvenna þegar kemur að förðun og hári. Jafnvel fyrir þær konur sem mála sig aldrei eða mjög lítið, því að flestir velja brúðkaupsdaginn til þess að draga fram það besta og skella á sig smá farða.

Ég hef starfað við óteljandi brúðkaup og ferðast til Frakklands, Englands, Ítalíu og um allt Ísland til að farða brúðir og gera brúðargreiðslur. Þetta er einstakur dagur sem er ótrúlega gaman að vera partur af.

Hér að neðan eru nauðsynlegir hlutir sem þarf að huga að þegar kemur að brúðarförðun og brúðarhári að mínu mati. Hvernig á ég að vera máluð og hvað þarf að hugsa um? Hvernig á ég að finna förðunarfræðing? Á ég að mála mig sjálf eða láta fagaðila um þetta?

Á öllum myndum hér að neðan er brúðarhár og förðun eftir mig

  1. Húðin skiptir öllu máli

Engin förðun lítur vel út ef húðin er ekki í góðu ástandi. Húðin og grunnurinn skipir öllu máli svo að förðunin geti litið vel út. Ég mæli alltaf með að verðandi brúðir fari í húðhreinsun allavega mánuði fyrir brúðkaupið. Oft eftir húðhreinsun koma bólur eða roði í húðinni og þarf húðin smá tíma til að jafna sig. Ég sendi mínum brúðum alltaf email um undirbúning eftir prufuförðunina, þar sem ég mæli með vörum og aðferðum til að taka húðumhirðuna skrefi lengra. Helst mæli ég með að drekka mikið vatn, borða hollt og nota viðeigandi húðhreinsun og maska eftir húðtegund. Mistök sem ég sé konur með olíuríka húð oft gera er að skrúbba húðina með kornamaska, en passa ekki að viðhalda rakanum í húðinni. Þá er hætta á að þær fái þurrk í húðina á kinnum og nefi og verður áferð farðans þá ekki falleg. Mikilvægt er að passa að nota gott rakakrem og halda húðinni í jafnvægi. En regla númer eitt er að sofa aldrei með farða.

  1. Mikilvægast er að ráða förðunarfræðing sem kann að gera langvarandi förðun og hárgreiðslu

Það sem skiptir einna helst máli þegar kemur að velja förðunarfræðing er að hann kunni þá tækni sem þarf til að gera langvarandi förðun. Einnig skiptir máli að förðunarvörurnar sem notaðar eru séu gæðavörur og að þær endist lengi á húðinni. Flestar brúðir fara í förðun um morguninn og viljum við að förðunin haldist fullkomlega á allan daginn og kvöldið. Þetta er ekki svo auðvelt að framkvæma, en fagmenn vita oftast um bestu vörurnar og aðferðirnar til þess. „Priming og setting“ skiptir mestu máli. Fyrst þarf að undirbúa húðina með viðeigandi vörum, nota svo góðan primer í húðina og á augnsvæðið, og ljúka með „setting spreyi“. Hvernig förðunin er borin á húðina og augun skiptir öllu máli.

  1. Það er fín lína á milli þess að líta vel út í persónu og á ljósmyndum

Það er mjög fín lína á milli hversu mikið þú þarft að vera förðuð til að líta vel út á myndum og hversu mikið þú þarft að vera förðun til að líta einnig vel út í persónu. Förðun fyrir ljósmyndir kallar á sérhæfðari förðun og lang oftast er notaður mun meiri farði. Miðað er við að myndavélar „taki“ um 50% af farðanum af, þannig þarf fólk um helmingi meiri farða til að líta ekki út fyrir að vera „washed out“ og líflaust. Á brúðkaupsdaginn vilt þú auðvitað bæði líta vel út í persónu og á brúðarmyndunum og því er best að treysta á förðunarfræðing með reynslu sem að kann að fara á milliveginn. Brúðarmyndirnar verða mögulega þær myndir sem verða mest skoðaðar af fjölskyldumeðlimum í framtíðinni og því viljum við líta vel út á þeim.

  1. Hið umtalaða SPF flashback (draugaandlit) á myndum

SPF flashback á myndum er eitthvað sem hefur verið mikið í umræðunni en ekki allir vita hvað er. Margar förðunarvörur innihalda SPF sem er enska orðið yfir sólarvörn, en styrkleiki sólarvarnarinnar fer eftir SPF tölunni. Ef förðunarvörunar (þá helst kremið, hyljarinn, meikið og púðrið) innihalda háa sólarvörn þá er líklegt að þú fáir flashback eða svokallað draugaandlit á myndum. Þá lítur þú út fyrir að vera mun hvítari í framan en þú ert í raun. Þessar förðunarvörur (sem oft hafa lýsinguna „ljómandi eða illuminating“) geta innihaldið agnir sem endurspegla ljós, sem auka hættuna á því að flashback komi fram á myndum. Aðal innihaldsefnin sem valda þessum áhrifum eru sinkoxíð (zinc oxide) og títandíoxíð eða títanhvíta (titanium dioxide). Þetta tvennt er hvítt og í fínlegu duftformi og virkar sem sólarvörn með því að endurspegla sólargeislum. Annað innihaldsefni sem getur valdið þessu ef það er notað í miklu magni er kísl eða kísiltvíoxíð (silica). Til að forðast að flashback eigi sér stað mæli ég helst með að nota ekki vörur sem innihalda SPF eða nota vörur sem eru ekki með hærra en SPF 15. Mikilvægast er að prófa vöruna áður til þess að sjá hvernig hún kemur út á myndum með flassi.

  1. Ekki láta mála þig of mikið

Ég sé alltof oft þau mistök að förðunarfræðingarnir mála brúðina of mikið. Erfiðast er að ná fram „no makeup“ lúkkinu þar sem að húðin virðist ljóma innan frá. Það er því mikilvægt að vörurnar séu blandaðar vel inní húðina, litir og tónar falli vel að húðinni og meikið sé ekki greinilegt. Engin brúður vill að það sjáist greinilega að hún sé með gerviaugnhár eða meik. Þó svo að förðunarfræðingurinn noti líklega mun fleiri vörur en þú ert vön að nota, þá á það ekki að þýða að þú þurfir að líta út fyrir að vera miklu meira máluð. Aðalatriðið er að láta förðunina vera eðlilega og fallega.

  1. Vatnsheldur maskari

Basic en það gleymist oft. Passaðu að spyrja förðunarfræðinginn hvort hún/hann sé ekki örugglega að nota vatnsheldan maskara og helst eyeliner líka. Þó þú sért viss um að þú munir ekki gráta þá er það betra til öryggis. Vatnsheldur maskari helst líka lengur á, í heitu veðri, við að svitna og ef þú ert með olíurík augnlok.

  1. Fáðu ráð frá hár- og förðunarfræðingum með reynslu og treystu

Algengt er að eru konur séu svo vanar að gera alltaf sama hlutinn að þær þora ekki að prufa annað. En án þess að líta út eins og allt önnur manneskja, leyfðu þá fagfólkinu að gefa þér ráð og sýna þér möguleikana sem eru í boði – það tekur alltaf smá tíma að venjast nýjum hlutum. Fólk með reynslu veit sitt fag og það er líka gaman fyrir verðandi brúðir að heyra hvað þau telja að fari manni best.

  1. Láta augabrúnirnar vaxa!

Hættu að plokka. Alveg. Ekki nema þú sért með augabrúnir eins og Cara Delevingne. Mistök sem ég sé oftast eru of mikið plokkaðar augabrúnir og á vitlausum stöðum. Náttúrulega lögun augabrúnanna er lang best. Leyfðu þeim að vaxa fyrir brúðkaupið. Sumar konur halda að þær séu með gap í augabrúnunum því þar vex aldrei hár, en hárin geta tekið langan tíma að vaxa, jafnvel marga mánuði. Láttu þær alveg vera og farðu svo í lit (ef þess þarf) og vax um 1 og hálfri viku fyrir stóra daginn á góðri snyrtistofu.

  1. Tímalaust útlit

Oft er vilja brúðir fylgja núverandi trendum og tísku en það getur elst illa. Við höfum eflaust öll séð brúðarmyndir frá the 80‘s sem við horfum á í dag og hlægjum af hárgreiðslunni og rjómabollukjólunum. Auðvitað er ekki hægt að líta alveg tímalaus út en það er hægt að reyna halda útlitinu eins klassísku og tímalausu og hægt er. Í dag er ágætt að hafa í huga að missa sig ekki í Instagram blindandi highligher eða Kim Kardashian skyggingum (contouring) því líklegt er að einn daginn verði hlegið af því. Þetta er auðvitað persónulegt val en ég mæli með að halda þessu tímalausu, fallegu og sem fer þér vel.

  1. Farðu í prufuförðun og greiðslu!

Talandi af mikilli reynslu – farðu í prufu. Ekki ætla að spara þar í fjárhagsáætluninni fyrir brúðkaupið. Í fyrsta lagi er mikilvægt að sjá hverskonar vörur förðunarfræðingurinn notar, hvernig þær koma út á þér og hvort þú fílir förðunina. Einnig er mikilvægt að sjá hvort að hárgreiðslan fari þér vel og haldist í. Mikilvægast er að fá tilfinningu fyrir förðuninni og hárinu, því stundum er upplifunin öðruvísi en fólk heldur. Ein brúður sem ég farðaði í London vildi spara og fór ekki í prufu. Hún valdi sér æðislega fallega greiðslu, en hún vildi vera með Old Hollywood bylgjur í sínu dökka síða hári. Hún fór í myndatöku úti eftir brúðkaupið og það pirraði hana að hárið var alltaf í andlitinu á henni út af vindi. Svona þarf til dæmis að hugsa út í. Einnig skiptir máli ef þú ætlar að vera með gerviaugnhár að prufa þau og sjá hvernig þau koma út á þínum augum.

  1. Taktu einhvern sem þekkir þig vel með í prufuna

Það er ótrúlega mikilvægt að fá álit þeirra sem þekkja þig best eins og t.d. mömmu, bestu vinkonu eða systur. Ég bið brúðir alltaf um að koma með einhvern með sér því að það skiptir svo miklu máli að fá álit þeirra sem þekkja þig vel til þess að gefa þér hreinskilningslegt álit. Oft eru brúðir ekki alveg vissar hvað þær vilja og þurfa álit og stuðning og jafnvel hugmyndir frá einhverjum sem þekkir þær vel.  

  1. Segðu frá og spurðu

Því meira sem þú segir hár- og förðunarfræðingnum því betra. Áður en að brúðir koma til mín í prufu bið ég þær alltaf um að senda mér myndir af hári og förðun sem þeim langar að vera með á brúðkaupsdaginn. Þá helst nýtist Pinterest vel. Því nákvæmari myndir sem förðunarfræðingurinn fær og því meira sem þú segir, því ánægðari verður þú með útlitið. Það er mjög misjafnt hvernig brúðir vilja líta út, en stundum eru þær líka óvissar. Ég fæ oft allskyns mismunandi myndir frá þeim – ein af smokey augnförðun og ein með léttri gull augnförðun. Þær átta sig ekki endilega á því hvað förðunin er ólík. Því þarf að komast að niðurstöðu með það, koma svo í prufuna og sjá hvernig þér líst á. Ég spyr einnig alltaf fullt af spurningum: hvað þeim líkar mjög vel við og hvað þær þola ekki þegar kemur að förðun og hári. Til dæmis: ég þoli ekki of mikla þekju þegar kemur að meiki. Ég elska þykkan eyeliner og stóran hnút í hárið. Þannig fær förðunarfræðingurinn betri hugmynd um hvað þú vilt og þú verður ánægðari fyrir vikið. Ef þú ert ekki viss, láttu þetta þá í hendur fagmanna og þeirra sem þekkja þig best og prufaðu þig áfram. Einnig er mikilvægt að förðunarfræðingurinn viti um þína húð- og hártegund. Ertu með þurra eða olíuríka húð? Ertu með fínt hár sem krullur haldast illa í? Þetta er mikilvægt að förðunarfræðingurinn viti.

  1. Keyptu þér eða láttu kaupa fyrir þig varalit/gloss til að hafa á deginum

Vörurnar sem förðunarfræðingurinn notar á varirnar er helst það sem mun dofna yfir daginn. Stundum hafa brúðir keypt sé varalit eða gloss sem þær ætla að nota, en oftast vilja þær kaupa varalitinn eða glossinn sem ég nota á þær í prufuförðuninni. Förðunarfræðingurinn getur líka oft keypt vöruna fyrir brúðina þar sem að hann fær oft afslátt. Einnig er gott að vera með púður og hyljara með sér á brúðardaginn.
 

  1. Hugsaðu um að allt passi saman – greiðslan, förðunin, kjóllinn…

Þetta gleymist stundum hjá sumum brúðum. Ef kjólinn er í einum stíl en hárið í öðrum og svo förðunin í allt öðrum þá kemur það vandræðalega út. Best er að halda sig við einn ákveðinn stíl og spinna það svo saman í fallegt heildarútlit.

  1. Vertu eins og þú sjálf. Þannig líður þér best.

Ef þú ert vön að vera með hárið niður, vertu þá með það niður og ekki láta þrýsta á þig að þurfa að vera með það í uppgreiðslu bara því það telst brúðarlegt. Ef þú ert vön að vera með rauðan varalit, vertu þá með rauðan varalit. Sjaldnast virkar að ætla að vera með glænýtt lúkk og prófa eitthvað alveg nýtt á brúðardaginn. Verðandi eiginmaður og fjölskylda þekkja þig best eins og þú ert „vanalega“ og málið er því klárlega að look your best self.

 

Margrét Magnúsdóttir er hár- og förðunarfræðingur, og er nýflutt til Íslands eftir að hafa starfað í London í 6 ár. Margrét hefur starfað við allskonar skemmtileg verkefni eins t.d. og Vogue Online, Will.I.Am tónlistarmyndband, Topshop, BBC, tímarit og bíómyndir. Margrét er einnig eftirsótt í brúðkaupsfarðarnir en hún ferðast reglulega erlendis til þess að farða fyrir brúðkaup. Margrét hefur mikinn áhuga á húðumhirðu, hári, förðun og fallegum hlutum.

Hægt er að fylgjast með Margéti hér ♥:

Heimasíða : www.margretmagnus.com
Instagram: www.instagram.com/margretmagnus

Snapchat: @margretmagnus

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *