Af hverju ætti ég að bera á mig augnkrem?

Get ég ekki alveg eins notað andlitskremið mitt?

Ég viðurkenni að þetta er hlutur sem ég er búin að hugsa um lengi. Æj af hverju ætti ég að vera að splæsa í einhverja pínu litla túpu af kremi, þegar ég get bara smellt andlitskreminu á allt andlitið og augun líka.

En því meira sem ég les mig til og kynni mér hvernig augnkrem virka og hvernig húðin í kring um augun er öðruvísi, þá átta ég mig á því að ef maður vill ná einhverjum ákveðnum árangri fram, þá er þetta ekki spurning. Eftir að hafa stúderað þetta fram og til baka þá langaði mig að deila með ykkur því sem ég hef lesið.

Hér eru nokkrir hlutir sem mér þykir áhugaverðir:

Húðin í kringum augun

…er alltaf á hreyfingu: Ef þú pælir í því, þá erum við alltaf að hreyfa augun. Við blikkum um 10.000 sinnum á dag, og í þokkabót hreyfast augun þegar við brosum, pírum þau í sól eða til að sjá betur og auðvitað þegar við grátum. Ekki má gleyma því að við eigum það til í að nudda augu yfir daginn, þegar við fjarlægjum farða, eða setjum í okkur linsur. Ef þú berð það saman við t.d. húðina á enninu, þá skilur maður af hverju húðin í kring um augun eldist hraðar.

…framleiðir ekki eins mikið af fitu: Við erum með mun færri fitukirtla í húðinni í kringum augun, og þar af leiðandi á hún auðveldara með það að verða þurr. Hvað gerist þegar hún er þurr? Jú fínar línur verða mun sjáanlegri.

…er þynnri heldur en húðin á restinni á andlitinu: Þar sem húðin er mun þynnri er hún einnig viðkvæmari. Því getur hún verið sérstaklega viðkvæm fyrir umhverfisáhrifum eins og t.d. sólargeislum og mengun, en einnig virkum innihaldsefnum í snyrtivörum sem að eru ætluð þykkari húð. 

Ok gott og blessað, en hver er ástæðan fyrir því að ég ætti ekki bara notað rakakremið mitt á augun?

Ef þú pælir í því, burt frá því að þetta sé allt húðin þín og á sama andlitinu, þá erum við í mörgum tilfellum jafnvel að ræða um mjög mismunandi húðtegund. Viðkvæmari, og mjög líklega þurrari. Einnig ef við erum að leitast eftir því að draga úr áhrifum öldrunar, minka dökka bauga, þrota eða þreytueinkenni þá gefur það nokkuð auga leið að það þýðir ekki að nota sama krem og við notum á allt andlitið.

Aftur á móti ef þú ert ekki með mjög viðkvæma húð og finnur ekki ástæðu til þess að nota augnkrem, þá ertu í flestum tilfellum ekki gera þér neinn skaða með því að nota bara rakakremið þitt, svo þetta er algjörlega þín ákvörðun. En þú skalt hafa það í huga að ef þú notar virk andlitskrem, svo sem krem sem að eru fyrir olíuríka bólótta húð eða anti-ageing krem, þá er mjög líklegt að innihaldsefnin séu of sterk fyrir augnsvæðið og geta því ert húðina og þurrkað hana.

Það sem hefur alltaf truflað mig, en ég skil núna.

Ef þú skoðar innihaldsefnin á andlitskremi og svo augnkremi frá sama merki þá gætirðu tekið eftir því að þau eru mjög svipuð. Margir vita það ekki en innihaldsefni eru alltaf skrifuð eftir hlutfallslegu magni, þetta gildir bæði um snyrtivörur og matvörur. Ef betur er litið á innihaldsefnin sér maður að röðin á þeim getur verið allt önnur, ásamt því að sum innihaldsefni eru tekin út og önnur sett í staðin. Þannig eru augnkrem hönnuð til þess að bera innihaldsefnin, og þá sérstaklega virk innihaldsefni inn í húðina í réttu magni sem að hentar augnsvæðinu betur.

Nokkur ráð:

Augnkrem eru borin á hreina húðina og á eftir serumi, sé það notað.

Það er mælt með því að nota baugfingur til þess að bera augnkremið á. Af hverju? Jú því það er veikasti fingurinn. Með baugfingri skal svo doppa kreminu á augnbeinið varlega og alls ekki nudda. Við þurfum bara einfaldlega ekki á því að halda að vera að fikta meira í húðinni þarna. Doppa skal kreminu létt á augnbeinið en ekki á augnlokið. Ef þú velur að nota ekki augnkrem og bara andlitskremið þitt þá mælum við með því að þú farir samt varlega að augunum þínum og notir sömu aðferð.

Það er ekki nauðsynlegt, en alls ekkert vitlaust að eiga 2 tegundir af augnkremum, með mismunandi virkni ef þú telur þig þurfa á þeirri virkni að halda.

Krem til þess að nota á morgnana til að draga úr þrota og þreytuummerkjum.

Leitið eftir innihaldsefnum eins og t.d. koffín, gingsen, Aloe Vera eða önnur kælandi eða örvandi innihaldsefni. Feit krem með góðum olíum eru einnig góð undir farða. Einnig er hægt að leitast eftir innihaldsefninu Titanium Dioxide sem að er náttúruleg sólarvörn og verndar því húðina fyrir sólinni yfir daginn.

Dæmi

Krem til þess að nota á kvöldin til þess að næra húðina og vinna gegn ótímabærri öldrun hennar.

Leitið eftir innihaldsefnum eins og t.d. Retinol (A-vítamín) sem að er vísindalega sannað að dragi úr öldrun húðarinnar, tegundum af Hylorunic Acid og/eða Glycerin sem að viðhalda rakanum í húðinni (vatni) og góðar olíur sem að næra húðina.

Dæmi

Fyrir sérstök tilefni

Fyrir sérstök tilefni, eins og t.d. áður en maður fer út getur verið gott að eiga augnpúða sem að veita mjög skjót áhrif og þú sérð mun samstundis. Augnpúðana er einnig hægt að nota 1x í viku fyrir langvarandi áhrif.

Dæmi

Það er sérstaklega áhrifaríkt fyrir þrútin augu að setja köld augnkrem á augun. Aftur á móti þá myndi ég persónulega aaaaldrei nenna að labba inn í eldhús og bera á mig augnkrem á morgnanna. Kremið myndi ekki endast lengi í ísskápnum og væri komið inn í skáp fljótt aftur, eða ég myndi einfaldlega bara gleyma því þar. Aftur á móti erum við svo „heppin“ að næturhitinn á Íslandi er ekki hár og því er mjög sniðugt að geyma kremið við svefnherbergis gluggann.

Leyfið kreminu að þorna í allavega mínútu áður en önnur vara svosem farði eða hyljari er borinn á svo að kremið nái að smjúga inn í húðina.

Algengar spurningar:

Hvenær á ég að byrja að nota augnkrem:

Oft er miðað við tvítugs aldurinn, en í raun og veru bara þegar þú finnur fyrir því að þú þurfir á auka raka að halda og þá á sama tíma og þú byrjar að nota rakakrem. Ekki er mælt með því að nota virk rakakrem sem að innihalda Retinol eða önnur anti-ageing efni fyrr en eftir tvítugt.

Af hverju er ekki mælt með því að bera augnkrem á augnlokið?

Í fyrsta lagi er það óþarfi, því að virknin dreifir sér í kring um svæðið þar sem að kremið er notað. Í öðru lagi er það ekki bara húðin okkar sem viðkvæm, heldur einnig augun sjálf og viljum við forðast það að fá vöruna inn í augun. Sérstaklega ef að hún inniheldur lyktarefni.

Mig langar að taka það fram að persónulega finnst mér svokallaðar broshrukkur í kring um augun heillandi og mynda okkar karakter. Aftur á móti skil ég að þetta geti þetta truflað fólk, og í sumum tilfellum verður húðin svo slöpp að hún getur valdið óþægindum. Það er okkar ákvörðun ef við viljum nýta okkur snyrtivörur og sama hvað hver segir, þá eru í raun og veru engar reglur hér.

Íris Björk Reynisdóttir

Ertu með spurningar? endilega sendu okkur línu á beautybox@beautybox.is eða hafðu samband á FACEBOOK

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *